Fara í efni

Lyf við vefjagigt

Lyfjameðferð í vefjagigt er frekar skammt á veg komin.
Lyf við vefjagigt

Lyfjameðferð í vefjagigt

Lyfjameðferð í vefjagigt er frekar skammt á veg komin. Ekkert lyf hefur fengið opinbera skráningu lyfjastofnana og þar með viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda á gagnsemi í meðferð vefjagigtar. Nokkur lyf hafa þó sýnt umtalsverða virkni og dregið úr ýmsum einkennum vefjagigtar. Þar má nefna verkjalyf, lyf sem bæta svefn og lyf sem draga úr kvíða eða depurð.
Ekkert lyf er í boði sem sjúklingar með vefjagigt eru sjálfkrafa settir á við greiningu, heldur þarf að meta þörf fyrir lyfjameðferð út frá einkennum og vandamálum hvers einstaklings.

Lyfjameðferð í vefjagigt : Meðalhófið er best

Í meðferð vefjagigtarsjúklinga rekst maður stundum á öfgakennd viðhorf til lyfjameðferðar. Annars vegar eru sjúklingar sem vilja kaupa sér lausnir á vefjagigtarvandanum með töku lyfja, hins vegar eru til sjúklingar sem hafna alfarið lyfjatöku við vandamálum sínum. Að treysta því að lyfjagjöf leysi vefjagigtarvandann mun aldrei leiða til verulegs bata. Að trúa því að öll einkenni vefjagigtar sé hægt að leysa án lyfjagjafar getur vissulega stundum reynst rétt en það fer talsvert eftir eðli einkennanna og alvarleika. Sjúklingar með sjúklegan kvíða, þunglyndi eða verulega svefnröskun þurfa í velflestum tilfellum á lyfjameðferð að halda, amk. tímabundið.

Ýmis lyf sem verka á taugakerfið hafa gefið besta raun í meðferð vefjagigtar. Á meðal þessara lyfja eru svokölluð geðdeyfðarlyf, flogaveikislyf og vöðvaslakandi lyf. Þessar nafngiftir lyfjaflokkanna sýna tilgreind en afmörkuð verkunarsvið þeirra en segja ekkert til um það af hverju lyfin hjálpa sumum vefjagigtarsjúklingum. Í grunninn verka lyfin yfirleitt í gegnum ýmis taugaboðefni (s.s. serotónin, norepinefrín og substance P) en slík verkun getur haft önnur víðtæk áhrif umfram áhrif á depurð, flog eða vöðvaslökun.

 
Höfundur greinar:
Arnór Víkingsson, gigtarlæknir
 
Af vef doktor.is