Fara í efni

Að komast í form... aftur. Reynslusaga Evu

Ég varð fyrir því óláni að fótbrotna í 10 km keppnishlaupi í sumar.
Eva Skarpaas
Eva Skarpaas
Að komast í form... aftur.
 
Ég varð fyrir því óláni að fótbrotna í 10 km keppnishlaupi í sumar.  Á keppnisdaginn leið mér sérstaklega vel og var að hlaupa á fínum hraða, alveg að detta í toppform á tímabilinu. Á níunda kílómeter fékk ég allt í einu snöggan sting rétt fyrir ofan ökklann.  Ég var varla búin að klára hugsunina um að þetta mætti nú alls ekki trufla mig síðustu tvo km þegar ég fann eitthvað bresta.  Ég haltraði út af brautinni, tók af mér hlaupanúmerið og sá hlaupatímabilið fjúka út í veður og vind.   Það kom í ljós að sperrileggurinn (fibula) í vinstra fæti fór í tvennt, 6 cm fyrir ofan ökkla.  Þetta var svokallað álagsbrot og framundan 4-6 vikur í gipsi og endurhæfing í framhaldinu.
 
Ég er lánsöm að vera þannig gerð að ég er mjög lítið að velta mér upp úr því sem ég get ekki gert en hef þess þá heldur meiri áhuga á því sem ég get gert.  Ég fór strax að reyna að finna leiðir til að lágmarka skaðann og jafnframt viðhalda geðheilsu (minni og minna nánustu :).  Ég þrífst á að setja mér markmið og ná þeim og það á við um allt mögulegt í lífinu, ekkert endilega bara tengt hlaupum.  Fyrsta markmið eftir áfallið var að komast í einhverja hreyfingu sem allra fyrst.  Á þriðja degi, í þessu líka fína fjólubláa gipsi, ákvað ég að prófa að hjóla smá hring í hverfinu og það gekk eins og í sögu.  Mesta áskorunin við hjólið var að finna leið sem gæti hjólað án þess að þurfa nokkurn tíma að stoppa, því það gat ég ekki nema upp við vegg og nálægt hækjunum mínum...  Ég fann mér líka 400 m hring í hverfinu sem ég gat notaði fyrir hækju-hjökkts æfingar.  Ég 'googlaði' hvernig best væri að ná sér af svona broti og fann heilmikinn fróðleik um æfingar og annað.  Ég keypti mér svaka fínan poka í apóteki utan um gipsið til að geta farið í sturtu og samkvæmt leiðbeiningum átti að vera óhætt að synda með hann.  Ég fór glöð í bragði í sund og náði að synda nokkur hundruð metra, alsæl.  Ég var reyndar ekki alveg jafn sæl þegar ég kom upp úr og fann að pokinn hafði greinilega lekið, gipsið hundblautt og ég þurfti að fara sneypuleg aftur upp á slysó og fá nýtt gips.  
 
Tveim vikum eftir brot gat ég tyllt aðeins í hælinn og einhver sagði mér frá því að það væru til spelkur sem gætu komið í stað gipsisins.  Ég mætti upp á slysó með svona spelku og grátbað lækninn um að leyfa mér að skipta.  Hann leit á mig raunamæddur svip og sagði: 'Það þýðir ekkert að hafa svona fólk eins og þig í gipsi...'  svo dæsti hann og sagði að það væri bara peningaeyðsla að setja mig í spelkuna.  Hann lét klippa af mér gipsið og kvaddi mig með þessum orðum:  'Farðu bara heim til þín og vertu skynsöm, þá verður þetta allt í lagi'.  Ég get ekki nógsamlega þakkað þessum reynda lækni fyrir að hafa lesið mig svona rétt og treyst því að ég væri sú manneskja sem væri mest í mun að verða heil aftur og þar af leiðandi myndi ég vera skynsöm.  Að losna úr gipsinu gerði það að verkum að ég gat synt og það var miklu auðveldara að hjóla.  Ég gat strax farið að gera léttar æfingar til að ná góðri hreyfingu í ökklann og rýrnaði nánast ekkert. 
 
Fyrsta 'hlaupa' markmiðið mitt var að geta tekið þátt í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoni sem var 6 vikum eftir brot.  Ég var löngu búin að skrá mig, var að safna áheitum fyrir litla ofurhetju og mér hefði þótt hrikalega súrt að missa af því.  Viku fyrir RM gat ég ekki hlaupið skref en ég gat gengið og það var nóg.  4 dögum fyrir hlaup fann ég að ég gat aðeins skokkað, fór tveggja km hring ofur varlega og allt í góðu.  Fjórir km daginn eftir og sex þann næsta..  Ég var svo glöð að standa á ráslínunni þegar til kom að ég hefði sennilega bara getað flogið þetta... ef ég hefði ekki getað hlaupið.  En þess þurfti ekki, ég bjó greinilega að gamla forminu og með því að hætta aldrei að hreyfa mig og leggja mig alla í að ná bata þá var niðurstaðan sú að ég hljóp alla leið og brosti hringinn.  Ég bjó heldur betur að áralangri góðri meðferð á kroppnum sem skilaði mér í mark á 48 mínútum.
 
Eftir RM endurskoðaði ég markmiðin og byrjaði aftur á byrjuninni. Ég fór í stutta hlaupatúra í hverfinu og gaf mér góðan tíma að vinna mig upp í meiri vegalengdir og undirbúa mig fyrir næsta markmið sem var að geta verið með í Powerade hlaupaseríunni.  Í september byrjaði ég að hlaupa með vinnufélögunum á skipulögðum æfingum sem var frábær undirbúningur fyrir stóra stökkið... að mæta á æfingar með gömlu hlaupafélögunum.  Á fyrstu æfingunni var markmiðið einungis að ná að klára upphitunina!  En eins og allt sem maður leggur rækt við þá var þetta ótrúlega fljótt að koma.  
Ég fann framfarir með hverri æfingunni og það að hafa góða æfingafélaga er ómetanlegt.
 
Á fimmtudaginn var fyrsta Powerade hlaupið í vetur og það var örugglega enginn glaðari en ég á ráslínunni.  Ég naut hverrar mínútu, taktfast og agað í byrjun, svo pjakka upp brekkuna, rúlla létt og hratt niður dalinn og já meira að segja síðustu kílómetrana þegar ég var alveg búin á því, móð og másandi, þá naut ég þess.  Naut þess að finnast eins og lungun væru að springa og að ég kæmist ekki fetinu lengra en gera það samt.  Naut þess að fá að vera í hópi fremstu kvenna á ný og finnast alls ekki svo langt í land að komast aftur í toppform.   Naut þess bara svo innilega að vera.
 
Það er nefnilega þannig í lífinu að maður lærir fyrst fyrir alvöru að meta eitthvað, þegar það er frá manni tekið. 
 
Kv. Eva