Fara í efni

Að þóknast öðrum

Þóknun er áhugavert og um margt flókið hlutverk sem margir gangast inn í umhugsunarlaust.
Að þóknast öðrum
Að þóknast öðrum

Þóknun er áhugavert og um margt flókið hlutverk sem margir gangast inn í umhugsunarlaust. 

Að þóknast öðrum þýðir að við leggjum eign þarfir til hliðar og leggjum allt í að gera aðra glaða, jafnvel þó það skapi okkur sjálfum vaníðan.  Í mörgum tilfellum getur það verið í fínu lagi en ef við leggjum það í vana okkar að fórna eigin þörfum til að þóknast öðrum, erum við að meiða sjálfsmyndina okkar og sjálfsvirðingin skekkist.  Það er sterk tenging á milli andlegrar vanlíðunar eins og depurðar og kvíða við þóknun.

En er ekki sjálfsagt að hjálpa öðrum?  Er það þókun að vera hjálpsamur og taka tillit til annars fólks?  Svarið er nei.  Þóknun er ekki það sama og að vera kærleiksríkur við annað fólk og að vera hjálpsamur og umburðarlyndur einstaklingur.  Slíkir eiginleikar eru kostir sem vert er að rækta og efla og gefa okkur vellíðan auk þess sem samskipti okkar við annað fólk verða betri.

En á þóknun sér engar málsbætur?   Jú, stundum koma upp aðstæður þar sem við þurfum að grípa inn í, alvarleg veikindi í fjölskyldunni til dæmis, og við leggjum þarfir okkar til hliðar, tímabundið til að sinna ástvini.  En þóknun má ekki verða viðvarandi ástand því þá erum við farin að vanrækja okkur.

Það getur verið snúið að koma auga á þóknun í eigin fari.  Hún er mörgum okkar svo eðlislæg því hún ræktaðist inn í okkur í barnæsku.  Okkur var mörgum kennt að það væri göfugt að gleðja aðra.  Sem það er en að fórna eign þörfum á sama tima á í mörgum tilfellum að vera hreinn óþarfi.  Þóknun er líka snúin því við fáum oftar en ekki mikið hól fyrir og það þykir okkur gott.  En ef þóknunin er orðin langvinn þá endist sú vellíðan skammt því innra með okkur finnum við tómleika, skömm og ýmsar aðrar óþægilegar tilfinningar.

Mörg okkar nota þóknun til að tryggja að öðru fólki líki við okkur.  Og við óttumst afleiðingarnar ef við hættum að þóknast.  Hvað mun annað fólk segja um okkur?  En þá erum við farin að stjórnast um of af áliti annarra og sjálfsálit okkar er sett til hliðar.

Það fylgir því mikill árangur og vellíðan að vinna með og ná tökum á langvinni þóknun.  Við áttum okkur smám saman á mörkum okkar og annarra og við áttum okkur á hvar ábyrgð okkar á að liggja.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús