Fara í efni

Gættu vel að próteinunum.

Gættu vel að próteinunum.

Góð og næg prótein eru undirstaða þess að byggja upp og viðhalda vöðvum og vefjum líkamans
en einnig gefa prótein í máltíðum lengri mettunar tilfinningu. Prótein eru mikilvægur
hluti af daglegu lífi og ekki síður hluti af endurheimt eftir átök í daglegu lífi. 



Fyrir fólk í kyrrsetu eru 0,8g af próteinum á hvert kg líkamsþyngdar eðlilegt viðmið fyrir daginn
(dæmi: 72 kg x 0,8 g/kg = 57,6 g / dag) en þegar álag á líkamann eykst eins og við æfingar
hækkar þörfin og fer upp í 1-1,2 g/kg. Fyrir íþróttafólk í stífum æfingum er oft miðað við
1,2-1,8 g/kg, þannig að ráðleggingar fyrir fólk í úthaldsþjálfun er 1,2-1,4 g/kg og 1,7-1,8 g/kg
fyrir fólk í kraft- og snerpugreinum. Ekki er ráðlagt að fara  yfir 2 g/kg.  

Gott er að hafa í huga að próteinrík fæða er dýrari fyrir umhverfið að framleiða en kolvetnarík fæða,
eins og eftirfarandi listi ber með sér, og því er gott að vera meðvitaður um próteinneyslu sína.  

Kjöt og kjúklingur, fiskur og annað sjávarfang, egg, mjólkurvörur. 

Prótein úr jurtaríkinu eru að fá sífellt meiri athygli og sér í lagi í þeim vegan áhuga sem við
búum við núna. Fyrir grænkerana eru það baunir og linsubaunir, sojavörur t.d. tofu og
sojahakk, hnetur og möndlur. Kínóa, korn og grænmeti inniheldur allt prótein en í frekar
litlu magni, kínóa er þó hærra, sem og grænar baunir og maísbaunir. 

Gott er hafa einhver létt prótein í síðustu máltíð fyrir æfingu til að mynda kotasælu, ost og skinku
eða kalkúna álegg eða egg og smurost á brauð eða hrökkbrauð eða inn í vefju.
Próteinin í þessari millimáltíð gefa þá gott veganesti fyrir líkamann í gegnum
æfinguna og létta mettunar tilfinningu.