Fara í efni

FRÓÐLEIKUR UM KOFFÍN - MIKILVÆGT AÐ FYLGJAST VEL MEÐ KOFFÍNNEYSLU BARNA OG UNGLINGA

Á undanförnum árum hefur úrval drykkja sem innihalda koffín aukist töluvert í verslunum. Er þá aðallega um að ræða meira úrval af svokölluðum orkudrykkjum.
FRÓÐLEIKUR UM KOFFÍN - MIKILVÆGT AÐ FYLGJAST VEL MEÐ KOFFÍNNEYSLU BARNA OG UNGLINGA

Áhrif koffíns.

Á undanförnum árum hefur úrval drykkja sem innihalda koffín aukist töluvert í verslunum. Er þá aðallega um að ræða meira úrval af svokölluðum orkudrykkjum.

Frá náttúrunnar hendi kemur koffín meðal annars fyrir í kaffi, tei og kakói sem og í matvælum unnum úr þessum vörum, eins og t.d. súkkulaði. Koffín er einnig notað sem bragðefni og aðallega sett í dökka kóladrykki (t.d. Kók og Pepsi), jafnt í drykki með sykri og sykurlausa, og í orkudrykki.

Koffín veldur útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra. Einnig hefur koffín áhrif á öndun, meltingu og þvagmyndun. Mikil neysla á koffíni getur valdið höfuðverk (sem er líka fráhvarfseinkenni), svima, skjálfta, svefnleysi, hjartsláttartruflunum og kvíða. Þó er fólk misnæmt fyrir áhrifum koffíns og því einstaklingsbundið hvenær of mikið magn fer að valda neikvæðum áhrifum.

 

Hámarksneysla koffíns á dag fyrir mismunandi hópa:

Fullorðnir 400 mg koffín
Barnshafandi konur 200 mg koffín
Börn og unglingar 2,5 mg koffín/kg líkamsþyngdar

 

Dæmi um magn koffíns í drykkjum og súkkulaði:

Orkuskot ( 50-60 ml) 80- 220 mg
Orkudrykkur (500ml) allt að 160 mg koffín
Kaffibolli (200ml) 100 mg koffín
Kóladrykkur (500ml) 65 mg koffín
Svart te (200ml) 35 mg koffín
Dökkt súkkulaði (50g)  33 mg koffín

 

Koffín og börn og unglingar

Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum koffíns og getur neysla þess valdið ýmsum breytingum á hegðun þeirra, s.s. svefnerfiðleikum, óróleika, pirringi og kvíða ásamt áðurnefndum áhrifum. Þess má líka geta að koffín er vanabindandi efni og því ekki æskilegt að börn og unglingar venjist neyslu drykkja sem innihalda koffín.Hámark daglegrar neyslu á koffíni fyrir börn er sett við 2,5 mg fyrir hvert kíló líkamsþyngdar. Þetta þýðir að barn sem vegur 20 kíló ætti ekki að neyta meira en 50 mg af koffíni. Til samanburðar má geta þess að hálfur lítri af kóladrykk gefur um 65 mg af  koffíni.

Einnig má nefna að sum einkenni eins og svefnerfiðleikar geta komið fram við mun lægri neyslu en hámarksgildið er.

Í matvöruverslunum er nú hægt að nálgast svokölluð orkuskot (litlar flöskur, 50-60 ml) sem innihalda koffínmagn á bilinu 80-220 mg. Neyti börn eða unglingar slíkra drykkja þá er mikil hætta á neikvæðum áhrifum og nauðsynlegt að foreldrar og forráðamenn fylgist vel með því að börn þeirra drekki ekki umrædd orkuskot.

Almennt um orkudrykki

Orkudrykkir eiga það sameiginlegt að í þeim er koffín og þeir hafa því örvandi áhrif. Í mörgum tegundum orkudrykkja eru auk koffíns önnur örvandi efni, s.s. ginseng og guarana. Í flestum orkudrykkjum er jafn mikið af viðbættum sykri og í gosdrykkjum eða jafnvel meira magn.

Ekki er mælt með því að nota orkudrykki til að slökkva þorsta eftir íþróttaæfingar eða á meðan á þeim stendur. Það getur aukið vökvatap líkamans enn frekar vegna áhrifa koffíns á þvagmyndun. Einnig getur neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu valdið hjartsláttartruflunum. Ekki ætti að blanda orkudrykk saman við áfengi þar sem dæmi eru um að einstaklingar hafi fengið miklar hjartsláttartruflanir við slíkar aðstæður.

Merkingar

Innihaldi drykkur koffín kemur það fram í innihaldslýsingu. Ef koffín magn fer yfir 150 mg/l er hann merktur á eftirfarandi hátt „Inniheldur mikið af koffíni“ (á ensku: ,,High caffeine content”). Allir orkudrykkir, hvort sem er í litlum eða stórum umbúðum, sem innihalda mikið af koffíni eru því merktir sérstaklega. Slíkir drykkir henta alls ekki börnum og unglingum.

Forvarnir

Börn ættu ekki að neyta orkudrykkja og sem minnst af gosdrykkjum – og unglingar ættu að takmarka neyslu sína á þessum drykkjum. Þetta er vegna koffíninnihalds drykkjanna  sem og sykurinnihalds sem getur stuðlað að ofþyngd og offitu, auk þess sem sykurinn skemmir tennurnar. Sýran í drykkjunum, hvort sem um er að ræða sykraða eða sykurlausa gosdrykki eða orkudrykki, getur einnig leyst upp glerung tannanna.

Íþróttaiðkun

Þjálfarar og forsvarsmenn íþróttafélaga og íþróttamannvirkja ættu að fylgjast vel með því að börn og unglingar séu ekki að neyta orkuskota né annarra orkudrykkja né hafi aðgang að þeim í íþróttamannvirkjunum. 

Grein af vef heilsuhegdun.is 

 

 

 

Krækjur tengdar efninu: