Fara í efni

Í desember

Desember, öðruvísi mánuður.
Hátíðlegt er út að líta í desember
Hátíðlegt er út að líta í desember

Desember, öðruvísi mánuður.

Hugsanir um breytt og bætt mataræði eru kannski ekki þær sem eru efstar í huga landsmanna þessa dagana. Það er líka allt í lagi. Hátíðarnar og tyllidagarnir eru til að njóta þeirra eftir því sem kostur er. Njóta þess að vera með sínum nánustu og líta yfir árið, smakka á öllum hefðbundnu réttunum og jafnvel prófa einhverja nýja, jólin eru nefnilega líka menningarhátíð þegar kemur að matarmenningu.

 

Hafa hemil á sér

Þó er ekki gott að tapa sér alveg í gleðinni og matarlystinni og það sama á við um áfengi en þegar þreyta og streita er annars vegar passar áfengi illa inn í myndina. Það á sérstaklega við ef að máltíðamynstrið hefur riðlast mikið til og lítið sem ekkert verið borðað „af því að það er svo mikið að gera“ eins og gerist oft á þessum árstíma.

Regla á máltíðum allt árið, líka í desember

Reglubundnar máltíðir á tveggja til þriggja klukkustunda fresti yfir daginn og næg vatnsdrykkja á ekki síður við í desember og er hluti af því að komast í gegnum dagleg störf og einhverja hreyfingu ofan á allan jólaundirbúninginn. Það er ekki góð hugmynd að spara við sig í mat fram eftir degi til að „eiga inni“ fyrir öllum tegundunum á jólahlaðborðinu. Það leiðir bara til orkuskorts yfir daginn og vanlíðan við matarboðið, auk þess sem aðeins lítið magn áfengis getur haft mjög neikvæð áhrif.

Jólin, ekki allra

Jólin eru ekki uppáhalds tími allra og margir eru því hvað fegnastir þegar jólahátíðin er afstaðin, jólaskrautið komið niður í pappakassa og lífið komið í sinn vanalega farveg að nýju. Þeir sem helst búa við þessar tilfinningar eru  þeir sem eiga fáa að og þeim sem vex í augum allt það umstang sem jólunum fylgja og það sem á að gera á heimilinu fyrir hátíðarnar.  Þar verðum við einnig að gæta okkar og setja okkur skynsemismörk – það þarf ekki að skipta um parket og innihurðir og mála alla stofuna fyrir jólin. Það sem skiptir öllu er að það ríki friður og ró yfir heimilinu og þeim sem þar eru, jólin snúast nefnilega svo mikið um tilfinningar og andlega líðan. Það sagt þá þurfum að gæta okkur á því að eftirvæntingin fyrir hátíðs dögunum verði ekki of mikil því ef væntingarnar eru of miklar þá getur komið fram í vonbrigðum og deyfð.

Jólamaturinn, bætt hollusta ?

Töluverð breyting hefur orðið á jólamataræði landsmanna undanfarin ár, tengist meðal annars því að það hafa orðið kynslóðaskipti með breyttum matarsmekk, auk þess sem úrvalið af mat hefur aukist, þá helst villibráð og kalkúnn og annað óreykt og ósaltað kjöt. Þetta ætti að vera til bóta hvað hollustuna varðar og gefur þeim sem þurfa og vilja gæta að mataræðinu góða valkosti á veisluborðið.  Þeir sem helst þurfa að gæta að sér þegar kemur að hátíðarmatnum eru þeir sem eiga við krankleika að stríða sem snýr að hjarta- og æðaheilsu, aðallega vegna reykta og saltaða matsins, auk þeirra sem eru sykursjúkir. Allir eiga þó að geta notið veiganna og um leið samvistanna við sína nánustu sem oftast tengjast sameiginlegum máltíðum og boðum með ýmiskonar kræsingum. Sama gildir hér eins og á „nammi dögunum“ og það er að borða líka hollt í bland við minna hollt. Til að mynda gróft brauðmeti, léttar mjólkurvörur og ávexti og hafa vel af grænmetinu með máltíðum.

Hreyfing yfir hátíðarnar

Yfir hátíðarnar, ætti vel að finnast tími til að stunda einhverja hreyfingu. Annað hvort úti við eða inni á heilsuræktarstöð, auk þess sem sund er holl og skemmtileg hreyfing fyrir alla fjölskylduna. Dagleg hreyfing getur alveg passað inn í dagleg plön fjölskyldunnar og gerir hátíðardagana jafnvel enn eftirminnilegri.

Markmið

Markmið  fyrir desemeber er að halda í horfinu hvað varðar hreyfingu og stefna að því að vigtin stígi sem minnst upp á við. Einnig ætti markmiðið að vera að borða reglulegt yfir daginn til að hafa góða orku í svartasta skammdeginu og í öllu því sem gera á fyrir jólin. Líklega mæðir mest á þeim sem starfa í verslunum með langa erilsama vinnudaga en góð lausn fyrir þá er að skipuleggja sitt nesti fyrir daginn. Eða að vinnuveitendur og starfsmenn taki sig saman um að skipuleggja máltíðir, sem koma tilbúnar utan úr bæ, helst þá frá stöðum sem einnig sérhæfa sig í heilsusamlegri útgáfum af tilbúnum mat svo allir geti fundið mat við hæfi.

Áramótaheitin

Á gamlárskvöld strengja margir sitt áramótaheit og það er ánægjulegt hvað þessi heit snúast oft um þætti er snúa að heilsunni, þannig ætti það líka að vera, því hvar erum við stödd ef við höfum heilsu sem er að bresta. Janúar er góður byrjunarpunktur á nýju heilsuári, mögulega með breyttum áherslum í æfingum og næringu og jafnvel ný og stærri markmið.

Allt er þetta af hinu góða ef að skynsemin er höfð að leiðarljósi, millivegurinn er vandrataður er oftast farsælastur þegar til lengri tíma er litið.

Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi