Fara í efni

Öldruðum fjölgar í áfengismeðferð

Breytt drykkjumynstur landans, einkum eftir að bjórbanninu var aflétt árið 1989, á stóran þátt í því að aldraðir eiga í auknum mæli við áfengisvandamál að stríða. Fleiri en áður í þessum aldurshópi hafa að sama skapi leitað sér aðstoðar hjá SÁÁ undanfarin ár, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur læknis á Vogi.
Fjölgun aldraðra í áfengismeðferðir
Fjölgun aldraðra í áfengismeðferðir

Breytt drykkjumynstur landans, einkum eftir að bjórbanninu var aflétt árið 1989, á stóran þátt í því að aldraðir eiga í auknum mæli við áfengisvandamál að stríða. Fleiri en áður í þessum aldurshópi hafa að sama skapi leitað sér aðstoðar hjá SÁÁ undanfarin ár, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur læknis á Vogi.

,,Fólk fór að sulla í bjór við öll möguleg tækifæri; með grillmatnum, yfir sjónvarpinu, í vinahópum og þar fram eftir götunum. Drykkjan einskorðaðist ekki lengur við helgarnar, heldur varð meira eins og partur af hinu daglega lífi og jókst þar af leiðandi,” segir hún. Margir sem hófu að tileinka sér þessar drykkjuvenjur eru núna um og yfir sjötugt og eiga sumir hverjir erfitt með að hafa hemil á drykkju sinni, þótt grillpartýunum hafi fækkað og sömuleiðis þátttaka í alls kyns mannamótum með tilheyrandi glasalyftingum. ,,Félagslegar breytingar, til dæmis makamissir og starfslok, veikja viðnámsþol margra gagnvart áfengi. Eldra fólk upplifir oft einsemd og þótt það hafi virst kunna sér hóf í áratugi, er margir sem leita sér ,,huggunnar” í áfengi þegar aðstæður breytast. Mörg dæmi eru líka um að þeir sem fóru í meðferð tiltölulega ungir leggist í óreglu á gamals aldri eftir áralangt bindindi.”

Áfengi og lyf fara ekki saman

Til að fyllsta sannmælis sé gætt bendir Valgerður á að þótt núna séu fleiri aldraðir með drykkjuvandamál verði að taka með í reikninginn að þjóðin sé að eldast. ,,Í hópnum 55 ára og eldri leituðu 150 einstaklingar sér meðferðar hjá SÁÁ árið 1995, en í fyrra voru þeir 260.

Drykkjuvandamál eldra fólks er að mörgu leyti af öðrum toga en þeirra sem yngri eru. Bæði vegna lyfja sem það tekur að læknisráði, sterkra verkjalyfja, svefnlyfja og alls kyns róandi lyfja.

Áfengi og lyf fara mjög illa saman. Með áfengi gera lyfin aðeins illt verra, fólk veikist meira en ella, hreinlega koðnar niður, verður þunglynt og kvíðið og einangrast enn frekar,” segir Valgerður. Þegar svo er komið getur einstaklingurinn verið orðinn mjög veikur og skilur ekki hvernig hann með háttalagi sínu er orðinn íþyngjandi byrði á sínum nánustu, oftast börnum sínum. Þau fá engu tauti við hann komið, gefast upp og sjúklingurinn einangrast æ meira.

,,Þótt hér á landi sé allt morandi í úrræðum, ef svo má að orði komast, eru aðstandendur í raun úrræðalausir ef sjúklingurinn heldur áfram að þverskallast við öllum þeirra tilmælum um að leita sér hjálpar. Ástvinir vita hvað honum er fyrir bestu, en geta einfaldlega ekki tekið af honum ráðin.”

Sérsniðin úrræði

Hjá SÁÁ eru í boði og stöðugri þróun mörg úrræði sérsniðin að þörfum ákveðinna hópa og einstaklinga. Valgerður nefnir sérstaka kvennameðferð sem dæmi og að í tíu ár hafi verið starfrækt deild fyrir karla eldri en fimmtíu og fimm ára. Einnig deild fyrir þá sem eru mjög veikir og þurfa meiri ummönnun og tíma en aðrir hópar, enda séu þeir sem leggist þar inn yfirleitt fólk í eldri kantinum. Karlar eru tveir þriðju hlutar þeirra sem leita sér meðferðar, en í hverjum árgangi hafa 6% núlifandi kvenna komið í meðferð hjá SÁÁ og 14% karla.

Valgerður bendir á að vefsíðu SÁÁ  séu haldgóðar upplýsingar um úrræð. Sjá hér.

Heimild: lifdununa.is