Fara í efni

Þátttakendur óskast í vísindarannsókn um astmasjúkdóm. Viðtal við Mörtu og Monique sem standa að þessari vísindarannsókn

Þátttakendur óskast í vísindarannsókn um astmasjúkdóm.
Marta og Monique
Marta og Monique

Segið mér frá þessu verkefni sem þið eruð að vinna að?

Monique hefur starfað lengi sem sjúkraþjálfari og þar á meðal unnið með astmasjúklinga.  Auk þess þjáðist hún sjálf af astma. 

Þannig vaknaði sérstakur áhugi hennar á þjálfunarmeðferð astmasjúklinga og því fannst henni upplagt að taka slíka rannsókn sem hluta af meistaranámi sínu í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. 

Marta er búin að vinna lengi við endurhæfingu lungnasjúklinga og mat og mælingar á þeim.  Hún er nú lektor við Háskóla Íslands og var því kjörinn í hlutverkið sem leiðbeinandi Monique. 

Saman mæla þær þátttakendur og hafa góðfúslega fengið leyfi til að nota tækjabúnað Hjarta- og lungnarannsóknastofunnar á Reykjalundi.  Monique sér svo um meðferðina.

En hvers vegna vísindarannsókn um astmasjúkdóminn?

Tíðni astma fer vaxandi í hinum vestræna heimi samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO). 

Astma einkenni geta verið mjög breytileg og oft á sjúklingurinn erfitt með að ná tökum á sjúkdómnum og einkennum hans þrátt fyrir lyfjameðferð.  Truflun á öndunarstjórn hefur verið tengd astma, einkum falin oföndun (hyperventilation) sem talin er leiða til  berkjusamdráttar.  Því hefur sjónum verið beint að öndunarþjálfun til að ná betri tökum á sjúkdómnum og einkennum1,2

Þar á meðal er svonefnd Buteyko öndunarmeðferð, sem er viðurkennd meðferð3 og beinist að því að minnka hvíldaröndun og hafa þannig áhrif á astmaeinkennin. Rannsóknir hafa sýnt að þessi öndunarmeðferð minnkar þörf fyrir astmalyf og eykur lífsgæði sjúklinganna4,5

Hvað eru þið að vonast til að fá marga til að taka þátt?

Við ætlum að halda áfram með rannsóknina þar til 25 sjúklingar hafa lokið samanburðartíma og meðferð og 25 heilbrigðir einstaklingar (viðmiðunarhópur) hafa lokið samanburðartíma.  Okkur vantar ennþá fimm sjúklinga og 15 heilbrigða einstaklinga til að taka þátt í rannsókninni.

Viðmiðunarhópurinn þarf að passa við sjúklingahópinn.  Við þurfum því að velja inn viðmið á móti hverjum sjúklingi þannig að hann sé af sama kyni, svipuðum aldri og holdafari. 

Getur hver sem er tekið þátt, þá er ég að meina aldur og þannig?

Inntökuskilyrði fyrir astmasjúklinga í rannsóknina er að þeir séu 18 ára eða eldri, með astmagreiningu, hafi notað stuttverkandi berkjuvíkkandi lyf eins og Ventolín að minnsta kosti í einu sinni í viku undanfarna mánuði og séu viljugir til að taka þátt í öndunarmeðferð.

Inntökuskilyrði fyrir heilbrigða þátttakendur er að þeir séu 18 ára eða eldri, ekki með astma greiningu og noti ekki heilsutengd lyf. 

Í viðmiðunarhópinn vantar okkur núna helst konur á aldursbilinu 45-65 ára, með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 22 – 35 m/kg2  (reiknivél til að reikna líkamsþyngdarstuðul, BMI, er að t.d. finna á http://www.vinnuvernd.is/bmi.php )

Hvað mun þessi rannsók taka langan tíma?

Fyrir astmasjúkling tekur þátttakan eitt ár.  Fyrst er mæling á öndun og astmaeinkennum.  Síðan tekur við 6 mánaða tímabil þar sem sjúklingur fyllir út dagbók (samanburðartímabil) og svarar nokkrum sinnum spurningarlista um astmaeinkenni.  Eftir þann tíma er mæling endurtekin og meðferðin hefst. 

Meðferðin fer fram í 5-8 manna hópi, 2 klukkustundir í senn  í 5 skipti á tveggja og hálfs vikna tímabili og er framkvæmd af Monique sjúkraþjálfara sem er alþjóðlega viðurkenndur Buteykoþjálfari.  Eftir að meðferð lýkur er 6 mánaða eftirfylgd og að henni lokinni er lokamæling gerð. 

Þátttaka heilbrigðra er einfaldari.  Hún felst í tveimur mælingum á öndun með 6 mánaða millibili.   Við gerum okkur von um að gagnasöfnun ljúki eftir eitt og hálft ár, ef vel gengur að fylla sjúklingahópinn.

Er greitt fyrir þátttöku?

Það er ekki greitt fyrir þátttöku í rannsókninni.

Hins vegar getur ávinningur af þátttöku verið verulegur fyrir sjúklinga ef vel gengur.  Markmiðið með þjálfuninni er að bæta öndunarstjórn, minnka lyfjanotkun og einkenni af astmanum.   Þjálfunin er veitt endurgjaldslaust.

Ávinningur fyrir heilbrigða eintaklinga er blásturspróf sem þeir fá án endurgjalds auk þess að leggja verkefni lið sem vonandi á eftir að gagnast astmasjúklingum á Íslandi og víðar í framtíðinni.

HÉR má lesa um þessa rannsókn.

Heimildir:

1.         Burgess J, Ekanayake B, Lowe A, Dunt D, Thien F, Dharmage SC. Systematic review of the effectiveness of breathing retraining in asthma management. Expert Rev Respir Med 2011;5:789-807.

2.         Holloway E, Ram FS. Breathing exercises for asthma. Cochrane Database Syst Rev 2004:CD001277.

3.         The British Thoracic Society Scottish Intercollegiate Guidelines Network. available at : http://www.sign.ac.uk/pdf/qrg101.pdf

4.         Cowie RL, Conley DP, Underwood MF, Reader PG. "A randomised controlled trial of the Buteyko technique as an adjunct to conventional management of asthma". Respir Med 2008;102:p.726-32.

5.         McHugh P, Aitcheson F, Duncan B, Houghton F. Buteyko Breathing Technique for asthma: an effective intervention. N Z Med J 2003;116:U710.

Marta Guðjónsdóttir og Monique van Oosten.

Ao.is