Fara í efni

Prótínrík fæða gæti takmarkað ávinning þyngdartaps

Mataræði skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að heilsunni. Allt kerfið okkar, líkaminn, byggir á því að við fáum nægilega mikla orku og að orkan sem við borðum gefi okkur öll þau lífsnauðsynlegu vítamín og steinefni sem líkaminn þarf að nota.
Prótínrík fæða gæti takmarkað ávinning þyngdartaps

Mataræði skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að heilsunni. Allt kerfið okkar, líkaminn, byggir á því að við fáum nægilega mikla orku og að orkan sem við borðum gefi okkur öll þau lífsnauðsynlegu vítamín og steinefni sem líkaminn þarf að nota.

Í vestrænum samfélögum er ekki skortur á orkuríkum mat og vandinn felst yfirleitt í því að fá nægilega góða næringu án þess að innbyrgða of mikla orku.

Þetta lúxusvandamál leiðir til þess að við þyngjumst ótæpilega og það sem verra er þá leiðir þetta af sér alls kyns sjúkdóma á borð við sykursýki tvö.

Margir hafa því farið í gegnum alls kyns breytileg matarræði til að draga úr orkuinntökunni. Eitt slíkt matarræði sem er nokkuð vinsælt og hefur reynst mörgum vel snýst um að auka vægi prótína í fæðu og þá oftast á kostnað kolvetna. Rannsókn sem birtist á dögunum í Cell Reports bendir til þess að aukin inntaka prótína geti truflað áhrif þyngdartapsins á líkamann.

Rannsóknin var unnin við Washington University, en viðfangsefni hennar voru 34 konur sem áttu það sameiginlegt að vera komnar yfir tíðarhvörf og með BMI stuðul yfir 30, s.s. í offitu. Konunum var skipt í þrjá tilviljanakennda hópa, einn hópurinn breytti engu í matarræði sínu, hinir tveir fengu strangt matarræði sem rannsóknarhópurinn stjórnaði og átti að draga úr þyngd kvennanna. Fékk annar meðhöndlunarhópurinn prótínríkari fæðu en hinn, en markmiðið var að skoða hvaða áhrif prótínrík fæða hefði á efnaskipti kvennanna.

Báðir meðhöndlunarhóparnir léttust á breyttu matarræði. Þegar efnaskipti hópanna voru skoðuð kom í ljós að munur var á insúlín-næmi þeirra eftir meðhöndlun. Þær konur sem borðuðu prótínríkari fæðu voru ekki eins næmar fyrir insulíni m.v. hópinn sem ekki neytti auka prótína. Minna insúlín-næmi er eitt af upphafsstigum sykursýki tvö, en sú týpa af sykursýki er tilkomin vegna þess að líkamsfrumurnar verða ónæmar fyrir insúlíni.

Þessar niðurstöður segja okkur að konur í ofþyngd eftir tíðarhvörf græða að öllum líkindum ekki á því að léttast með því að auka inntöku prótínríkrar fæðu, ef horft er til áhættu á sykursýki tvö. Hins vegar væri áhugavert að skoða hver áhrifin væru í annars konar samsetningu af fólki, svo sem meðal karla, meðal yngri þátttakenda og meðal þeirra sem hafa þegar þróað með sér sykursýki tvö.

Grein af vef hvatinn.is