Fara í efni

Matarfíkn

Alvarlegt vandamál með einfalda lausn
Matarfíkn

Alvarlegt vandamál með einfalda lausn.

Þessi grein inniheldur ítarlegar upplýsingar um matarfíkn. Hún útskýrir nákvæmlega hvað hún er, hvernig hún virkar og hvað þú getur gert til að sigrast á henni.

Fyrir marga virðist nánast ómögulegt að borða hollan mat og léttast.

Þrátt fyrir góð fyrirheit, leita þeir ítrekað aftur og aftur í að borða mikið af óhollum mat, þrátt fyrir að vita að ofátið sé að valda þeim skaða.

Sannleikurinn er sá … að áhrif tiltekinna matvæla á heilann geta leitt til hreinnar og klárar fíknar.

Matarfíkn er mjög alvarlegt vandamál og ein helsta ástæða þess að sumir geta bara alls ekki stjórnað sjálfum sér varðandi ákveðinn mat, sama hversu mikið þeir reyna (1).

Hvað er matarfíkn?

Matarfíkn þýðir einfaldlega að vera háður ruslmat á sama hátt og eiturlyfjaneytendur eru háðir fíkniefnum.

Hún hefur áhrif á sömu svæði í heilanum, sömu taugaboðefni og mörg einkenni eru eins (2).

Matarfíkn er tiltölulega nýtt (og umdeilt) hugtak og það eru engar áreiðanlegar tölur um hversu algeng hún er.

Hún er mjög svipuð ýmsum öðrum átröskunum, þar á meðal lotugræðgi, lotuofáti eða almennt “óheilbrigðum” tengslum við mat.

Hvernig virkar þetta?

Unnin, rusl matvæli hafa öflug áhrif á “verðlauna” miðstöðvar heilans fyrir tilstuðlan taugaboðefna eins og dópamíns (3).

Maturinn sem virðist helst kalla fram þessi viðbrögð er dæmigerður “ruslmatur” og hollari matvæli sem innihalda annað hvort sykur eða hveiti eða hvoru tveggja.

Matarfíkn snýst ekki um skort á viljastyrk eða eitthvað þess háttar, hún er af völdum sterkra, lífefnafræðilegra dópamínmerkja sem “taka yfir” starfsemi heilans (4).

Það eru margar rannsóknir sem styðja þá staðreynd að matarfíkn sé alvöru vandamál.

Nákvæmlega hvernig þetta virkar er þokkalega flókið, en þetta stutta myndband útskýrir það á nokkuð einfaldan hátt:

8 merki um matarfíkn

Það er ekki til nein blóðprufa sem greinir matarfíkn. Eins og með aðra fíkn, þá byggist greiningin á hegðunareinkennum.

Hér eru 8 algeng einkenni sem eru dæmigerð fyrir matarfíkla:

  • Þú fyllist oft sterkri löngun í tiltekinn mat, þrátt fyrir að þú sért saddur og hafir nýlega lokið við góða máltíð.
  • Þegar þú gefur eftir lönguninni og borðar, borðarðu oft miklu meira en þú ætlaðir þér.
  • Þegar þú borðar mat sem þig langar mikið í, borðar þú stundum þar til þér finnst þú vera að “springa”.
  • Þú færð oft samviskubit eftir að hafa borðað ákveðinn mat, en borðar hann samt fljótlega aftur.
  • Þú býrð til afsakanir í huganum til að réttlæta af hverju þú ættir að borða ákveðnar matartegundir.
  • Þú hefur ítrekað reynt að hætta að borða eða setja reglur (þ.m.t. svindl máltíðir/daga) fyrir tiltekin matvæli, en það hefur klikkað.
  • Þú felur oft neyslu þína á óhollum mat fyrir öðrum.
 • Þér finnst þú ekki geta stjórnað neyslu þinni á óhollum mat, þrátt fyrir að vita að hann sé að valda þér líkamlegum skaða (þ.m.t. þyngdaraukningu).

Ef þú getur tengt við 4-5 atriði á listanum, þá átt þú sennilega við alvarlegt vandamál að stríða varðandi mat. Ef þú getur tengt þig við 6 eða fleiri atriði, þá ertu að öllum líkindum matarfíkill.

Matarfíkn er alvarlegt vandamál

Þótt hugtakið “fíkn” sé oft notað í léttvægu samhengi, þá er alvöru fíkn mjög alvarlegt mál.

Ég er alkóhólisti, reykingamaður og fíkniefnaneytandi í bata og á mér sögu um margar meðferðir, fangaklefa oftar en ég get talið og margar ferðir á neyðarmóttöku vegna ofneyslu.

Eftir að hafa verið edrú í nokkur ár, byrjaði ég að þróa með mér fíkn í óhollan mat.

Alvöru fíkn. Hvorki meira né minna.

Ástæðan fyrir því að ég segi þér frá þessu er til að sýna fram á að ég þekki fíkn og veit hvernig hún virkar.

Ég er að segja þér að matarfíkn er eins og fíkn í eiturlyf … nákvæmlega eins.

Einkennin og hugsanirnar eru alveg eins. Efnin eru bara mismunandi og félagslegar afleiðingar matarfíknar eru ekki þær sömu.

Matarfíkn getur valdið líkamlegum skaða. Hún getur leitt til alvarlegra sjúkdóma eins og offitu, sykursýki 2, hjartasjúkdóma, krabbameins, Alzheimer, liðagigtar og þunglyndis, til að nefna nokkrar.

En þú hefur stærri ástæður til að hætta en einhverja framandi sjúkdóma í fjarlægri framtíð. Matarfíkn er líka að eyðileggja líf þitt … í dag.

Hún brýtur niður sjálfsálit þitt, gerir þig óánægðan með líkamann og getur gert líf þitt að lifandi helvíti (eins og hún gerði hjá mér).

Alvarleika þess að vera matarfíkill er ekki hægt að gera of mikið úr. Þetta er vandamál sem getur eyðilagt líf og drepið fólk. Bókstaflega.

Lögmál fíknar – Af hverju þú getur aldrei orðið fær um að borða “venjulega” aftur

Mikilvægasta lexía sem ég hef nokkru sinni lært er kölluð lögmál fíknar:

“Að gefa fíkli efni sem hann er háður, mun valda því að fíknin í ávanabindandi efnið kviknar aftur, af fullum krafti.”

Fyrrverandi reykingamaður sem tekur smók af sígarettu mun ánetjast aftur … samstundis.

Alkóhólisti sem fær sér sopa af bjór fær bakslag með öllum þeim hræðilegu afleiðingum sem því fylgir.

Það er engin leið í kringum þetta. Svona virkar fíkn einfaldlega.

Ég er persónulega sannfærður um að matarfíkn er ekkert öðruvísi. Einn kökubiti, einn kóksopi, eitt “svindl” – það þarf ekki meira.

Auðvitað þurfum við öll að borða eitthvað. Annars deyjum við úr hungri. En enginn þarf að borða sykur, unnið hveiti eða eitthvað nútíma matarrusl sem fólk hefur tilhneigingu til að missa stjórn yfir.

Flestir matarfíklar munu aldrei verða færir um að borða ruslfæði eins og “venjulegt” fólk aftur. Það er bitur sannleikurinn.

En ef þeim tekst að forðast “matvæli sem kveikja matarfíkn” þá ættu þeir að vera færir um að borða hollt og léttast án vandamála.

Sannleikurinn er … algjört bindindi er það eina sem örugglega virkar gegn fíkn. Því fyrr sem þú viðurkennir það, því fyrr mun þér batna.

Þó að “allt í hófi” skilaboðin virki fyrir suma, þá er þetta ráð glatað fyrir matarfíkla.

Þegar kemur að fíkn, þá er það dæmt til að mistakast. ALLTAF.

Þetta er einfalda (en ekki auðvelda) lausnin á fíkn. Að forðast fíkniefnið ánundantekninga.

Hvernig veit ég hvort þetta er fórnarinnar virði?

Að forðast algjörlega ruslmat gæti virst ómögulegt.

Þessi matur er alls staðar og er stór hluti af menningu okkar.

En trúðu mér … þegar þú hefur tekið þá ákvörðun að borða hann aldrei aftur, þá verður mun auðveldara að forðast hann.

Þegar þú hefur tekið ákvörðun um að forðast hann alveg, þá er ekki lengur nein þörf fyrir þig að réttlæta eitthvað í hausnum á þér og sterka löngunin hættir að gera vart við sig.

Margir sem hafa gert þetta (þar á meðal ég) fá ekki einu sinni löngun í ruslmat lengur, ekki eftir að þeir eru búnir að taka þá stóru ákvörðun að forðast þessi efni einfaldlega … til frambúðar.

En ef þú ert enn í vafa og veist ekki hvort þetta er fórnarinnar virði, þá skaltu skrifa niður lista yfir kosti og galla.

Kostirnir gætu verið: Ég léttist, ég lifi lengur, ég hef meiri orku og mér líður betur alla daga, o.s.frv.

Gallarnir gætu verið: Ég mun ekki geta borðað ís með fjölskyldunni, engar smákökur á jólunum, ég gæti þurft að útskýra fæðuval mitt.

Skrifaðu allt niður, sama hversu sérkennilegt það er eða mikið smáatriði. Settu síðan báða listana fyrir framan þig, hlið við hlið og spurðu sjálfan þig: Er það þess virði?

Ef svarið er hátt og snjallt “já” – þá getur þú treyst því að þú ert að gera rétt.

Undirbúðu þig og veldu dag

Það eru nokkrir hlutir sem þú getur gert til að undirbúa þig að gera breytinguna eins auðvelda og mögulegt er:

Matur sem kveikir þrá: Skrifaðu niður lista yfir þann mat sem þú hefur tilhneigingu til að fá sterka löngun í og/eða borða yfir þig af. Þetta er maturinn sem þú þarft að forðast með öllu.

Skyndibitastaðir: Skrifaðu niður lista yfir skyndibitastaði sem selja hollan mat. Þetta er mikilvægt og getur komið í veg fyrir að þú fallir þegar þú ert svangur og ekki í skapi til að elda.

Hvað áttu að borða: Hugsaðu um hvaða mat þú ert að fara að borða. Helst hollan mat sem þér finnst góður og ert nú þegar að borða reglulega.

Kostir og gallar: Íhugaðu að eiga nokkur eintök af “kostir og gallar” listanum þínum. Geymdu afrit í eldhúsinu, hanskahólfinu og töskunni/veskinu. Stundum þarftu þarfa áminningu um hvers vegna þú ert að þessu.

Það er mikilvægt að fara EKKI í “megrun”. Settu þyngdartap á bið að minnsta kosti í 1-3 mánuði.

Að yfirstíga matarfíkn er nógu erfitt eitt og sér, en ef þú ætlar að bæta svengd og fleiri hömlum við dæmið, þá ertu kominn með blöndu sem gerir hlutina enn erfiðari og líklegra verður að þér mistakist.

Nú skaltu setja dagsetningu, tíma í náinni framtíð (kannski um helgina eða í næstu viku).

Frá þessum degi og framvegis, munt þú aldrei snerta ávanabindandi matvæli aftur. Ekki einn bita, aldrei. Punktur.

Þegar allt annað bregst … leitaðu þér hjálpar

Ef þú fellur og missir aftur stjórn á neyslu þinni, þá ert þú ekki einn.

Að falla er regla þegar kemur að fíkn, ekki undantekning.

Flestir eiga sér sögu um nokkrar misheppnaðar tilraunir áður en þeim tekst að ná árangri til lengri tíma litið.

Svona var það hjá mér og flestum matarfíklum í bata sem ég þekki til.

En ef þú færð oft bakslag, þá er í raun ekkert vit í að reyna að gera þetta á eigin spýtur aftur. Ef þú hefur fallið hundrað sinnum, þá eru líkurnar á að þér takist þetta þegar þú reynir í 101. skiptið ansi takmarkaðar.

Til allrar hamingju, þá er aðstoð ekki langt undan …

Það eru heilsusérfræðingar og stuðningshópar sem geta hjálpað þér að sigrast á þessu alvarlega vandamáli.

Þú getur leitað aðstoðar … t.d. hjá sálfræðingi eða geðlækni. Reyndu að finna einhvern sem hefur raunverulega reynslu í að takast á við matarfíkn.

En það eru nokkrir valkostir í boði, þar á meðal 12 skrefa prógrömm eins og Overeaters Anonymous (OA samtökin) og Greysheeters Anonymous (GSA samtökin).

Ég vil nefna sérstaklega MFM miðstöðina, en þar er í boði alveg ótrúlega góð meðferð sem hefur bjargað fjölda mannslífa. Ég veit um marga sem hafa náð góðum bata þar.

Farðu bara á vefsíðurnar þeirra og leitaðu upplýsinga.

Hvað sem þú gerir, gerðu eitthvað!

Matarfíkn er vandamál sem sjaldan leysist af sjálfu sér. Ef þú tekst ekki á við hana, eru allar líkur á að hún muni bara versna með tímanum.

Ef þú átt við þetta vandamál að stríða, þá verður þú að gera eitthvað í málinu núna, annars mun það eyðileggja líf þitt.

Ef þú hefur áhuga á sögunni minni og vilt fá ítarlegri útgáfu af leiðbeiningunum hér að ofan, skaltu fara á þessa síðu til að ná þér í ókeypis rafbók mína um matarfíkn.

Þessi grein birtist upphaflega á AuthorityNutrition.com.

Kristján Már Gunnarsson, Læknanemi og atvinnubloggari

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook!