Fara í efni

Skólamáltíðir í grunnskólum

Skólamáltíðir
Skólamáltíðir

Undanfarna áratugi hefur skóladagurinn í grunnskólum lengst, börn eru nú í skólanum frá því snemma morguns og fram yfir hádegi. Það var því mjög mikilvægt skref sem tekið var fyrir nokkrum árum þegar ákveðið var að allir grunnskólar skyldu bjóða upp á heitan mat í hádeginu.

Börn þurfa að borða reglulega svo þau hafi orku til að geta einbeitt sér að verkefnunum í skólanum. Skólamáltíðin í hádeginu er ekki bara mikilvæg til að hlaða batteríin heldur líka til að börnin fái að njóta góðs félagsskapar hvers annars. Bæði þarf því að huga að góðri næringu og góðum aðbúnaði barna til að nærast á skólatíma. Þar sem þetta er tiltölulega nýtt eru aðstæður í skólum fyrir mötuneyti mismunandi og enn er ýmislegt sem má bæta en starfsmenn gera sitt besta miðað við aðstæður á hverjum stað. 
 
Skólamáltíðin  
 
Matur í skólamötuneytum er vanalega matreiddur á staðnum eins og mannafli og aðstæður leyfa. Lýðheilsustöð hefur gefið út „Handbók fyrir skólamötuneyti“ en einnig er mikilvægt að fylgja því eftir að farið sé eftir þessum leiðbeiningum. Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar að kreppir að, að boðinn sé hollur matur í skólanum til að jafna stöðu barna, þannig að öll börn fái að minnsta kosti eina holla heita máltíð á dag. Skólamáltíðin getur gegnt veigamiklu hlutverki í því að börn nái ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði. Til dæmis að börn fái fisk að minnsta kosti tvisvar á viku, eins og Lýðheilsustöð ráðleggur, og fái grænmeti með matnum og ávöxt eftir matinn. Með því móti er stuðlað að því að mataræði barna sé nær ráðleggingum varðandi ávaxta- og grænmetisneyslu, þ.e. 5 skammtar á dag. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að huga að gæðum matarins og hann sé matreiddur og borinn fram á aðlaðandi hátt til að börnin hafi lyst á að borða matinn. Til dæmis er mikilvægt að ávextirnir séu ferskir og ef þeir eru skornir í bita að það sé gert stuttu áður en á að borða þá. Yngri börn kunna líka oftast betur að meta að grænmetið sé það borið fram sér þannig að þau sjái hvað þau eru að fá. 
 
Umhverfið
 
Matartíminn getur verið mikill álagstími fyrir starfsfólk og nemendur enda borða oft mörg börn í hverju mötuneyti. Matsalirnir rúma ekki nema ákveðinn fjölda, því er nemendum skipt niður í nokkra hópa og í flestum skólum hefur hver hópur um 20 mínútur í matsalnum. Hluti af þeim tíma fer í að bíða í röð eftir því að fá matinn. Börnin hafa því ekki langan tíma til að borða og njóta matarins, því er mikilvægt að sá tími sem fer að bíða í röðum sé sem stystur og að í matsalnum séu skýrar reglur til að allt gangi vel fyrir sig. Mun lengri hefð er fyrir hádegismat sem hluta af skóladeginum í leikskólum en í grunnskólum og hægt er að nýta þá reynslu sem fengist hefur þar. Eftirfarandi er tekið úr aðalnámskrá leikskóla (1999): „Mikilvægt er að kennari borði með börnunum, það skapar festu og ró meðal barnanna“ en þetta er ekki síður mikilvægt fyrir yngstu bekki grunnskóla. Nauðsynlegt er að hafa fleiri starfsmenn á matartíma til að kennari geti sinnt 20-30 börnum sem er venjuleg bekkjareining, styrkt góða borðsiði og veitt félagslegan stuðning. Forðast ætti hávaða í matartímanum en hægt er að draga úr hávaða með hljóðdempun. Mikilvægt er að tryggja umhverfi þar sem börn geta notið matarins og góðs félagsskapar.
 
Ása Guðrún Kristjánsdóttir
Höfundur er næringarfræðingur og starfar á Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands
Heimild: mni.is