Fara í efni

Geta orðið ör­yrkj­ar af net­notk­un

„Þetta er gríðarlega öfl­ug og góð tækni, en hún get­ur verið viðsjár­verð fyr­ir þá sem of­nota hana. Ég held að það sé mik­il þörf fyr­ir opna sam­fé­lags­lega umræðu um þessa tækni, þannig að við lær­um að um­gang­ast hana,“ seg­ir Björn Hjálm­ars­son barna­lækn­ir, sem starfar á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans.
Ljósmynd: Hanna Andrésdóttir mbl
Ljósmynd: Hanna Andrésdóttir mbl

„Þetta er gríðarlega öfl­ug og góð tækni, en hún get­ur verið viðsjár­verð fyr­ir þá sem of­nota hana. Ég held að það sé mik­il þörf fyr­ir opna sam­fé­lags­lega umræðu um þessa tækni, þannig að við lær­um að um­gang­ast hana,“ seg­ir Björn Hjálm­ars­son barna­lækn­ir, sem starfar á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans.

Björn seg­ir að óhóf­leg tölvu- og snjall­tækja­notk­un sé orðin vanda­mál meðal ís­lenskra ung­menna. 

„Við sjá­um tvær mynd­ir af þessu. Ann­ars veg­ar ung­lings­stúlk­urn­ar sem eru orðnar háðar því að fá viðgjöf í gegn­um netið og eru nán­ast orðnar þræl­ar sím­anna sinna. Þær þurfa að svara hverju tísti og vaka jafn­vel á nótt­unni til að sinna þess­ari þörf. Þetta verður eins kon­ar víta­hring­ur, þær verða háðar læk­um og gera allt til að fá sem flest læk. Um leið og ólag er komið á svefn­inn hrak­ar síðan náms­ár­angri, eða frammistöðu í starfi, mjög hratt. Þetta eru jafn­an gáfaðar stúlk­ur sem allt í einu helt­ast úr lest­inni í skól­an­um og eng­inn veit af hverju. Íslensk­ar rann­sókn­ir benda til þess að hjá þess­um hópi stúlkna sé kvíði og svefn­vandi vax­andi vanda­mál, en kvíðinn virðist rista dýpra en áður,“ seg­ir Björn og bæt­ir við að því fylgi mikið óör­yggi að vera háður ytri viðmiðum um eig­in per­sónu.

Björn bend­ir á að vandi drengja lýsi sér yf­ir­leitt með öðrum hætti, en þeim er hætt­ara við að ánetj­ast tölvu­leikj­um.

„Það er merki­legt hvað þessi vandi er kyn­bund­inn, en það eru sér­stak­lega þess­ir fjöl­spil­un­ar­leik­ir sem virðast vera skeinu­hætt­ast­ir fyr­ir pilt­ana okk­ar. Þetta eru tölvu­leik­ir þar sem ein­stak­ling­ar skipa sér í lið með liðsmönn­um sem geta verið hvaðanæva úr heim­in­um, þar sem þeir svo etja kappi við annað lið. Þetta eru svo krefj­andi leik­ir að ein­stak­ling­ar geta varla farið á kló­settið meðan á leik stend­ur því þá eru þeir að svíkja liðsfé­laga sína. Þess­ir leik­ir rústa gjarn­an regl­unni á sól­ar­hringn­um, því það er ekki hægt að hætta í leikn­um fyrr en hann er bú­inn. En þá er nótt­in jafn­vel úti.“

Björn kann enga skýr­ingu á því hvers vegna vand­inn birt­ist með svo ólík­um hætti. Hann bend­ir þó á að hugs­an­lega séu karl­ar meiri adrenalín­fíkl­ar en kon­ur og sæki þar af leiðandi í tölvu­leik­ina. Þá seg­ir hann að önn­ur mögu­leg skýr­ing sé sú að kon­ur séu heilt yfir meiri tengslaver­ur en karl­menn og sæki því hugs­an­lega meira í sam­fé­lags­miðla. En hvaða af­leiðing­ar get­ur óhóf­leg snjall­tækja­notk­un og net­fíkn haft í för með sér?

„Al­var­leg­asta mynd­in af þessu er bein­lín­is ör­orka þegar krakk­ar ná 18 ára aldri. Það snýst bók­staf­lega allt um tölvu- eða snjall­tækja­notk­un­ina og ekk­ert annað kemst að. Ég hef það á til­finn­ing­unni að þetta eigi þó frek­ar við um pilta en stúlk­ur,“ seg­ir Björn og bæt­ir við að brjóst­vit for­eldra sé jafn­an besti mæli­kv­arðinn þegar kem­ur að því að meta hvort snjall­tækja­notk­un­in sé kom­in úr bönd­un­um.

„Þegar for­eldr­ar fá það sterkt á til­finn­ing­una að snjall­tækja­notk­un­in sé orðin of mik­il er ástæða til að grípa inn í. Banda­rísku barna­lækna­sam­tök­in hafa verið vak­in og sof­in yfir þess­ari þróun og hafa gefið út alþjóðleg­ar leiðbein­ing­ar. Þar er meðal ann­ars talað um að snjall­tækja- og tölvu­notk­un fyr­ir 18 mánaða ald­ur eigi ekki að eiga sér stað. Þá er mælt með því að börn frá tveggja til sex ára eigi að vera að há­marki einn klukku­tíma á dag í frjáls­um leik í þess­um tækj­um. Síðan er talað um tvær klukku­stund­ir á dag fyr­ir sex til 18 ára. Við höf­um kannað þetta inni á BUGL og sjá­um að notk­un skjól­stæðinga okk­ar er langt um­fram þessi mörk.“

Mik­il sjón­ræn örvun hef­ur nei­kvæð áhrif á ímynd­un­ar­aflið

Björn seg­ir að breyt­ing sé að verða á hegðun barna í leik- og grunn­skól­um, en börn nú til dags eiga til að mynda orðið erfiðara með að fylgj­ast með í sögu­stund­um vegna þess að þau vant­ar sjón­ræna örvun.

„Maður þarf að hugsa um tvenns kon­ar áhrif í því sam­hengi, það eru ann­ars veg­ar þessi beinu áhrif sem þessi mikla sjón­ræna skynörvun hef­ur á börn­in okk­ar. Og hins veg­ar eru það ruðnings­áhrif sem eiga sér stað þegar skjá­tím­inn verður of lang­ur. Við verðum að hafa í huga hvaða virkni er verið að ryðja í burtu í staðinn. Við vit­um til dæm­is að snert­ing við nátt­úr­una og frjáls leik­ur er gríðarlega þroska­örv­andi fyr­ir börn­in okk­ar. Ef við ryðjum þess­ari virkni í burtu get­ur tækn­in bein­lín­is verið þroskaletj­andi,“ seg­ir Björn.

„Sjálf­ur á ég einn níu ára hnokka sem ég spurði eitt sinn hvað væri það dýr­mæt­asta sem hann ætti, en hann svaraði ímynd­un­ar­aflið. Ég hef síðan heyrt frá kenn­ur­um sem starfa við leik- og grunn­skóla að það sé að verða breyt­ing á hegðun barna í dag. Sögu­stund­in, þar sem les­inn er upp texti, geng­ur verr fyr­ir sig því börn­in ná ekki að fylgj­ast með hinu lesna orði. Þessi mikla sjón­ræna möt­un virðist deyfa ímynd­un­ar­afl barna þannig að þau geta ekki búið sér til sögu í hug­an­um. Við vit­um líka að ung börn, á fyrsta, öðru og þriðja ári, sem horfa mikið á sjón­varp, hafa seinkaða mál­töku. Þessi rann­sókn hef­ur verið end­ur­tek­in fyr­ir snjall­tæki en þar kom fram að þau börn sem eru mest í spjald­tölv­um eru einnig seinni til máls. Tækn­in er svo öfl­ug að hún hef­ur áhrif á heilaþrosk­ann, þess vegna finnst mér svo brýnt að það verði opin sam­fé­lags­leg umræða um þessi mál,“ seg­ir Björn og bæt­ir við að víða í Aust­ur­lönd­um fjær sé litið á net­væðingu sem lýðheilsu­mál og þar séu jafn­vel að spretta upp sta­f­ræn­ar af­vötn­un­ar­stöðvar.

Kyn­slóð af kján­um

„Ein­stein heit­inn sá þetta fyr­ir, en hann sagðist ótt­ast þann tíma þegar tækn­in tæki yfir sam­skipti fólks því þá mynd­um við eign­ast kyn­slóð af kján­um. En hann sagði bara eina kyn­slóð, sem þýðir að auðvitað mun­um við í tím­ans rás læra að um­gang­ast þessi tæki skyn­sam­lega. Það er þó ekki hægt að horfa fram hjá því að það er margt gríðarlega skaðlegt sem fer fram á net­inu. Það hef­ur til dæm­is sýnt sig að þeir pilt­ar sem eru mest í of­beld­is­leikj­um eru hneigðari til að beita of­beldi en þeir sem eru minna í þess­um leikj­um. Net­klám er held­ur alls ekki gott fyr­ir börn­in okk­ar,“ seg­ir Björn og bæt­ir við að kyn­slóðabilið hafi breikkað, enda séu börn og ung­menni jafn­an fljót­ari að til­einka sér nýja tækni en full­orðnir.

„Við erum að út­setja kyn­slóð fyr­ir nýrri tækni, en vit­um ekki hvaða áhrif hún mun hafa því við höf­um ekki reynsl­una. Rann­sókn­ir er­lend­is sýna þó að ef for­eldr­ar fá öfl­uga ráðgjöf virk­ar það vel. Þá reisa þeir frek­ar mörk um þessa notk­un hjá börn­un­um,“ seg­ir Björn, en hvað geta for­eldr­ar gert til að fyr­ir­byggja vand­ann?

„Ég tel að það sé í fyrsta lagi mik­il­vægt að skoða þessa ráðgjöf frá banda­rísku barna­lækna­sam­tök­un­um. Hún er byggð á fjölda rann­sókna. Leiðbein­ing­arn­ar eru vel meint­ar og ekki stefnt til höfuðs þess­ari nýju tækni, held­ur ein­mitt til þess að við get­um notað hana skyn­sam­lega. Ég held að mik­il­væg­asta atriðið sé að finna kjörag­ann. Ég ótt­ast að núna sé of mik­il óreiða á þess­ari notk­un. Hún sé stjórn­laus. Hjá börn­um sem veikj­ast af henni er hún allt of mik­il og bein­lín­is skaðleg. Óreiðan ger­ir þannig frelsið að engu. Á sama hátt væri það of­uragi að banna þessa tækni. Kjöragi er þessi gullni meðal­veg­ur sem há­mark­ar frelsi okk­ar. Svo held ég að það skipti miklu máli í þessu sam­hengi að við sem for­eldr­ar erum fyr­ir­mynd­ir. Það er glóru­laust að banna börn­un­um að vera á net­inu, en vera þar síðan alltaf sjálf­ur,“ seg­ir Björn og bæt­ir við að ábyrgðin sé mest for­eldr­anna, enda fari notk­un­in að mestu leyti fram á heim­il­inu.

Höfundur greinar:

Ellen Ragnarsdóttir, Morgunblaðið

 

 

Grein birtist fyrst á mbl.is