Ert þú einn af þeim sem hafa haldið alla tíð að hvítlaukslykt sé fráhrindandi fyrir konur sem þig langar að heilla? Gagnstætt því sem áður var haldið, þá er núna komið í ljós að meiri neysla á hvítlauk gæti komið þér til góða!
Ríkuleg neysla á hvítlauk getur gert líkamslykt karla marktækt meira aðlaðandi fyrir konur, samkvæmt rannsóknum sem hafa birst í vísindatímaritinu Appetite.
Í rannsókn, sem framkvæmd var í Charles Háskólanum í Prag, var helmingur karlmanna í hópi tilraunahóps látinn borða ostasamloku með 12 grömmum af hvítlauk, á meðan hinn helmingurinn fékk samloku með osti en engum hvítlauk. Þeir fengu að auki fyrirmæli um að takmarka aðra þætti sem gætu haft áhrif á líkamslykt, svo sem að reykja eða nota svitalyktareyði. Allir mennirnir gengu um með bómullarskífur í handakrikunum sem söfnuðu í sig svita og líkamslykt i 12 klukkustundir.
Viku seinna var tilraunin endurtekin en hóparnir skiptu þá um samlokur - þeir sem höfðu engan hvítlauk fengið áður fengu hann núna, og öfugt. Bómullarskífurnar voru svo bornar undir hóp kvenna, sem lyktuðu af þeim, og gáfu einkunn eftir því hversu aðlaðandi þeim þótti ilmurinn.
Í ljós kom að ilmurinn af mönnunum sem höfðu borðað góðan skammt af hvítlauk þótti meira aðlaðandi, notalegri og karlmannlegri. Hann þótti líka mildari.
Þessir men höfðu innbyrt 12 grömm af hvítlauk, en þeir sem hafa eldað úr hvítlauk gera sér grein fyrir því að það er ansi vænn skammtur. Það er þó hægt að nota aðra leið - í rannsókn þar sem menn tóku hvítlaukshylki, eins og kaupa má í heilsubúðum, kom hér um bil það sama í ljós.
Skalinn sem notaður var til þess að meta hversu aðlaðandi konunum þótti ilmurinn var frá 1-7. Í rannsókninni hafði hvítlaukur þau áhrif að skorið hækkaði frá 2.9 upp í 3.1. Það kann að virðast lítið en er þó tölfræðilega marktækur munur. En eins og rannsóknin sýndi þurfa karlmenn að háma í sig ansi mikið til að ná þessum árangri.
Rannsakendurnir segja að þessar jákvæðu niðurstöður gætu verið vegna andoxunaráhrifa hvítlauksins, sem hafa jákvæð áhrif á líkamslykt almennt séð. Einnig hefur verið nefnt að áhrifin gætu verið vegna almennra jákvæðra áhrifa hvítlauks á heilsuna - og að konur laðist frekar að ilminum af heilbrigðum mönnum.
Alla vega er þetta prýðileg afsökun til að borða meiri hvítlauk!
Greinin birtist fyrst í Huffington Post