Fara í efni

Að hafa hlut­verk skipt­ir máli

Að hafa hlut­verk skipt­ir máli

Ey­mund­ur Ey­munds­son, verk­efna­stjóri hjá Gróf­inni, geðvernd­armiðstöð á Ak­ur­eyri, seg­ir mik­il­vægt að sinna for­vörn­um og geðrækt um allt land. Að upp­lýsa ungt fólk um geðrask­an­ir og úrræði sem í boði eru. Hann seg­ir vinnu­tengd úrræði skipta miklu því það að hafa hlut­verk auki sjálfs­traust og bæti sjálfs­mynd fólks.

Haldið er upp á alþjóðageðheil­brigðis­dag­inn víðs veg­ar í heim­in­um 10. októ­ber ár hvert.  Dag­ur­inn var fyrst hald­inn 1992 af alþjóðasam­tök­um um geðheilsu og mark­miðið er að vekja at­hygli á geðheil­brigðismál­um, fræða al­menn­ing um geðrækt og geðsjúk­dóma og sporna við for­dóm­um í garð geðsjúkra.

Á Ak­ur­eyri verður dag­ur­inn hald­inn hátíðleg­ur líkt og und­an­far­in ár og verður opið hús í Gróf­inni geðvernd­armiðstöð frá 16:00 til 18:00 og svo verður hald­in geðveik messa klukk­an 20:00 í Ak­ur­eyr­ar­kirkju þar sem meðal ann­ars Halla Björk Reyn­is­dótt­ir, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar, tal­ar.

Ungt fólk og geðheilsa í breytt­um heimi

Þema dags­ins í ár er sam­kvæmt Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni (WHO) ungt fólk og geðheilsa í breytt­um heimi. 

Á vef WHO kem­ur fram að helm­ing­ur allra geðrænna veik­inda hefj­ist fyr­ir 14 ára ald­ur en í flest­um til­vik­um er ekk­ert að gert. Sjálfs­víg eru önn­ur al­geng­asta dánar­or­sök fólks á aldr­in­um 15-29 ára. 

Ey­mund­ur Ey­munds­son hef­ur lengi bar­ist við kvíða og mikla fé­lags­fælni. Hann stofnaði ásamt fleir­um Gróf­ina, geðvernd­armiðstöð á Ak­ur­eyri, haustið 2013 og seg­ir starfið þar hafa bjargað manns­líf­um.

Ey­mund­ur seg­ir mik­il­vægt að sinna for­vörn­um og sjálf­ur barðist hann við kvíða og fé­lags­fælni frá barnæsku. „Í for­varn­ar­starfi okk­ar hér á Ak­ur­eyri og víðar leggj­um við áherslu á að heim­sækja skóla og út­skýra fyr­ir krökk­um hversu mik­il­vægt það sé að fá hjálp glími þau við vanda. Að þetta sé ekki þeim að kenna líkt og maður hélt sjálf­ur þegar maður var krakki og talaði aldrei um van­líðan­ina við nokk­urn mann,“ seg­ir Ey­mund­ur. 

Ey­mund­ur hef­ur heim­sótt fjöl­marga grunn­skóla síðustu fjög­ur árin og í vet­ur hef­ur hann einnig heim­sótt fram­halds­skóla. „Við höf­um líka farið á fleiri staði á lands­byggðinni, svo sem Ísa­fjörð og Bol­ung­ar­vík auk staða á Aust­ur­landi. Sýn­ir sig að þegar fólk, sem hef­ur verið að glíma við sjúk­dóma eins og fé­lags­fælni allt frá barnæsku, fer að tala um líðan sína kem­ur í ljós hvað þetta hef­ur haft á allt þeirra líf,“ seg­ir hann. 

Ey­mund­ur er verk­efna­stjóri geðfræðslunn­ar hjá Gróf­inni og hann seg­ir að Gróf­in vinni eft­ir hug­mynda­fræði vald­efl­ing­ar og bata­mód­eli þar sem hver og einn kem­ur á sín­um for­send­um.

„Með því að taka þátt í starfi Gróf­ar­inn­ar í ein­hvern tíma átt­ar fólk sig á því að það á margt sam­eig­in­legt með öðrum sem einnig glíma við geðrask­an­ir. Fólkið finn­ur sína rödd og hef­ur tæki­færi á að vinna í sjálf­um sér á sín­um hraða,“ seg­ir Ey­mund­ur en starf ungliða inn­an Gróf­ar­inn­ar (Ung­hug­ar) hef­ur verið að efl­ast und­an­far­in miss­eri.

„Við hjá Gróf­inni erum í góðu sam­starfi við Hug­arafl, Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, geðsvið Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri, Starf­send­ur­hæf­ingu Norður­lands, Virk, Vinnu­mála­stofn­un, Ró­sen­borg, Fjölsmiðjuna, Pieta, Bú­setu­deild og fleiri sam­tök og fyr­ir­tæki sem hafa stutt okk­ur,“ seg­ir Ey­mund­ur. 

Eyk­ur sjálfs­traust að hafa hlut­verk

Þrír ein­stak­ling­ar sem glíma við geðrask­an­ir eru í hluta­starfi hjá Gróf­inni við verk­efni sem nefn­ist at­vinna með stuðningi, seg­ir hann.

„Að hafa hlut­verk skipt­ir máli og um leið eyk­ur það sjálfs­traust og bæt­ir sjálfs­mynd­ina. Það hef­ur sýnt sig hvað góð sam­vinna með opn­um huga er gott  fyr­ir fólk sem þarf á hjálp að halda og fyr­ir aðstand­end­ur þeirra. Það er hörku­vinna að vinna í sjálf­um sér en það er meiri vinna að vera í felu­leik all­an sól­ar­hring­inn,“ seg­ir Ey­mund­ur.

Í viðtali við Sunnu­dags­mogg­ann í fyrra sagði Ey­mund­ur að það væri margt já­kvætt í því starfi sem unnið er í geðheil­brigðismál­um og að mik­il­vægt sé að draga ekki ein­ung­is fram hið nei­kvæða.

Ráðast þarf að rót vand­ans 

Ey­mund­ur seg­ir marga sem glíma við geðrask­an­ir leita í vímu­efni og þess vegna þurfi að ráðast að rót vand­ans; van­líðan­inni.

„Við erum öll mann­eskj­ur með til­finn­ing­ar en stund­um þurf­um við hjálp til að byggja upp til­finn­ing­arn­ar. Eng­inn ætti að þurfa að fela eig­in van­líðan; við erum búin að missa allt of marga út af slík­um felu­leik, fólk sem hef­ur ekki treyst sér til að leita sér hjálp­ar vegna ótta við for­dóma. Áður fyrr var geðveikt fólk bara lokað inni, en nú er þekk­ing­in svo mik­il að hægt er að hjálpa. Þar geta fé­laga­sam­tök eins og Hug­arafl og Gróf­in til dæm­is gert mikið gagn, bæði fyr­ir þá veiku, fyr­ir aðstand­end­ur og með því að sinna for­vörn­um,“ sagði Ey­mund­ur í viðtali við Skapta Hall­gríms­son í Sunnu­dags­mogg­an­um í fyrra.

Líf er því miður ekki sama og líf

Hann seg­ist vilja sjá starf­semi sam­taka sem vinni að geðrækt og for­vörn­um, svo sem Pieta Ísland, sam­tök gegn sjálfs­víg­um og sjálfsskaða,í hverj­um lands­fjórðungi. Það geti bjargað manns­líf­um. „Við get­um sett meiri fjár­muni í þetta líkt og við sjá­um hvað for­varn­ir í um­ferðar­mál­um eru að skila miklu. Þau viðbrögð sem við fáum eru mikið þakk­læti og ég vildi óska þess að ég hefði fengið fræðslu á unglings­ár­um um geðrask­an­ir. Að ég hefði ekki verið 38 ára gam­all þegar ég kemst að því hvað amar að mér eft­ir að hafa verið í felu­leik með van­líðan mína ára­tug­um sam­an. Ef ég hefði fengið hjálp fyrr þá hefði ég losnað und­an mik­illi þján­ingu,“ seg­ir hann.

Að sögn Ey­mund­ar var hann í verkjameðferð á Krist­nesi eft­ir mjaðmaliðaskiptiaðgerð þegar hann var 38 ára gam­all þegar hann fær upp­lýs­ing­ar um hvað ami að hon­um, fé­lags­fælni og þung­lyndi.

„Ég fékk strax stuðning þegar þetta kom í ljós, bæði á Krist­nesi og hjá heim­il­is­lækni. Ég var nátt­úru­lega full­ur af rang­hug­mynd­um varðandi geðsjúk­dóma enda vissi ég fátt annað en það sem ég hafði séð í bíó­mynd­um. Þegar heim­il­is­lækn­ir­inn bauð mér upp á sam­talsmeðferð þá valdi ég hana frek­ar en geðdeild­ina þar sem ég var svo full­ur for­dóma. Ég myndi vilja sjá kennslu í hug­rænni at­ferl­is­meðferð (HAM) í grunn­skól­um. Að hún væri kennd af fagaðilum. Með því væri hægt að kenna þeim þetta bjargráð sem þau geta notað verði þau fyr­ir áföll­um á lífs­leiðinni. Ég held að það geti hjálpað mörg­um við að efla sjálfs­mynd­ina,“ seg­ir Ey­mund­ur. 

Hann bend­ir á að hann hafi út­skrif­ast úr Ráðgjafa­skóla Íslands árið 2009 og sem fé­lagsliði árið 2016. Þegar hann var yngri ent­ist hann tvo mánuði í fram­halds­skóla.

„Það væri fróðlegt að vita hversu marg­ir fara ekki í fram­halds­skóla eða gef­ast upp í námi þar sem þeir treysta sér ekki til þess að sækja tíma þrátt fyr­ir að dreyma um að mennta sig. Ef þess­ir ein­stak­ling­ar fengju stuðning fyrr, svo sem í gegn­um HAM í grunn­skóla, er lík­legt að mun fleiri sem eru með geðrask­an­ir myndu ljúka fram­halds­skóla­námi en nú er,“ seg­ir Ey­mund­ur.

Hann seg­ir mik­il­vægt að efla starf­semi geðþjón­ust­unn­ar á Ak­ur­eyri og það sé orðið tíma­bært að koma upp sér­deild fyr­ir þá sem glíma við tvígrein­ing­ar, það er geðrofs­sjúk­dóma og fíkn. Mik­il­vægt sé að fólk, einkum og sér í lagi ungt fólk, fái þessa þjón­ustu í nærum­hverf­inu í stað þess að all­ir þurfi að leita á höfuðborg­ar­svæðið eft­ir aðstoð.

Stefn­ir í skort á geðlækn­um

Hug­ræn at­ferl­is­meðferð (HAM) hef­ur náð mik­illi út­breiðslu und­an­far­in ár í tengsl­um við ýms­an heilsu­vanda, en þó einkum þung­lyndi og kvíða. Rann­sókn­ir sýna að HAM er gagn­leg aðferð til að ná og viðhalda bata í þung­lyndi.

Í dag eru marg­ir þeirr­ar skoðunar að fyrsta hjálp við sál­ræn­um vanda fel­ist í sjálfs­hjálp. Marg­ar sjálfs­hjálp­ar­bæk­ur hafa komið fram, en und­an­farið hef­ur í aukn­um mæli verið boðið upp á hug­ræna at­ferl­is­meðferð þar sem nýtt er tækni ver­ald­ar­vefjar­ins. Þetta hef­ur skilað ár­angri sem gef­ur fyr­ir­heit um enn frek­ari út­breiðslu þess­ar­ar nálg­un­ar.

Fé­lags­fælni er viðvar­andi og hamlandi ótti við að verða sér til skamm­ar, niður­læg­ing­ar og minnk­un­ar inn­an um annað fólk. Sá sem er fé­lags­fæl­inn er viss um að aðrir séu að horfa og hugsa um hann. Sú vissa er einnig fyr­ir hendi að þessi at­hygli stafi af því hve klaufa­leg­ur, illa klædd­ur eða hverj­ir þeir aðrir gall­ar sem viðkom­andi er viss um að ein­kenna sig valdi þessu. Fé­lags­fæln­ir ímynda sér að allt hið versta hendi þá inn­an um fólk, sér­stak­lega ókunn­uga og að þeim verði hafnað af öðrum.

Af þess­um sök­um forðast fé­lags­fæln­ir aðstæður þar sem annað fólk er eða halda þær út með kvíðabeyg vegna áhyggna um álit annarra á sér. Fólk sem þjá­ist af fé­lags­fælni er mjög meðvitað um það sem það ger­ir og seg­ir. Dæmi­gert er að hugsa um hvað geti farið úr­skeiðis þar sem annað fólk er. Þegar at­b­urður er um garð geng­inn dvel­ur sá fé­lags­fælni við það sem hann/​hún tel­ur að hafi farið úr­skeiðis. Af­leiðing­in get­ur verið sú að viðkom­andi forðast þær aðstæður sem valda ótt­an­um, jafn­vel svo mjög að úr verður fé­lags­leg ein­angr­un.

Fé­lags­fælni er falið vanda­mál en talið er að hún sé þriðja al­geng­asta geðrösk­un­in. Talið er að um 12% Íslend­inga glími við fé­lags­fælni ein­hvern tíma á æv­inni og minni­hluti þeirra leit­ar sér hjálp­ar. Fé­lags­fælni kem­ur oft í ljós og er greind þegar aðrar geðrask­an­ir gera vart við sig eða þegar fólk leit­ar sér lækn­is vegna annarra kvilla. Rann­sókn­ir benda til þess að meðferð sé ár­ang­urs­rík, en hún felst í því að draga úr kvíða og feimni og auka þar með lífs­gæði viðkom­andi.

Fé­lags­fælni get­ur beinst að sam­skipt­um al­mennt, svo sem því að taka upp sím­ann og hringja, seg­ir á vef Geðhjálp­ar.

Gróf­in á Ak­ur­eyri

Höfundur greinar:

Eymundur Eymundsson