Fara í efni

Lax með stökku roði

Lax með stökku roði

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Lax með stökku roði 

Lax er með því betra sem við fáum okkur í kvöldmatinn og ekki skemmir hvað 
hann er hollur en hann er einstaklega ríkur af omega. 

Ég steiki laxinn upp úr vel af smjöri á miðlungs hita en með því nær maður roðinu 
stökku og er það alveg agalega gott.  Ég borðaði aldrei roð en fór út að borða og 
fékk lax í forrétt þar sem roðið var stökk og gott þannig að ég fór að prufa mig áfram. 

Laxinn krydda ég með sítrónupipar og sjávarsalti, ef ég á ekki sítrónupipar þá nota ég svartan pipar. 
Steiki roð hliðina fyrst, krydda hana áður og set út á miðlungs heita pönnu með vel 
af smjöri og krömdum hvítlauks geirum. Mjög gott að setja rósmarín og timjan stöngla í 
smörið á pönnunni. Á meðan roð hliðin er að steikjast, eys ég smjöri yfir sem er orðið fullt 
af bragði frá hvítlauknum, rósmarín og timjan. Eftir sirka 5-6 mínútur sný ég laxinum 
við og steiki hina hliðina og held áfram að ausa yfir laxinn.  
Heildar tíminn í steikingu fer alveg eftir þykktinni og getur tekið frá sirka 10 mínútum til 14 mínútur, yfirleitt ekki lengur en það. Skiptir mjög miklu að steikja hann ekki of lengi því þá þornar hann og verður ekki eins góður. Rétt steiking er þegar hann “dettur” í sundur í lögum á disknum hjá þér.  Þegar laxinn er kominn á diskinn er sítrónan punkturinn 
yfir i-ið!  Kreistið vel af safa yfir bitana. 

Lax

Í þetta skiptið voru kartöflur meðlætið og skar ég þær í bita og sauð þær þangað til þær voru 
nánast tilbúnar, skellti þeim þá á pönnu með ólífu olíu og smjöri, vel af hvítlauk og kryddaði 
þær með svörtum pipar og salti.  Steikti þær þar til þær fengu smá lit og voru orðnar mjúkar.  

Aspas smellur vel með laxi, einfalt að skella honum í eldfast mót, hella yfir ólífu olíu, 
sjávarsalti, pipar og pínu sírópi en það er að sjálfsögðu val.  Tekur nokkrar mínútur í ofni, 
stillt á 200° og undir og yfir hita. 

Döðlumauk er nokkuð sem ég prufaði að gera fyrir nokkrum árum og kom skemmtilega á 
óvart. Svakalega gott og einfalt að gera, passar vel með laxi, kjúkling og lambakjöti til dæmis. 

Döðlur skornar í bita og settar í pott á miðlungs hita og appelsínusafi út á. Leyfa suðu að koma 
upp og hræra vel, þá verður úr þessu mauk sem lítur eiginlega alveg eins út og rabbarbara sulta 
nema mér finnst þetta miklu betra. 

Bergþóra Steinunn
Auglýsingastjóri Heilsutorgs