Fara í efni

Notkun á heilsuúrum skilar ekki árangri, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar

Þrátt fyrir miklar vinsældir skilar notkun svokallaðra heilsuúra ekki tilskildum árangri, ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í tímaritinu Journal of American Medical Association í gær. Rannsóknin er ein sú fyrsta sem kannar áhrif þess að nýta sér heilsuúr til að bæta heilbrigði.
Notkun á heilsuúrum skilar ekki árangri, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar

Þrátt fyrir miklar vinsældir skilar notkun svokallaðra heilsuúra ekki tilskildum árangri, ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í tímaritinu Journal of American Medical Association í gær.

Rannsóknin er ein sú fyrsta sem kannar áhrif þess að nýta sér heilsuúr til að bæta heilbrigði.

Rannsóknin stóð yfir í tvö ár og voru þátttakendur hátt í 500 einstaklingar á aldrinum 18 til 35 ára sem allir glímdu við offitu. Þátttakendur voru beðnir að breyta mataræði sínu auk þess að hreyfa sig meira á meðan á rannsókninni stóð. Til að kanna áhrif notkunar heilsuúra fékk helmingur þeirra heilsuúr til að nýta sér í lífstílsbreytingunni en hinn helmingurinn ekki.

Í ljós kom að hópurinn sem ekki notaðist við heilsuúr missti marktækt fleiri kíló á tímabilinu en þeir sem fengu heilsuúr. Sá hópur sem nýtti sér heilsuúr missti að meðaltali 3,6 kg á meðan hópurinn sem ekki nýtti sér úrin missti að meðaltali 5,9.

Niðurstöðurnar líta ekki vel út fyrir heilsuúr en rannsóknarhópurinn segir að þær þýði þó ekki að fólk eigi að leggja úrunum. Frekar skuli taka áhrifum þeirra með fyrirvara enda er margt sem gæti skýrt niðurstöðurnar.

Í samtali við BBC sagði Dr John Jakicic, fyrsti höfundur greinarinnar, að til dæmis hafi “fólk þá tilhneigingu að nota tæki líkt og þessi í smá tíma og missi svo áhuga á þeim þegar nýjabrumið fer af þeim”. Einnig telur Dr Jakicic að þeir sem nýti sér úrin gleymi ef til vill frekar að huga að mataræðinu en þeir sem gera það ekki. Jafnframt gæti notendum þótt niðurdrepandi að ná ekki markmiðunum sem þeir hafa sett í gegnum úrið sem gæti haft letjandi áhrif.

Grein af hvatinn.is