Fara í efni

Vefjagigt - ítarlega farið yfir einkenni, greiningu, lyf og fleira

Vefjagigt (e. fibromyalgia syndrome) er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni (e. syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir.
Ítarlega farið yfir einkenni vefjagigtar
Ítarlega farið yfir einkenni vefjagigtar

Vefjagigt (e. fibromyalgia syndrome) er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni
(e. syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir.

Önnur algeng einkenni eru órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, fótapirringur, kuldanæmi, dauðir fingur (e. Raynaud´s phenomenon), dofi í útlimum, bjúgur, kraftminnkun, úthaldsleysi, minnisleysi, einbeitingarskortur og depurð.

Vefjagigtin getur þróast á löngum tíma og viðkomandi gerir sér litla grein fyrir í fyrstu að eitthvað óeðlilegt sé í gangi. Verkir sem hlaupa til dag frá degi, stirðleiki og yfirþyrmandi þreyta af og til eru oft byrjunareinkennin. Einkennin eru ekki viðvarandi í fyrstu, koma og fara, ný einkenni bætast við. Smám saman vindur sjúkdómurinn upp á sig þar til einkenni hverfa ekki langtímum saman. Einkennin eru mjög mismunandi milli einstaklinga, bæði af fjölda og hversu slæm þau eru.

Vefjagigt getur verið mildur sjúkdómur þar sem viðkomandi heldur nær fullri færni og vinnugetu, þrátt fyrir verki og þreytu, en hann getur líka verið mjög illvígur og rænt einstaklinginn allri orku þannig að hann er vart fær um annað en að sofa og matast. Oftar rænir vefjagigtin aðeins hluta af færni til vinnu og athafna daglegs lífs. Þar sem ekki sjást nein ummerki um sjúkdóminn, hvorki á sjúklingnum, né í almennum læknisrannsóknum þá hafa þessir einstaklingar oft á tíðum mætt litlum skilningi heilbrigðisstarfsfólks, aðstandenda, vina eða vinnuveitenda. Enn þann dag í dag telja sumir að vefjagigt sé í raun ekkert annað en verkjavandamál sem geti talist eðlilegur hluti af lífinu og enn aðrir telja að um sé að ræða “ruslafötu greiningu” það er að allt sé kallað vefjagigt sem ekki er hægt að greina sem aðra “almennilega sjúkdóma”.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á vefjagigt sem hafa leitt í ljós að truflun er í starfssemi margra líffærakerfa hjá fólki með vefjagigt m.a. í tauga-hormóna kerfi líkamans ( e. neurohormonal abnormality), ósjálfráða taugakerfinu ( e. autonomic nervous system dysfunction) og truflun er á framleiðslu ýmissa hormóna ( e. reproductive hormone dysfunction).

Svefntruflanir sem eru eitt af höfuðeinkennum vefjagigtar eru taldar orsakaþáttur fyrir mörgum einkennum einkum þreytu og stoðkerfisverkjum.

Algengi

Niðurstöður rannsókna á algengi* (e. prevalence) vefjagigtar víða um veröld eru mismunandi. Talið hefur verið að vefjagigt hrjái 2 – 13 % fólks á hverjum tíma (1-5). Líklega er það of há tala því yfirlitsgrein frá 2006 reiknar með að algengi vefjagigtar sé á bilinu 0,66% – 4,4%, en höfundarnir skoðuðu 30 rannsóknargreinar sem uppfylltu skilyrði um greiningu á vefjagigt í þýði.

Vefjagigt finnst hjá báðum kynjum, en er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið a.m.k. 3 – 4 konur á móti einum karli. Sjúkdómurinn er þekktur í öllum aldurshópum og er algengastur hjá konum á miðjum aldri, en börn, unglingar og aldraðir geta líka fengið vefjagigt. Fáar og ófullnægjandi rannsóknir eru til um algengi vefjagigtar meðal barna og unglinga.

Vefjagigt greinist í öllum þjóðfélagshópum, en er þó algengari meðal fátækra þjóðfélagshópa, innflytjenda og þeirra sem eru illa staddir félagslega. Vefjagigt er m.a. nokkuð algeng meðal Amish fólks eða hjá um 7% fullorðinna . Þetta er forvitnileg niðurstaða þar sem vefjagigt hefur af sumum verið tengd við nútíma lífstíl, streitu og álagi sem Amish fólk sneiðir hjá.

Ein rannsókn hefur verið gerð til að meta algengi vefjagigtar og langvinnra útbreiddra verkja á Íslandi (9). Niðurstaða þeirrar rannsóknar bendir til að algengi vefjagigtar sé mjög hátt hér á landi eða 9,8% hjá konum og 1,3% hjá körlum. Algengi langvinnra útbreiddra verkja reyndist vera 26,9% hjá konum og 12,9% hjá körlum. Heildarsvörun rannsóknarinnar var einungis 53,4% sem takmarkar ályktunarhæfni á niðurstöðum rannsóknarinnar. Samkvæmt þessum rannsóknarniðurstöðum þá gætu yfir 20 þúsund einstaklingar, á aldrinum 18-79 ára, verið haldnir vefjagigt hér á landi.

*Algengi (e. prevalence) sjúkdóma segir til um hversu margir einstaklingar eru haldnir sjúkdómi á hverjum tímapunkti, en tíðni (e. incidence) sjúkdómstilfella segir til um hversu margir einstaklingar eru greindir með sjúkdóminn ár hvert.

Greining

Ekki er hægt að greina eða staðfesta að um vefjagigtarheilkennið sé að ræða með hefðbundnum blóðrannsóknum. Í byrjun er þó nauðsynlegt að gera ýmsar rannsóknir til að útiloka aðra sjúkdóma sem hafa svipuð einkenni og vefjagigt.

Sú aðferð sem mest er notuð til að staðfesta að um vefjagigt sé að ræða er greiningaraðferð sem félag bandarískra gigtlækna gaf út 1990 (the American College of Rhemotology), en sú greining byggir á að sjúklingur sé að öllum líkindum með vefjagigt ef hann hafi haft útbreidda verki í minnst 3 mánuði og sé aumur í minnst 11 af þeim 18 kvikupunktum sem lýst er hér fyrir neðan.

Aðferð til greiningar vefjagigtar:

Saga um útbreidda verki – Skilgreining

Verkir eru taldir útbreiddir þegar eftirfarandi er uppfyllt: 

Verkir bæði í hægri og vinstri líkamshluta, verkir bæði ofan og neðan mittis. Að auki verkir tengdir hryggsúlu þ.e. í hálsi, framan á brjósti, brjóstbaki eða mjóbaki. Mjóbaksverkir eru taldir til verkja neðan mittis. 

Verkir við þreifingu á 11 af 18 kvikupunktum – Skilgreining
Verkur, við þreifingu verður að vera til staðar í a.m.k. 11 af eftirfarandi 18 kvikupunktum:

Occiput: Við vöðvafestur í hnakkarót
Neðri hluti háls: Framanvert á hálsi beggja vegna ofan við viðbein við 5.-7. hálslið
Trapezíus: Á miðjum efri hluta trapezíus vöðvans 
Supraspinatus: Ofan herðablaða nær hryggsúlu, beggja vegna
Annað rif: Á bringunni í hæð við annað rif , beggja vegna 
Á olnboga: Utanvert á olnbogum á báðum handleggjum
Gluteal: Hliðlægt á mjöðmum, beggja vegna
Greater trochanter (mjaðmahnúta): Aftanvert á mjaðmahnútum, beggja vegna
Hné: Innavert á hnjám í hæð við miðja hnéskel

Fyrir utan a.m.k. 11 jákvæða kvikupunkta þarf að vera saga um útbreidda verki, viðvarandi þreytu, stirðleika, svefntruflanir þar sem viðkomandi fær ekki nægilega nærandi svefn. Þessi einkenni verða að hafa varað í a.m.k. 3 mánuði.

Þessi greiningaraðferð hefur verið gagnrýnd í mörgum nýlegum rannsóknum, einkum hvort að þreifing á kvikupunktum sé nægilega ábyggileg greiningaraðferð. Þessi greiningaraðferð er sú eina sem við höfum í dag og er nokkuð örugg ef vel er eftir henni farið og útilokað er með hefðbundnum rannsóknum að um annan sjúkdóm sé að ræða.

Rannsóknir

Greining vefjagigtar byggir fyrst og fremst á sögu og skoðun, en ekki á niðurstöðum hefðbundinna læknarannsókna. Blóðprufur, segulómun og fleiri rannsóknir reynast í flestum tilvikum eðlilegar hjá fólki með vefjagigt og síþreytu. En blóðrannsókn er nauðsynleg til að útiloka aðra sjúkdóma. 

Svefnrannsókn er stundum gerð til að greina hverskonar svefntruflun er um að ræða. 
Margar rannsóknir staðfesta ýmsar truflanir á líkamsstarfsemi vefjagigtarsjúklinga m.a. starfsemi vöðva og miðtaugakerfis, en þær eru ekki gerðar að öllu jöfnu.

Orsakir vefjagigtar og síþreytu

Margir þættir eru taldir orsaka vefjagigt. Ekki er vitað um neinn ákveðinn orsakaþátt sem getur skýrt allar myndir vefjagigtar, en margar mismunandi kenningar eru á lofti. Það sem er einkennandi fyrir vefjagigt er ofurnæmi í líkamanum fyrir allskyns áreitum sem talið er vera vegna truflunar í starfsemi miðtaugakerfisins.

Líklega eru orsakaþættirnir margir og það virðist sem að margir ólíkir þættir geti hrint af stað ferli sem að lokum veldur vefjagigtarheilkenni. Sumir einstaklingar eru útsettari fyrir vefjagigt. Hjá þeim finnst kannski ekkert sérstakt sem kom sjúkdómnum af stað, meðan aðrir sjúklingar hafa orðið fyrir meiriháttar líkamlegum og/eða andlegum áföllum og hjá enn öðrum eru kannski upptökin einhver veirusýking eða jafnvel matareitrun. 
Undir hlekkjunum hér til hliðar er farið í nokkrar hugsanlega orsakir vefjagigtar.

Einkenni

Einkenni vefjagigtar eru fjölmörg, en aukið verkjanæmi og þreyta eru þau algengustu. Einstaklingsbundið er hversu mörg og hvaða einkenni hver hefur. Hér fyrir neðan er listi yfir einkenni sem geta fylgt vefjagigt. Þessi einkenni geta verið fylgikvilli annarra sjúkdóma því er mikilvægt að leita til læknis til að fá úr því skorið hvort að um vefjagigt sé að ræða.

Þekkt einkenni vefjagigtar eru m.a.:

• Útbreiddir verkir 

• Einkenni frá vöðvum – vöðvaverkir, “triggerpunktar”, vöðvaslappleiki 

• Morgunstirðleiki 

• Liðverkir

• Svefntruflanir 

• Þreyta 

• Einkenni frá meltingarvegi 

• Depurð/þunglyndi/kvíði 

• Einkenni frá hjarta- og æðakerfi 

• Einkenni frá þvag- og kynfærum 

• Minnisleysi/einbeitingarskortur 

• Spennuhöfuðverkur, mígren höfuðverkur 

• Augn- og munnþurrkur 

• Sjóntruflanir 

• Bjúgur/þroti á höndum og fótum 

• Fótaóeirð/fótapirringur 

• Raynauds phenomenon- kuldanæmi 

• Svimi, jafnvægisleysi 

• Blóðsykursfall (e. hypoglycemia)

Meðferð

Þrátt fyrir að þekkingu á vefjagigt hafi fleygt mikið fram þá er ekki til nein meðferð sem hefur áhrif á öll einkenni hennar. Vísindarannsóknir benda til að meðferð sem felur í sér fræðslu, þátttöku sjúklinga, betri svefn og betra líkamsástand gefi góðan árangur. Einnig benda margar rannsóknir til að sálfræðimeðferð, einkum hugræn atferlismeðferð ( e. cognitive behavioral therapy) bæti líðan og ástand vefjagigtarsjúklinga. 

Til að sem bestur árangur náist þarf sjúklingur að afla sér þekkingar á sjúkdómnum, finna meðferðaraðila sem hafa þekkingu á vefjagigt og vera virkur í meðferðinni. Mikilvægt er að hver og einn finni sinn eigin lífstíl sem að bætir líðan og ástand. Einstaklingsbundið er hvaða meðferðar er þörf, en algengt er a& eth; nota lyfjameðferð, sjúkraþjálfun, líkamsþjálfun, sálfræðimeðferð, slökun og streitustjórnun. Hnykklækningar, osteopathy, iðjuþjálfun, nudd, nálastungur, verkjasprautur, breytt mataræði og ýmsar náttúrulækningar geta einnig verið hluti af meðferð.

Lyf

Lyfjameðferð í vefjagigt

Lyfjameðferð í vefjagigt er frekar skammt á veg komin. Ekkert lyf hefur fengið opinbera skráningu lyfjastofnana og þar með viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda á gagnsemi í meðferð vefjagigtar. Nokkur lyf hafa þó sýnt umtalsverða virkni og dregið úr ýmsum einkennum vefjagigtar. Þar má nefna verkjalyf, lyf sem bæta svefn og lyf sem draga úr kvíða eða depurð.

Ekkert lyf er í boði sem sjúklingar með vefjagigt eru sjálfkrafa settir á við greiningu, heldur þarf að meta þörf fyrir lyfjameðferð út frá einkennum og vandamálum hvers einstaklings.

Lyfjameðferð í vefjagigt : Meðalhófið er best

Í meðferð vefjagigtarsjúklinga rekst maður stundum á öfgakennd viðhorf til lyfjameðferðar. Annars vegar eru sjúklingar sem vilja kaupa sér lausnir á vefjagigtarvandanum með töku lyfja, hins vegar eru til sjúklingar sem hafna alfarið lyfjatöku við vandamálum sínum. Að treysta því að lyfjagjöf leysi vefjagigtarvandann mun aldrei leiða til verulegs bata. Að trúa því að öll einkenni vefjagigtar sé hægt að leysa án lyfjagjafar getur vissulega stundum reynst rétt en það fer talsvert eftir eðli einkennanna og alvarleika. Sjúklingar með sjúklegan kvíða, þunglyndi eða verulega svefnröskun þurfa í velflestum tilfellum á lyfjameðferð að halda, amk. tímabundið.

Ýmis lyf sem verka á taugakerfið hafa gefið besta raun í meðferð vefjagigtar. Á meðal þessara lyfja eru svokölluð geðdeyfðarlyf, flogaveikislyf og vöðvaslakandi lyf. Þessar nafngiftir lyfjaflokkanna sýna tilgreind en afmörkuð verkunarsvið þeirra en segja ekkert til um það af hverju lyfin hjálpa sumum vefjagigtarsjúklingum. Í grunninn verka lyfin yfirleitt í gegnum ýmis taugaboðefni (s.s. serotónin, norepinefrín og substance P) en slík verkun getur haft önnur víðtæk áhrif umfram áhrif á depurð, flog eða vöðvaslökun.

Grein þessi er birt með góðfúslegu leyfi Sigrúnar Baldursdóttur, Sjúkraþjálfari Bs, MT´C, MPH en hún birtist fyrst á  www.vefjagigt.is​.