Fara í efni

Febrúar vika 3 - matseðill frá heilsumömmunni

Þá hefst þriðja vikan í sparnaðarátakinu, nú þurftum við að fara að spýta í lófana, bretta upp ermarnar og allt það til að ná takmarkinu en þessi vika verður sennilega smá áskorun því elsta skvísan er að fara í hálskirtlatöku á þriðjudaginn og verður vikan því heilmikið pússluspil varðandi vinnu og annað skipulag.
Febrúar vika 3 - matseðill frá heilsumömmunni

Þá hefst þriðja vikan í sparnaðarátakinu, nú þurftum við að fara að spýta í lófana,  bretta upp ermarnar og allt það til að ná takmarkinu en þessi vika verður sennilega smá áskorun því elsta skvísan er að fara í hálskirtlatöku á þriðjudaginn og verður vikan því heilmikið pússluspil varðandi vinnu og annað skipulag.  

Litla krúttið er með lægsta sársaukastuðul sem ég hef séð og það er sko ekkert grín,  það fer sko allt á hvolf við það eitt að fá flís eða bara finna örlítið til í fætinum þannig að ég bý mig undir svakalega viku sem yfirhjúkrunarkona á heimilinu. Við fórum í gær og keyptum nokkrar dollur af mjólkurlausum ís og svo þarf að kaupa slatta af kókosmjólk, Sollu-mangósafa og allskonar ísgerðarefni fyrir heimatilbúna framleiðslu. 

Ég hugsa að ég sé strax komin í mínus á fyrsta degi. Hún fékk að velja kvöldmatinn í gær án allra athugasemda þar sem hún fær eitthvað lítið að borða á næstunni og við vorkennum henni öll svo ótrúlega mikið en ég ætla sko ekki að segja ykkur hvað hún valdi, það er sko ekki birtingarhæft hér. 

Mánudagur:  Lambagúllasið sem ég eldaði ekki á föstudaginn.  Grænmeti og hýðishrísgrjón með. (Þarna kemst upp um mig, splæsti í Piccolo tómata, ég bara stóðst ekki freistinguna. Miðstelpan mín sagði líka, mamma keyptirðu nammi í búðinni.

j

Þriðjudagur: Ætli ommiletta verði ekki bara tilvalin á þessum þriðjudegi.  Svo einföld eldamennska og svo bara fullt af grænmeti með.

MIðvikudagur: Ég ætla að færa fimmtudagssúpuna yfir á miðvikudaginn og afgangurinn af lambagúllasinu frá mánudeginum mun breytast í kjötsúpu.  Svo einfalt og þægilegt að nota afganga.   Það má nota flesta afgangsrétti í súpur.  Bara bæta við smá vatni, krafti, kannski flösku af maukuðum tómötum og smá salti og pipar.

Fimmtudagur: Linsubauna curry gefur góða orku sem okkur á eflaust ekki eftir að veita af, alls ekki flókin matseld.

j

Föstudagur:  Mig grunar að við eigum eftir að verða þreytt þennan föstudaginn og stefnan því sett á kjúklingatortillur.

j

Laugardagur:

Í frystinum leynist eitt lambalæri sem verður tilvalið að kippa út fyrir helgina.  Lambalæri í ofninn, kartöflur á grillið (ef það verður ekki stórhríð), gott salat og sósa.  Einfalt og gott.

Sunnudagur:

Spurning um að gera aðra tilraun til að elda girnilega hnetusmjörskjúklingaréttinn sem ég ætlaði að elda í síðustu viku en náði ekki.  Hann lítur svo hrikalega girnilega út. Það fer svona eftir stöðunni, kannski verður bara grjónagrautur:) 

Ég veit að sjúklingurinn má ekki borða neitt heitt og verður sennilega bara á einhverju algeru sérfæði alla vikuna.  Skilst að ís og hristingar séu svona það besta, en ef einhver er með góðar hugmyndir og reynslu af mat sem er kaldur og mjúkur (ekki mjólkurvörur samt) þá væri mjög gott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur.

Á innkaupalistanum fyrir þessa viku mun vera mikið af hlutum til að búa til ís og næringarríka hristinga (gott fyrir kroppinn en ekki gott fyrir budduna):

  • Hrein kókosmjólk
  • Kasjúhnetur
  • Bananar
  • Avakadó
  • kókosvatn
  • kókosolía

Auðvitað ávextir og grænmeti fyrir hina skólastelpuna og okkur hin:

  • Epli
  • Appelsínur
  • gulrætur
  • gúrkur

Sem betur fer er nóg til af chia fræjum, möndlum, möndlusmjöri, frosnum ávöxtum (síðan í síðustu viku) spínati og fleiru fyrir morgunverðinn.

Ég sé fyrir mér að búa til eitthvað gott kínóa salat í byrjun vikunnar sem dugar í hádegismat fyrir mig í nokkra daga.

  • Kínóa
  • pekan hnetur
  • perur
  • fetaostur
  • kál
  • rauð paprika

Til að standast áskorunina ætla ég að taka pening út úr hraðbanka en ekki nota debetkortið þannig að ég fari ekki yfir 25.000 kallinn (helst minna þar sem hinar tvær vikurnar voru yfir takmarkinu)

Gaman að heyra hvað margir hafa ákveðið að taka þetta í gegn hjá sér líka og skemmtilegt að heyra frá ykkur bæði í skilaboðum, á blogginu og facebook.

Gangi okkur öllum rosalega vel þessa þriðju viku.

Kveðja frá heilsumömmunni