Fara í efni

Skömmin sú arna!

Skömm er tilfinning sem við fæðumst með. Hún hjálpar okkur að leitast við að gera betur og getur hvatt okkur til betri verka. Okkur þykir skammartilfinning óþægileg og hún á að vera það.
Skömm eða sektarkennd?
Skömm eða sektarkennd?

Skömm er tilfinning sem við fæðumst með. Hún hjálpar okkur að leitast við að gera betur og getur hvatt okkur til betri verka. Okkur þykir skammartilfinning óþægileg og hún á að vera það.

Mörg okkar eiga í vanda með að skilja á milli skammar og sektarkenndar og oft eru skilin óskýr.  En sektarkenndin er fremur verkefnatengd. Við  gerum á hlut einhvers og hún sendir okkur skilaboð um að bæta ráð okkar.

Skömmin er mun leyndari enda er það eitt  af höfuðeinkennum hennar að vilja vera leyndarmál.  Við viljum ekki að annað fólk viti hvernig við erum!

Skömmin er líka nátengd annarri tilfinningu sem snýr að  áliti annarra á okkur.  Við viljum að öðru fólki líki við okkur. Það er okkur eðlislægt en verði álit annarra á okkur að drifkraftinum í lífinu, erum við komin í veruleg vandræði.  Þá hættum við að stjórnast af því hvað okkur er fyrir bestu en förum að láta ímyndað álit annarra stjórna ferðinni.

Skömm getur snúið bæði inn á við og út á við.  Við getum í sumum tilfellum fundið fyrir skömm gagnvart okkar nánustu. Unglingar skammast sín stundum fyrir foreldrana til dæmis.  Enn og aftur er álit annarra á okkur, drifkrafturinn.

En við getum líka skammast okkar fyrir eigin vangetu, efnahagslega stöðu, litla menntun, útlit eða hvaðeina það sem hægt er að tína til.  Slík skömm er afar meiðandi í okkar eigin garð.  Hún framkallar brotið sjálfsmat, ótta, vanlíðan, sjálfsvorkunn, depurð og fleiri neikvæðar tilfinningar.  Þegar skömmin fær að næra okkur á þann veg skapar hún mikið sjálfsniðurrif , efa og kvíða.  Óttinn við höfnun getur orðið sjúklegur þegar skömm, leyndarmál og óttinn við álit annarra taka höndum saman.

Það er mjög mikilvægt að vinna með skömm.  Það getur verið mjög snúið og best er að vinna með hana með einhverjum sem þekkir eyðileggingarmátt hennar.  Að losna frá skömm er einstaklega frelsandi.  Það er eins og að losna við risastóra keðju sem hefur haldið okkur föstum.

Að losna frá skömm framkallar bjartsýni og von.  Við fyllumst orku og framkvæmdagleði  og vandamálin verða frekar að verkefnum sem hægt er að leysa. Þá  finnum við okkur betur í samfélagi við annað fólk, finnum að við erum jafningjar sem höfum ýmislegt fram að færa.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús