Fara í efni

Kynlífsvandamál

Vandamál í kynlífi geta verið af ýmsum toga og hér á eftir verður aðeins farið í örfá þeirra.
Kynlífsvandamál

Kynlífsvandamál

 

Vandamál í kynlífi geta verið af ýmsum toga og hér á eftir verður aðeins farið í örfá þeirra.

Stinning karla

Stinning karla verður í kjölfar kynferðislegrar örvunar, sem orsakar aukið blóðflæði til limsins. Við kynferðislega örvun lokast einnig fyrir blóðflæði til baka út úr limnum, þannig að hann helst stinnur. Þetta er eina orsök stinningarinnar og því ekki um að ræða neina vöðva eða annað sem orsaka eða viðhalda stinningu. Það að ekki verður af stinningu eða hún helst illa getur orsakast bæði af líkamlegum og sálrænum ástæðum. Lélegt blóðflæði og lélegar æðar, sem getur t.d. orsakast af ákveðnum lyfjum, reykingum ofl. eru dæmi um líkamlegar orsakir. Sálrænar orsakir geta t.d. verið lítið sjálfstraust, kvíði yfir að standa sig ekki og óttablandin virðing eða hreinn kvíði gagnvart konunni. Streita er líka algengur orsakavaldur. Nánast allir karlmenn lenda einhvern tíma í stinningarvanda. Þegar slíkt gerist getur það orsakað kvíða gagnvart því að það gerist aftur, sem síðan ýtir undir slíkan vítahring. Þá er mjög algengt að konan upplifi þetta vandamál sem áhugaleysi á sér eða að maðurinn sé farinn að hugsa um aðra konu. Ef konan bregst við með pirringi eða ásökunum mun hún auka mjög á vandann, einkum ef þessi upplifun hennar er röng. Maðurinn mun þá lenda í því að reyna að sanna fyrir henni að svo sé ekki og það er það versta sem hann getur lent í í kynlífi, því þar með er hann alfarið hættur að hugsa um sjálfan sig og hugsar eingöngu um konuna í kynlífinu. Þar með missir hann öll tök á eigin kynlífi.

Alltaf er rétt að fara til þvagfærasérfræðings áður en leitað er aðstoðar sálfræðings til þess að útiloka að um líkamlegar ástæður sé að ræða. Fyrir utan líkamlega skoðun á kynfærum og blöðruhálskirtli geta þvagfærasérfræðingar látið mæla stinningu. Öllum líkamlega heilbrigðum karlmönnum stendur þegar þá dreymir. Þess vegna er auðvelt að mæla stinningu í svefni. Þegar karlmenn vakna í kjölfar draums stendur þeim. Er það oft kallað standpína og ranglega tengt því að þeir þurfi að pissa. Engin tengsl eru hins vegar á milli þess að vera í spreng að pissa og þess að rísa hold. Hversu mörgum mönnum stendur t.d. þegar þeir hafa verið á löngum fundi eða í kvikmyndahúsi og eru orðnir í spreng að pissa? Ef karlmanni stendur oft að morgni, en á í erfiðleikum með stinningu í kynlífi eru langmestar líkur á því að vandi hans sé sálræns eðlis og hann ætti að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingi, sem sérhæft hefur sig í kynlífsmeðferð.

Ótímabært sáðlát

Bráðasáðlát hjá karlmönnum er nánast alltaf af sálrænum toga. Yfirleitt tengist það of litlu sjálfstrausti, meðvirkni, kvíða eða litlum tengslum viðkomandi við eigið tilfinninga- og nautnalíf. Það er eins með bráðasáðlát og stinningarvanda, að langflestir karlmenn lenda einhvern tíma í slíku og hættan á að festast í því tengist kvíðamyndun þegar það gerist. Þeir, sem festast í því að fá nánast alltaf of brátt sáðlát í kynlífi, ættu að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingi, sem kann til verka. Rætt er um of brátt sáðlát þegar það gerist annað hvort fyrir samfarir eða nánast strax eftir að þær hefjast og karlmaðurinn finnur að hann hefur enga stjórn á sáðlátinu. Meðferð gengur út á það að karlmaðurinn efli sjálfstraust sitt sem kynvera, tengist tilfinninga- og nautnalífi sínu og læri að stjórna tengslum milli nautnar/kynferðislegrar örvunar og sáðláts.

Fullæging kvenna

Eigi kona í erfiðleikum við að fá kynferðislega fullnægingu er það gjarnan sálræns eðlis, en auðvitað er alltaf rétt að útiloka að um líkamlegar orsakir sé að ræða með því að leita til kvensjúkdómalæknis. Oft tengist þessi vandi, eins og kynlífsvandi karla lélegu sjálfstrausti, meðvirkni, kvíða, litlum tengslum við eigið nautna- og tilfinningalíf og lélegri upplifun konunnar af sjálfri sér sem kynveru. Hins vegar er einnig mjög algengt að kynferðisleg örvun sé ónóg. Bæði getur verið um að ræða of skamman tíma, vegna ofuráherslu parsins á samfarir og fullnægingu, en einnig vegna þess að maðurinn fær bráðasáðlát þannig að dregið er úr örvun í forleik til að reyna að draga úr hættunni á bráðasáðláti hjá honum. Þetta er að vísu alröng aðferð til þess, en engu að síður mjög algeng. Í langflestum tilvikum er tiltölulega auðvelt að aðstoða konur, sem eiga í þessum erfiðleikum, svo fremi sem fagmaðurinn kann til verka.

Kynlíf og samskipti

Kynlífsvandamál eru alltaf samskiptavandamál, þe. þessi vandamál koma þá og því aðeins í ljós að stofnað sé til kynlífs með öðrum aðila. Lifi einstaklingur engu kynlífi koma þessi vandamál ekki í ljós. Séu þau af sálrænum toga tengjast þau ætíð samskiptum parsins í kynlífi og í lífinu almennt. Það er því nauðsynlegt að parið leiti sér saman aðstoðar og taki saman þátt í meðferðinni. Yfirleitt má segja að meðferð taki ekki mjög langan tíma, en það er hins vegar mjög mikilvægur þáttur í meðferðinni að parið gefi sér þann tíma, sem nauðsynlegur er. Ef skortur er á tíma, getur meðferð dregist á langinn og getur þá farið að vinna gegn sjálfri sér.

Einstaklingar, sem eiga í kynlífsvanda, sem aðeins kemur öðru hvoru í ljós, af því að þeir eru ekki í föstu sambandi eru að þessu leytinu svolítið verr staddir. Hægt er að laga þennan vanda að vissu marki, en rekkjunautur er nauðsynlegur til að um raunverulegan „bata” geti verið að ræða.

Grein af vef doktor.is 
 
 
 
 

Könnun

Hvaða hreyfingu stundar þú?