Fara í efni

Hlutverk áfengis- og vímuefnaráðgjafans í meðferðinni

Oft hefur mikið gengið á áður en fólk er tilbúið að stíga þessi þungu skref að fara í áfengismeðferð.
Hulda Margrét Eggertsdóttir, Ráðgjafi
Hulda Margrét Eggertsdóttir, Ráðgjafi

Í framhaldi af grein minni um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa langar mig að útskýra hvert hlutverk ráðgjafans er í meðferðinni. Ég hef mjög oft mætt því viðhorfi að með því að fara í 10 daga á Vog þá sótthreinsist fólk bara eins og heilinn á því hafi verið settur í gegnum heilaþvottavél. Jú, áfengis- og vímuefnafíkn er heilasjúkdómur en þetta er ekki alveg svona einfalt. Ég skil að væntingar fólks séu miklar, bæði sjúklingsins og aðstandenda hans.

Oft hefur mikið gengið á áður en fólk er tilbúið að stíga þessi þungu skref að fara í áfengismeðferð. Þá oft á tíðum á bara að græja þetta og búið. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar starfa á öllum stigum meðferðarinnar í samvinnu við aðrar stéttir eins og lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Í meðferðinni er unnið eftir ákveðinni hugmyndafræði sem hefur verið rannsökuð á vísindalegan hátt. Notað er sérstakt greiningarkerfi ameríska geðlæknisfélagsins DSM-IV til að greina hvort viðkomandi sé með fíknisjúkdóm.

Á göngudeild kemur fólk í viðtal og hægt er að skima með ákveðnum listum hvort það séu vísbendingar um áfengis- og vímuefnavanda. Endanleg greining er gerð af læknum á Vogi.

Hlutverk ráðgjafans er að komast að því með viðkomandi hvort áfengis- og vímuefnafíkn sé vandamál og hvað hann vilji gera ef svo er. Á Vogi er unnið í svokölluðu meðferðarteymi, þar koma að meðferðinni læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Hlutverk ráðgjafans er að halda fyrirlestra um fíknisjúkdóminn, halda utan um meðferðarhóp, taka sjúklinginn í viðtöl og fylgjast með hvernig afeitrun gengur.
Á Vogi er lágmark 10 dagar en sumir þurfa að vera lengur. Afeitrun tekur mislangan tíma eftir ástandi fólks og notkun vímugjafa. Í fyrstu tekur ráðgjafinn á móti sjúklingnum og hjálpar honum að komast inn í meðferðardagskrána. Fólk er í mismunandi ásigkomulagi, andlega og líkamlega. Sumir eru mjög veikir í byrjun og þurfa mikla aðhlynningu hjúkrunarfólks.

Hlutverk ráðgjafans á Vogi er að hjálpa viðkomandi að átta sig á hvort hann sé með þennan sjúkdóm, áfengis- og vímuefnafíkn. Sjúklingurinn situr þrjá fyrirlestra á dag sem fluttir eru af læknum og ráðgjöfum, til þess að átta sig á hvort hann sé á réttum stað. Hvort áfengis- og vímuefnafíkn sé aðalvandinn. Eins stjórnar ráðgjafinn meðferðarhóp þar sem áfram er unnið með svipuð markmið.

Fólk kemur á Vog af ýmsum ástæðum. Það er ekki nóg að makanum finnist maður vera alkóhólisti, það hefur ákveðið vægi, en sjúklingurinn þarf að sjá það sjálfur og geta talað um sig sem slíkan. Það er ekki sjálfgefið að fólk sem hefur farið í meðferð áður geti gert grein fyrir sér sem alkóhólisti. Í þessu ferli erum við líka að kynnast fólki, hverjar eru félagslegar aðstæður þess. Á það heimili, er drykkja heima, er lítill stuðningur, er viðkomandi með tekjur, er viðkomandi með vinnu, í hvernig tengslum er hann við fólkið sitt?

Ekki að það sé hlutverk ráðgjafans að laga þetta heldur að hjálpa alkóhólistanum að átta sig á hvaða stuðning hann hefur þegar út er komið. Svo ef viðkomandi er á því eftir þessa fræðslu og afeitrun að hann sé með þennan sjúkdóm þá þarf ráðgjafinn að hjálpa sjúklingnum að átta sig á hvað hann vill gera. Vill hann hætta neyslu og breyta um lífsstíl, vill hann fara í eftirmeðferð og fræðast meira um sjúkdóminn og leiðir til að öðlast edrú líf? Vill hann bara taka afeitrun á Vogi og svo spreyta sig sjálfur?

Ef viðkomandi vill fara í eftirmeðferð þá geta verið ýmis vandamál sem standa í vegi fyrir því og þá þarf að ræða lausnir á því. Allt þetta þarf að gera á 10 dögum þar sem fólk kemur inn í miklu ójafnvægi, oft er allt í klessu, fólk veit ekki hvort hjónabandið muni halda, hvort það haldi vinnunni, missi ökuskírteinið, fái dóm og svo framvegis. Það er oft búið að ganga mjög nærri sér áður en það er tilbúið að stíga þetta skref að fara inn á Vog.

Svo þarf það að velta því fyrir sér hvort það sé með þennan heilasjúkdóm sem mörgum finnst ekki vera sjúkdómur heldur bara aumingjaskapur. Svo hefur kannski ekki runnið af fólki almennilega í mörg ár og það er með allskyns fráhvarfseinkenni. Í þessu öllu saman þarf fólk að nota heilann sinn sem víbrar af álagi og streitu til þess að taka stórar ákvarðanir um líf sitt. Svo kemur inn í þetta vonleysi, vanlíðan, afneitun, óþolinmæði og depurð. Þannig að í raun eru 10 dagar mjög stuttur tími.

Ef fólk fer í eftirmeðferð, þá eru það 28 dagar á Staðarfelli eða Vík með stuðningi á göngudeild í allt að ár eða göngudeildarmeðferð. Margir mega ekki vera að þessu, eru búnir að sitja alla fyrirlestrana. Þurfa að drífa sig heim að gera og græja málin. Það vill helst bara vera átta og hálfan dag. Það tekur tíma að breyta lífi sínu, venjum og viðhorfum. Það gerist ekki bara á 10 dögum á Vogi eða 28 dögum í eftirmeðferð. Heilinn þarf tíma til að jafna sig og geta fólks til að vinna úr sínum málum eykst eftir því sem viðkomandi er lengur edrú og streituþröskuldur fólks hækkar.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafinn lagar mann ekki en hans hlutverk að beina fólki í réttan farveg.

Hulda Margrét Eggertsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, CAC

-----------------------------------------------------------------------------------------
Nú stendur yfir landssöfnun SÁÁ, Áfram Vogur, til styrktar Sjúkrahúsinu Vogi.
Leggðu söfnuninni lið með því að hringja í símanúmerið

903-1001 fyrir 1000 króna styrk
903-1003 fyrir 3000 króna styrk
903-1005 fyrir 5000 króna styrk