Fara í efni

Af hverju er grænt te svona frábært?

Grænt te, svart te og oolong te eru unnin með mismunandi vinnsluaðferðum úr laufblöðum kínverska terunnans Camellia sinensis. Te hefur verið drukkið í Kína í a.m.k. 5000 ár en nú er mest framleitt í Kína, Indlandi og Sri Lanka.
Grænt TE
Grænt TE

Grænt te, svart te og oolong te eru unnin með mismunandi vinnsluaðferðum úr laufblöðum kínverska terunnans Camellia sinensis. Te hefur verið drukkið í Kína í a.m.k. 5000 ár en nú er mest framleitt í Kína, Indlandi og Sri Lanka.

Oftast er heitu vatni hellt á laufin og þá fæst venjulegt grænt te til drykkjar. Stundum er hins vegar búinn til útdráttur (extract) á þann hátt að laufin eru látin liggja í vatni eða alkohóli í tiltekinn tíma, laufin eru síuð frá, vökvinn síðan látinn gufa upp og þá fæst duft sem inniheldur viss efni úr telaufinu í miklu magni. Þetta duft er sett í töflur, hylki eða á annað form til inntöku.

Verkanir
Mjög margar verkanir hafa verið eignaðar grænu tei og verður hér stuttlega gerð grein fyrir þeim helstu og hversu vel þessar verkanir hafa verið staðfestar með rannsóknum.

 • Kynfæravörtur

Í sumum löndum (m.a. Bandaríkjunum) er á markaði krem með útdrætti af grænu tei sem hefur verið sýnt fram á að nota má staðbundið á kynfæravörtur með góðum árangri.

 • Hressandi og vekjandi

Grænt te inniheldur 2-4% koffein sem hefur örvandi áhrif á heilann.

 • Svimi við að standa upp

Eldra fólk fær stundum blóðþrýstingsfall og svima við að standa skyndilega á fætur. Vísbendingar eru um að grænt te geti dregið úr þessum einkennum.

 • Lágur blóðþrýstingur

Sumt eldra fólk fær óþægindi vegna lágs blóðþrýstings, einkum eftir máltíðir. Vísbendingar eru um að grænt te geti dregið úr þessum einkennum en þær þarf að staðfesta betur.

 • Blóðfitur

Vísbendingar eru um að grænt te geti lækkað blóðfitur á borð við kólesteról og þríglýserið. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Fyrirbyggjandi gegn krabbameini í þvagblöðru, vélinda, eggjastokkum eða brisi

Vísbendingar eru um að konur sem drekka te reglulega (grænt eða svart) fái síður krabbamein í eggjastokka en þær sem ekki drekka te. Svipaðar vísbendingar eru um krabbamein í þvagblöðru, vélinda og brisi. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Fyrirbyggjandi gegn Parkinsonsveiki

Vísbendingar eru um að þeir sem drekka 1-4 bolla af grænu tei daglega fái síður Parkinsonsveiki en aðrir. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Fyrirbyggjandi gegn leghálskrabbameini

Vísbendingar eru um að grænt te geti hindrað eða hægt á vexti illkynja frumna í leghálsi eftir sýkingu með papillómaveiru. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Yfirþyngd

Neysla á útdrætti (extract) af grænu tei hefur í sumum rannsóknum hjálpað fólki með yfirþyngd að léttast en niðurstöður eru misvísandi. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Hár blóðþrýstingur

Sumar rannsóknir en aðrar ekki gefa vísbendingar um að regluleg neysla á grænu tei minnki líkur á háum blóðþrýstingi. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Brjóstakrabbamein

Rannsóknir hafa aðallega verið gerðar í Asíu og sýna ekki verndandi áhrif af grænu tei. Hjá hvíta kynstofninum eru hins vegar veikar vísbendingar um verndandi áhrif en þetta þarf að rannsaka mun betur.

 • Blöðruhálskirtilskrabbamein

Í Kína hefur verið sýnt fram á viss verndandi áhrif af grænu tei gegn þessu krabbameini en ekki er vitað hvernig þetta er annars staðar.

 • Fullorðinssykursýki ( sykursýki af tegund 2)

Japanskar konur virðast í minni hættu að fá sykursýki ef þær drekka 6 bolla eða meira af grænu tei á dag. Betri rannsóknir þarf til að fá úr þessu skorið.

 • Um eftirfarandi sjúkdóma er of lítið vitað til að mögulegt sé að meta hugsanlegt gagn af grænu tei og hér þarf mun meiri rannsóknir: heilablóðfall, beinþynning, niðurgangur, síþreyta, hjartasjúkdómar, nýrnasteinar, lungnakrabbamein, magakrabbamein, húðkrabbamein, ristilkrabbamein.

Verkunarháttur
Virk innihaldsefni eru talin vera efni af flokki katekína, einkum epigallókatekín gallat, en þessi efni hafa m.a. þá eiginleika að vera andoxunarefni og að eyða skaðlegum stakeindum. Ekki er þó vitað nákvæmlega hvernig þau gætu verkað en þessi efni eru af mörgum talin líklegust til að skýra bæði gagnleg og skaðleg áhrif teneyslu, af þeim innihaldsefnum sem þekkt eru í grænu tei. Skammtar eru oft miðaðir við fjölda tebolla á dag eða magn katekína.

Öryggi
Grænt te sem bruggað er á venjulegan hátt og drukkið í hófi er almennt talið hættulaust. Ekki er hægt að segja til um öryggi þess að drekka grænt te í miklu magni (meira en 5 bollar á dag). Útdrátt (extract) úr grænu tei er hægt að gera með vatni eða alkohóli. Slíkir útdrættir eru venjulega teknir inn í fæðubótarefnum, oft í blöndum með öðrum efnum. Vitað hefur verið í mörg ár að alkohólútdrættir af grænu tei geta einstaka sinnum valdið lifrarskaða og samkvæmt nýjustu heimildum geta vatsútdrættir gert það líka.

Sérstakir hópar
Konur sem eru að bíða eftir að verða barnshafandi ættu að draga úr koffeinneyslu og þess vegna nota grænt te i miklu hófi (mest 2 bolla á dag) en sama gildir um konur sem eru barnshafandi eða með barn á brjósti.
Sjúklingar með eftirfarandi sjúkdóma ættu líka að draga úr notkun á grænu tei: blóðleysi, hjartsláttartruflanir, svefnleysi, blæðingartilhneiging, beinþynning eða sykursýki. Þeir sem eru með lifrarsjúkdóm ættu að takmarka teneyslu og ekki nota fæðubótarefni sem innihalda útdrátt (extract) af grænu tei.

Milliverkanir við lyf eða annað
Enginn ætti að nota ólögleg fíkniefni eins og amfetamín, kókaín eða efedrín en þau eru sérlega hættuleg ef þau eru tekin með drykkjum sem innihalda koffein en grænt te inniheldur talsvert koffein.
Koffein og katekín í grænu tei geta milliverkað við sum lyf.

Skammtar
Hófleg neysla á grænu tei telst vera ef drukknir eru innan við 5 bollar á dag.

Heimildir og ítarefni
Upplýsingar hafa verið sóttar í talsverðan fjölda birtra heimilda. Dæmi um aðgengilegt efni:
1. http://www.nlm.nih.gov/medlineplus/druginfo/natural/960.html
2. http://en.wikipedia.org/wiki/Green_tea
3. http://www.natturan.is/greinar/1965/

Höfundur og dagsetning síðustu endurskoðunar
Magnús Jóhannsson læknir, 

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.