Fara í efni

Niðurstöður könnunar. Hvað hreyfir þú þig oft í viku.

Niðurstöður könnunar. Hvað hreyfir þú þig oft í viku.

Heilsutorg spurði lesendur sína hversu oft í viku þeir hreyfðu sig 30 mínútur á dag eða lengur. Niðurstöðurnar voru ánægjulegar en 40% sögðust hreyfa sig daglega í 30 mínútur eða lengur, 48% hreyfðu sig þetta lengi 3-4 x í viku en aðeins 13% hreyfðu sig aldrei. Samtals eru 88% að hreyfa sig  amk. 3 sinnum í viku í 30 mínútur alls. Glæsilegt Íslendingar.

Hreyfing er nauðsynleg fyrir alla, hversu lítil sem hún er, en æskilegt er að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi og þá í að minnsta kosti 30 mínútur. Þessum tíma má skipta upp í smærri einingar t.d. 2 x 15 mínútur, allt eftir því sem hentar best. Eins og algengt er í dag þá nýta margir ferðamáta sinn til og frá vinnu og til annarra erindagjörða sem hreyfingu dagsins. Þetta er mjög góð leið þar sem það sparar að sumu leiti tíma og er efalaust mjög umhverfisvænt. Reykjavíkurborg og sum sveitarfélög á landinu hafa lagt töluvert fjármagn í að skipuleggja og gera hjólastíga betur úr garði og auka þannig öryggi þeirra sem nota þessa stíga, bæði gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarenda.

Ánægjulegt er hversu mörg fyrirtæki hafa lagt sitt af mörkum til að gera starfsmönnum sínum kleift að nýta ferðamáta til og frá vinnu sem hreyfingu dagsins með góðum búningsherbergjum og góðri, jafnvel myndavélavaktaðri aðstöðu til að geyma hjól. Í nokkrum tilfellum er hægt að stunda heilsurækt innan veggja fyrirtækisins t.d. í hádegishléum og sumir vinnufélagar hlaupa í hádeginu allan ársins hring. Sveigjanleiki í vinnutíma fyrir hreyfingu og heilsurækt er einnig við lýði á sumum vinnustöðum auk þess sem átaksverkefni Íþrótta og Ólympíusambands Íslands eru frábært verkefni sem komið hefur mörgum af stað í skipulagða hreyfingu og þjappað saman vinnufélögum í heilsusamlegri keppni. Vonandi halda þessi verkefni áfram en lesa má um þau á www.isis.is

Margir foreldrar sækja börn sín í daggæslu hlaupandi með hlaupakerrur eða með sérstakar barnakerrur fastar aftan í hjól sín og getur þetta verið gæða tími foreldris og barns, tími sem annars er eytt innilokaður í bíl í umferðinni. 

Fyrir börn og unglinga er hreyfing nauðsynleg og er foreldrum ráðlagt að stuðla að því að börn þeirra hreyfi sig í um 1 klst. á dag. Best er að taka einhverja af þessari hreyfingu saman og ná þannig gæðatíma með börnunum en íslenskar rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar vilja eyða gæða tíma með foreldrum sínum.

Mikil fjölbreytni er í þeirri hreyfingu sem íþróttafélög, heilsuræktarstöðvar og aðrir aðilar bjóða upp á fyrir börn allt niður í 18 mánaða aldurinn, að ólgeymdu ungbarnasundinu fyrir þau allra yngstu. Lengi býr að fyrstu gerð og því er nauðsynlegt að vanda vel til verka bæði við val á leiðbeinendum svo og við skipulag kennslunnar.

Hreyfing í daglegu lífi snýst fyrst og fremst um skiplag, „nenni“ og því að muna eftir að gera hreyfingu að hluta af daglegu lífi. Þetta getur verið púsluspil sem samt skilar sér svo margfalt til baka í betri heilsu og líðan þegar hreyfingin er orðin hluti af skipulagi dagsins.

Vísa í fjölda greina um hreyfingu á Heilsutorg.com svo og viðburðadagatal Heilsutorgs og Hlaup.is 

Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur.