Fara í efni

Þægindi og hreyfing

Ég hef starfað í líkamsræktargeiranum undanfarin ár og tekið eftir fólki í ýmsu formi.
þægindi og hreyfing
þægindi og hreyfing

Við sem manneskjur fæddumst með útlimi til að hreyfa okkur og vöðva til að hreyfa útlimina. Sterksti maður heims og heimsmeistarinn í maraþonhlaupi eru eins og sitthvor tegund mannskepnunnar, sem eru báðar með ofurkrafta í sitthvora áttina.

Sá sterki er þó takmakaður að of litlu þoli og sá fótfrái er takmarkaður af of litum styrk. Sama fólk gæti heldur ekki lyft 10kg lóði frá gólfi og upp yfir haus, mörg hundruð kíló í hnébeygju en þeir hafa átt í mesta basli með að labba upp 10 tröppur. Svo hef ég einnig séð fólk sem virðist alveg þindarlaust.

Þegar við, hinn almenni borgari, æfum þá eigum við að vinna bæði með þolið og styrkinn, því þannig er manneskjan byggð. Við þurfum styrkinn t.d til að geta lyft börnunum okkar, unnið í garðinum, flutt búslóðina okkar eða annarra, borið burðarpoka og lyft sæmilega þungum  hlutum í hversdeginum. Svo þurfum við líka þolið t.d til að geta hreyft okkur skammlaust upp nokkrar tröppur, gengið á fjöll (mæli með Esjunni), hlaupið og leikið með börnum okkar, tekið þátt í íþróttaviðburðum og hreyfingu með vinum og vandamönnum.

Því miður virðist mestallt Vestrænt samfélag vera stílað inná það að við hreyfum okkur sem allra minnst og notum sem minnst vöðvana s.s með kerrum í búðum, rúllustigum, lyftum, færiböndum (líkt og flugvöllum), tökkum til að opna hurðir, fjarstýringar á skott á bílum, heimsendingarþjónusta á mat (oftast óhollum skyndibitamat), bílalúgur o.fl.. o.fl. Það mætti halda að velflest okkar séum verulega hreyfihömluð. Ef við snúum þessari þróun ekki við þá endum við öll 300 kg í fjarstýrðum hjólastólum, þá segi ég bara verði okkur að góðu, við eigum þá ekki betra skilið!

Gerum okkur greiða í dag og leggjum bílnum langt frá matvörubúðinni, tökum körfu  í hendina  við innkaupin (nema að innkaupin séu þeim mun meiri) og jafnvel tvær. Þegar við erum búnin að setja matvörurnar í poka þá ættum við að bera þá út í bíl í stað þess að setja þá í kerru, vonandi er bílnum líka langt a.m.k 500 metra frá búðinni.

Ef þið reynið þetta á hverjum degi að þá eruð þið að leggja ykkar að mörkum að berjast gegn óvænlegri þróun á offitu og öðrum lífsstílssjúkdómum. Hver þarf að fara í líkamsræktina ef hann er berandi þunga innkaupapoka um allt? Því tækifærin til að rækta líkamann erum útum allt við þurfum bara að hafa hugmyndflug til að framkvæma það.

Hættum að nota þessi þægindi sem nútímasamfélag hefur þróað og  förum að rækta Víkingaeðlið í okkur með því að huga að því að hreyfa okkur á hverjum degi.  Verum líka fyrirmyndir barna okkar og hreyfum okkur með þeim. Með því sláum við tvær flugur í einu höggi, náum að eiga góða stund með börnum okkar og höldum okkur í góðu formi um leið. 

Heimild: heilsugeirinn.is