Fara í efni

Augun þín

Augun eru eitt það dýrmætasta sem við eigum.
Augun þín

Augun eru eitt það dýrmætasta sem við eigum.

Þetta eru undursamleg líffæri sem skynja ljós og bera það til heilans á örskotsstundu.

Sjá má hluti fjarri sem nærri, stóra sem smáa, bjarta sem dimma. Augun eru viðkvæm og því mikilvægt að vernda þau. Augnlokin gegna því hlutverki ásamt augabrúnum.

Hvítan er eitt af ytri lögum augans. Ljósið fer ekki í gegnum hvítuna, heldur í gegnum kringlóttan glugga framan á auganu sem við köllum hornhimnu.

Hornhimnan brýtur ljósið og leyfir því að halda áfram inn í augað í gegnum gat á lithimnunni, sem við köllum sjáaldur.

Lithimnan er kölluð svo vegna þess að hún hefur einkennandi lit sem ræður því hvort við erum sögð vera með blá, grá, græn eða brún augu. Sjáaldrið stækkar og minnkar eftir því hve birtan er mikil og stjórnar þar með magni ljóssins sem kemst inn í augað Sjáaldrið stækkar því í myrkri en minnkar í birtu.

Aftan við sjáaldrið tekur svo við augasteinninn. Vöðvi í auganu stjórnar þykkt augasteinsins eftir því hvort við erum að horfa nærri okkur eða fjarri. Þessi eiginleiki minnkar með árunum vegna þess að augasteinninn harðnar. Eftir fertugt þurfa flestir því að nota sérstök lestrargleraugu til að geta séð nálægt sér, s.s. við lestur. Líkt og hornhimnan brýtur augasteinninn ljósið enn frekar og sendir það inn í augað þar sem það lendir loks á sjónhimnunni, sem klæðir augað að innan, líkt og veggfóður.

Sjónhimnan er afar sérhæfður vefur sem skynjar ljós og breytir því í rafboð. Þau eru síðan send með sjóntauginni sem liggur úr auganu inn í heila. Ljósið sem kom inn í augað er nú orðið að mynd inni í heilanum!

Skýrleiki myndarinnar sem lendir á sjónhimnu fer einkum eftir þremur þáttum:

1. Lögun hornhimnunnar – þeim mun kúptari sem hún er, því meira brýtur hún ljósið.
2. Þykkt augasteinsins – þeim mun þykkari sem hann er, því meira brýtur hann ljósið.
3. Lengd augans.

Ef allir þessir þættir vinna vel saman kemur skýr mynd á sjónhimnuna. Ef einn þessara þátta er ekki eins og hann á að vera verður myndin óskýr, eða „út úr fókus”.

Af vef doktor.is