Fara í efni

Ekki tímabært að ráðleggja jarðhnetur fyrir 6 mánaða aldur á Íslandi

Ekki tímabært að ráðleggja jarðhnetur fyrir 6 mánaða aldur á Íslandi. Embætti landlæknis vill benda á að ekki er talið ráðlegt að taka nýjar ráðleggingar frá bandarísku stofnuninni National Institute of Allergy and Infectious Diseases (NIAID) um leiðir til að fyrirbyggja jarðhnetuofnæmi hjá börnum í áhættuhópi upp óbreyttar hér á landi.
Ekki tímabært að ráðleggja jarðhnetur fyrir 6 mánaða aldur á Íslandi

Embætti landlæknis vill benda á að ekki er talið ráðlegt að taka nýjar ráðleggingar frá bandarísku stofnuninni National Institute of Allergy and Infectious Diseases (NIAID) um leiðir til að fyrirbyggja jarðhnetuofnæmi hjá börnum í áhættuhópi upp óbreyttar hér á landi.

Þetta kom meðal annars fram í máli Kirsten Beyer, þýsks læknis, á Læknadögum í janúar sl. Dr. Beyer sagði jafnframt þar að mikilvægt væri fyrir Ísland að skoða þessi mál vel og ekki taka beint upp bandarísku ráðleggingarnar fyrir áhættuhóp þar sem tíðni jarðhnetuofnæmis væri lág hér á landi og neysla á jarðhnetum sömuleiðis lítil.

Hún nefndi að það gæti mögulega orðið til þess að auka tíðni jarðhnetuofnæmis ef Ísland tæki ráðleggingarnar frá NIAID upp óbreyttar.

Í nýju ráðleggingunum frá NIAID er ráðlagt að börnum í áhættuhópi fyrir að þróa með sér jarðhnetuofnæmi séu gefnar fæðutegundir sem innihalda jarðhnetur (e. peanuts) á aldrinum 4–6 mánaða. Stofnunin skilgreinir þau börn í áhættuhópi sem eru með alvarlegt exem, eggjaofnæmi eða hvort tveggja.

Þetta skuli gert í samráði við heilbrigðisstarfsfólk sem geti ákveðið að láta gera frekari ofnæmispróf á börnunum áður en ráðlagt er að gefa þeim matvæli með jarðhnetum. Börnin þurfa einnig að vera byrjuð að borða aðra fasta fæðu áður en þau fá fæðu sem inniheldur jarðhnetur.

Þetta verður skoðað vel hér á landi áður en gefnar verða út sérstakar ráðleggingar fyrir börn í þessum tiltekna áhættuhópi. Foreldrum ungbarna sem eru í þessum áhættuhópi er bent á að ræða við sérfræðing í ofnæmissjúkdómum barna.


Hólmfríður Þorgeirsdóttir

Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar

Af vef landlaeknir.is