Fara í efni

Fita er ekki öll þar sem hún er séð

Fituneysla Íslendinga hefur minnkað umtalsvert síðustu 40 árin. Sérstaklega á þetta við um neyslu mettaðrar eða harðrar fitu.
Fita er ekki öll þar sem hún er séð

Fituneysla Íslendinga hefur minnkað umtalsvert síðustu 40 árin. Sérstaklega á þetta við um neyslu mettaðrar eða harðrar fitu.

Fituneyslan samsvarar nú 36 prósent af heildarorkuneyslunni, samkvæmt nýlegri landskönnun á mataræði á vegum Landlæknisembættisins.

Þetta er talin of há tala því í flestum tilvikum er mælt með að fita sé 25 - 35 prósent heildarorkunnar. Þá er neysla mettaðrarar fitu og transfitu hér á landi um 15 prósent orkunnar sem er umtalsvert meira en mælt er með (8 - 9 prósent).

Fituneysla er almennt meiri meðal karla en kvenna hér á landi. Yngsta fólkið virðist hins vegar velja fituminnsta fæðið. Fram kemur í könnunni að ungt fólk á aldrinum 18 - 30 ára borðar þrisvar sinnum meira af pasta, frönskum kartöflum og sykruðum mjólkurvörum en þeir elstu (61-80 ára), sjö sinnum meira af pítsu, fimm sinnum meira af sykruðu gosi og tíu sinnum meira af prótein- og megrunardrykkjum. Eldra fólkið borðar tvisvar sinnum meira af fiski og nýjum kartöflum en unga fólkið og fjórum sinnum meira af innmat.

Hver er ástæðan fyrir því að Landlæknisembættið og flestar vestrænar lýðheilsustofnanir hafa hvatt til minni fituneyslu? Þessar ráðleggingar má aðallega rekja til tengsla sem talin hafa verið til staðar á milli fituneyslu annars vegar og offitu, hjarta-og æðasjúkdóma og krabbameina hins vegar. 

Offita

Offita er uppsöfnun líkamsfitu sem leiðir til þyngdaraukningar. Meira en þriðjungur fullorðinna Bandaríkjamanna þjáist af offitu. Löngum hefur verið talið að mikil fituneysla stuðli að offitu enda inniheldur hvert gramm af fitu níu hitaeiningar, en hvert gramm af kolvetnum og próteinum aðeins fjórar. Til að draga úr fituneyslu hafa vestrænar þjóðir hvatt til neyslu afurða með lágu fituinnihaldi. Matvælaframleiðendur hafa brugðist við þessu á jákvæðan hátt og í dag höfum við aðgang að miku úrvali fituskertra matvæla Þessar vörur eiga það hins vegar margar sammerkt að þær innihalda mikið af sykri.

Áhugavert er að skoða tíðni offitu hér á landi á árabilnu 1990-2007 en þá dró verulega úr fituneyslu þjóðarinnar. Árið 2003 birti Manneldisráð niðurstöður könnunar sem sýnir að fituneysla Íslendinga minnkaði umtalsvert á árabilinu1990 - 2003. Eftirfarandi kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar: "Fituneysla hefur t.d. tekið stakkaskiptum frá árinu 1990, en þá var óhóflegt fitumagn tvímælalaust helsti ókostur á fæðuvenjum alls þorra Íslendinga. Nú hefur fitan minnkað úr 41% í 35% orkunnar að meðaltali og er heildarfita nú að nálgast æskileg mörk samkvæmt manneldismarkmiðum, en þau hljóða upp á 25-35% orku úr fitu". Hverju skyldi þetta svo hafa skilað þegar kemur að bættri heilsu? Skyldi þetta hafa dregið úr offitu? Myndirnar hér að neðan eru fengnar að láni frá Lýðheilsustöð

 

Myndin sýnir prósentuhlutfall karla með offitu (BMI>30) hér á landi 1990 - 2007

 

Myndin sýnir prósentuhlutfall kvenna með offitu (BMI>30) hér á landi 1990 - 2007

Ljóst er að tíðni offitu hefur aukist mikið á tímabilinu sem um ræðir, á sama tíma og fituneysla hefur minnkað umtalsvert. Þótt fara beri varlega við að draga áyktanir um mögulegt orsakasamband, er ljóst að minnkuð fituneysla Íslendinga hefur ekki komið í veg fyrir vaxandi tíðni offitu. Sumir hafa haldið því fram að ofneysla sykurs sé meginorsök vaxandi tíðni offitu hér á landi. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða myndina hér að neðan sem sýnir sláandi aukningu á neyslu gosdrykkja hér á landi á árabilinu 1960 - 2000. 

Hjarta-og æðsjúkdómar

Hjarta-og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin hér á landi. Fylgni er á milli hárrar blóðfitu, sérstaklega kólesteróls og LDL-kólesteróls annars vegar og hætunnar á hjarta-og æðasjúkdómum hins vegar. 

Neysla mettaðrar fitu hefur löngum verið talin hækka kólesteról og því hafa lýðheilsuyfirvöld hvatt til minni neyslu mettaðrar fitu í því skyni að draga úr tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. Sú staðreynd blasir hins vegar við, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að vísindalegar sannanir fyrir því að neysla mettaðrar fitu auki hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum eru býsna fátæklegar. Þó benda sumar rannsóknir til þess að neysla fjöl-og einómettaðra fitusýra sé æskilegri en neysla mettaðrar fitu þegar kemur að hjarta-og æðsjúkdómum. Hins vegar hafa rannsóknir ekki sýnt fram á að neysla kolvetna sé æskilegri en neysla mettaðrar fitu til að forðast þessa sjúkdóma. 

