Fara í efni

Hvað er Gláka ?

Gláka er augnsjúkdómur sem lýsir sér í rýrnun (skemmd) í sjóntauginn sem oft tengist hækkuðum þrýstingi í auganu en það er þó ekki algilt.
Gláka er augnsjúkdómur
Gláka er augnsjúkdómur

Gláka er augnsjúkdómur sem lýsir sér í rýrnun (skemmd) í sjóntauginn sem oft tengist hækkuðum þrýstingi í auganu en það er þó ekki algilt.

Í sjúkdómnum gláku verður oftast hægfara rýrnun á sjóntauginn sem í fyrstu er algjörlega einkennalaus en með tímanum koma eyður í sjónsviðið (hliðarsjónina) og að lokum tapast skarpa sjónin sé ekkert að gert. Í mörgum tilfellum er þrýstingurinn í augunum hár eða a.m.k. umtalsvert hærri en hann var á yngri árum. Þetta er þó ekki algilt.

Skemmdin í sjóntauginni sést við skoðun hjá augnlækni, hana má staðfesta með myndatökum. Einnig er hægt að meta hversu vel sjóntaugin virkar með því að gera mælingu á sjónsviðinu.

Til er afbrigði af gláku sem kallast bráðagláka. Þá verður skyndilega mikil þrýstingshækkun og henni fylgir þokusýn og verkir, roði í auganu og tárflæði. Þá þarf að leita augnlæknis tafarlaust því annars getur sjónin skemmst mikið jafnvel á einum sólarhring. Þessi tilfelli eru þó mörgum sinnum sjaldgæfari en hin venjulega hægfara gláka.

Hvað er svo eðlilegur augnþrýstingur ?

Við mælingar á miklum fjölda fólks sem ekki hefur nein merki um skemmd í sjóntauginni reynast um 95% hafa þrýstingsgildi á bilinu ca 12 - 22 mmHg.

Reynslan sýnir hins vegar að fólk getur fengið dæmigerða glákuskemmd í sjóntaugina þó að þrýstingurinn hafi aldrei mælst hærri en t.d. 18 mmHg.  Á hinn bóginn getur fólk gengið með hærri þrýsting t.d. 24 mmHg árum saman án þess að fá skemmd.  Þannig að greinilega er málið flóknara en svo að þrýstingurinn einn ráði úrslitum. Vafalaust spila inn í einhverjir arfgengir þættir, ástand æðakerfis o.fl.

Gláka er til á öllum aldri en þó sjaldgæf fyrir sextugt, þá fer tíðnin að vaxa og sérstaklega eftir sjötugt. Þegar komið er yfir áttrætt er allt að tíundi hver maður kominn með gláku.

Þar sem sjúkdómurinn er algjörlega einkennalaus framan af er afar mikilvægt að fara í skoðun hjá augnlækni reglulega eftir miðjan aldur. T.d. ekki síðar en um fimmtugt í fyrsta skipti, á 3-4 ára fresti til sextugs,  síðan á 2-3 ára fresti til sjötugs en eftir það á 1-2 ára fresti og árlega eftir áttrætt.

Sú skemmd sem komin er í sjóntaugina af völdum gláku verður ekki bætt með neinni meðferð og því er mikilvægt að greina sjúkdóminn sem fyrst og reyna að stöðva framgang hans. 

Meðferðin á gláku beinist öll að því að lækka þrýstinginn í auganu og það er vel sannað að það gerir gagn.   Þó að það lækni mann ekki af gláku þá er í flestum tilfellum hægt að halda sjúkdómnum það vel í skefjum að ekki komi til blindu,  að maður hafi enn sæmilega sjón þegar dauðinn sækir mann heim.

Á vefsíðu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga er að finna bækling um gláku.

Heimildir: augnlaeknar.is