Fara í efni

Jólasmákökur fyrir ofnæmisgrísi

Fljótlegar, einfaldar og hrikalega góðar.
Jólasmákökur fyrir ofnæmisgrísi

Það eru þessir litlu sigrar í lífinu sem að skipta máli og mér er oft hugsað til enska máltaksins "When life gives you lemons you make lemonade".

Maður lætur það sko ekkert á sig fá að vera orðin stjarnfræðilega heftur í matarinntöku og bara aðlagar sig eftir bestu getu.

Hér á bæ er að finna nánast öll helstu fæðuofnæmin því eru allar mínar uppskriftir glúteinfríar, mjólkurlausar, án eggja og soja, hnetu/trjáhnetu/möndlulausar og án allra fræja.  

Ég er búin að vera í mikilli tilraunastarfsemi í smákökum og er hreinlega búin að vera troða afrakstrinum upp í alla sem á vegi mínum verða - so sorry elsku samstarfsfólk - það myndi náttúrulega fáir neita mér þegar ég horfi með bænar augum á þau gæða sér á kökum og spyr "finnst þér þetta ekki gott?" Þannig að jú það finnst þær öllum rosalega góðar. Ég hef allavega þurft að baka nokkuð marga skammta því þær stoppa svo stutt við hjá mér.

En bara svona til að sýna hvernig þróunin hefur verið þá ætla ég að byrja á að setja inn fyrstu tilraunina og svo koll af kolli, þá líka til að sýna hvernig hægt er að þróa og breyta og aðlaga uppskriftum af vild. Uppruni uppskriftarinnar er frá Sollu (minnir mig) en hún innihélt svona um það bil allt sem gæti komið mér í gröfina þannig að ég nýtti mér hlutföllinn hennar og fann mér svo innihaldsefni sem væru sem líkust hennar í áferð.

Uppskrift #1 

 • 1 dl kókósflögur (sjá mynd - frá Yggdrasil)
 • 6 dl haframjöl (Semper fæst í Bónus)
 • 3 dl döðlumauk (sýð saman döðlur og vatn - mauka með töfrasprota)
 • 2 dl glúteinfrítt hveiti (frá Dove's farm í bláum poka - fæst td í Fjarðakaup)
 • 1 1/2 dl kókósolía
 • 1 1/2 dl hlynsíróp

Kókósflögum, haframjöli, döðlumauki og GF hveiti er sett saman í hrærivél blandað vel og svo er kókósolían og hlynsírópið sett útí og hrært. Rúllað upp í litla bolta, sett á plötu, boltum þrýst niður með puttum og inn í ofn á 200° (blástur) í svona 12-15 mín, samt frekar nær 12 mín.

Ristaðar kókósflögur og Semper haframjöl

Uppskrift #2

Tvöfaldaði uppskriftina og ákvað þá að prófa að setja haframjölið í matvinnsluvélina til að gera það fínna og það kom líka rosalega vel út.

Uppskrift #3 og væntanlega sú besta hingað til

Fór semsagt að nota bolla system því ég þoli ekki desilítra

 • 1/2 bolli ristaðar kókósflögur (Yggdrasil)
 • 3 bollar haframjöl (semper)
 • 1 bolli GF hveiti (dove's farm blár)
 • 1 1/2 bolli döðlumauk
 • 1 tsk allrahandakrydd
 • 1/2 bolli kókósolía
 • 1/2 bolli hlynsíróp

Ég lenti nýlega í því að fá óútskýrð ofnæmisviðbrögð við þessum kökum þannig að ég mæli eindregið með því að lesa og lesa og lesa utan á allar pakkningar og ef þið eruð ekki 100% viss þá frekar að sleppa en að taka áhættuna. Þetta á sérstaklega við um vörur sem pakkað er hérlendis og hjá fyrirtækjum sem að pakka líka hnetum. 

Þessar kökur eru alveg yndislega bæði beint útúr ofninum og beint útúr frystinum. Njótiði vel! 

Ferlið í hnotskurn