Áhugavert er að rifja upp stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á áhrifum þess að draga úr fituneyslu á tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. The Womens Health Initiative (WHI)rannsakaði 19.500 konur (meðalaldur 62.3 ár). Helmingur þeirra fékk ráðleggingar um mataræði og hvatningu um að draga úr fituneyslu og auka neyslu á kornvörum, ávöxtum og grænmeti. Hinn helmimgurinn fékk engin slík ráð. Konunum var fylgt eftir í átta ár. Hlutfall fitu í heildarorkuneyslu minnkaði um 8.2 prósent í fyrrgreinda hópnum og LDL-kólesteról (vonda kólesterólið) lækkaði marktækt í þessum hópi. Enginn munur reyndist hins vegar á tíðni hjarta-og æðsjúkdóma milli þessarra hópa. Því tókst ekki að sanna tilgátuna að minnkuð fituneysla dragi úr tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. 

Síðustu 30 árin hefur dánartíðni vegna hjarta-og æðasjúkdóma lækkað hér á landi sem og víða annars staðar á vesturlöndum. Nýgengi kransæðastíflu hefur einnig lækkað, sérstaklega meðal karla. Þetta er talið eiga sér margþættar skýringar sem lúta bæði að breytingum á áhættuþáttum og framförum í meðferð þessara sjúkdóma. Sumir hafa talið að minnkuð neysla fitu geti átt hlut að máli og verður það vissulega ekki útilokað. Þó er vafasamt að draga þá ályktun í ljósi þess að inngrips-rannsóknir, eins og WHI, hafa ekki sýnt að minnkuð neysla fitu dragi úr tíðni hjarta-og æðaáfalla. 

Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma hér á landi fór hratt vaxandi upp úr 1950 og náði hámarki á áraunum 1970 -1980. Eftir það fór dánartíðnin lækkandi og segja má að árið 2005 hafi hún verið orðin nokkuð svipuð og hún var árið 1955. Nokkuð erfitt er að tengja þessa þróun við breytingar í fituneyslu landsmanna.

Magn kólesteróls í blóði Íslendinga hefur lækkað síðustu fimmtíu árin. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar varð mestur hluti lækkunarinnar eftir 1990. Fljótlega upp úr 1990 fór notkun blóðfitulækkandi lyfja hratt vaxandi og er líklegt að það skýri að einhverju leyti þá lækkun sem orðið hefur á kólesterólgildum landsmanna. Sérfræðingar Hjartaverndar hafa þó talið að lækkunina megi fremur rekja til breytinga á mataræði landsmanna. Telja þeir að minni neysla transfitu, mettaðrar fitu, sérlega feitra mjólkurafurða og lambakjöts, auk meiri neysla fjölómettaðrar fitu, eigi hér stærstan hlut að máli. Rétt er þó að hafa í huga, þegar þetta er skoðað, að nýleg samantekt á rannsóknum sem skoðað hafa tengsl neyslu á mettaðri fitu við hjarta-og æðasjúkdóma hefur ekki bent til þess að neysla mettaðrar fitu auki líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Hins vegar benti svokölluð Lyon Heart rannsókn til að neysla fjölómettaðra fitsýra, sérstaklega omega 3 (alfa-linolenic acid), sé gagnleg og geti minnnkað líkur á hjarta-og æðaáföllum meðal sjúklinga sem fengið hafa kransæðastíflu.

Krabbamein

Sumar rannsóknir hafa bent til þess að krabbameinstíðni sé hærri meðal þjóða þar sem fituneysla er mikil og lægri meðal þjóða þar sem hún er lítil. Hins vegar benda fjölmargar aðrar rannsóknir til að ekki sé orsakasamband sé á milli fituneyslu og krabbameina. Það er því ljóst að engar sannanir eru fyrir því að neysla fitu auki tíðni krabbameina.

Niðurstaðan

Aðalástæða þess að lýðheilsuyfirvöld hvetja til minnkaðrar fituneyslu eru tengslin sem talin hafa verið á milli fituneyslu annars vegar og tíðni offitu, hjarta-og æðsjúkdóma og krabbameina hins vegar. Reynsla og rannsóknir síðustu ára sína hins vegar að fituneysla er ekki orsök vaxandi tíðni offitu, hvorki hér á landi né annars staðar. Líklegra er að um sé að kenna óhóflegri sykurneyslu, ásamt ýmsum öðrum þáttum.  Þá benda rannsóknir ekki til að minnkuð fituneysla dragi úr tiðni hjarta-og æðasjúkdóma. Nokkrar rannsóknir benda þó til að fjölómettaðar og einómettaðar fitusýrur séu æskilegri en mettuð fita í þesu samhengi. Ekki hefur sannast að fituneysla auki hætti á krabbameinum. Því er nokkuð ljóst að lýðheilsuyfirvöld þurfa að endurskoða ráðleggingar um fituneyslu til almennings. Aukin fræðsla um mismunandi gerðir fitu og áhrif þeirra á heilsu og sjúkdóma er nauðsynleg, enda eru fitur fjölbreytilegur fæðuflokkur og fitur vafalítið mishollar.

Grein frá mataraedi.is