Fara í efni

Kristófer J. Hjaltalín er eigandi Ginger og við fengum hann í smá spjall

Hann Kristófer J.Hjaltalín hefur starfað í veitingageiranum frá því hann fór út á vinnumarkaðinn.
Kristófer eigandi Ginger
Kristófer eigandi Ginger

Hann Kristófer J.Hjaltalín hefur starfað í veitingageiranum frá því hann fór út á vinnumarkaðinn.

“Fyrir um 9 árum hellti ég mér út í heilsusamlegan lífstíl, keppti í fitness, lærði einkaþjálfarann og fór að vinna við þjálfun og á endanum fór ég að elda fyrir viðskiptavini mína. Vinsældir þessa jukust jafnt og þétt og á endanum stofnaði ég Ginger veitingastað. Framundan er að kynna fyrir landanum hversu ljúfffengur og einfaldur hollur og orkuríkur matur getur verið.“

Byrjum á að forvitnast hvernig týpískur morgun er hjá þér ?

Ég fæ mér cafe latte og ávexti og kíki svo á staðina mína.

Hvað áttu alltaf til í þínum ísskáp ?

Vínber, sódavatn og G- mjólk.

Hvers vegna þú fórst út í veitingarekstur ?

Það gerðist alveg óvart.  Ég var að sinna einkaþjálfun á þessum tíma og oft lentu viðskiptavinir mínir í vandræðum með að ná árangri vegna þess að mataræðið þvældist mikið fyrir þeim.  Þau vissu ekkert hvað þau áttu að borða og hversu mikið, svo ég fór út í það að elda holla og einfalda rétti til að sýna þeim hvernig hægt væri að gera þetta. Og viti menn, það stóð ekki á árangrinum og allt í einu var orðið vitlaust að gera hjá mér, þá var lítið annað að gera en að opna stað sem gæti sinnt þeim heildarlausnum sem liggja í góðu mataræði. Síðan er búið að vera brjálað að gera og varð ég að hætta þjálfuninni og snúa mér alfarið að eldamennskunni og hræra í pottunum. Núna er ég kominn með þrjá staði og þetta er bara rétt að byrja.

Hver var kveikjan að því að þið ákváðuð að leggja áherslu á heilsurétti framar öðru ?

Það kom aldrei annað til greina. Mér og viðskiptavinum mínum úr einkaþjálfuninni vantaði svona stað í veitingahúsaflóruna til að geta tileinkað okkur þann lífstíl sem okkur langaði að lifa eftir, svo hægt væri að breyta lífi sínu til hins betra. Gott mataræði og regluleg hreyfing auka lífsgæði, það er ekkert sem toppar það.

Hvað segið þið um þann aukna kostnað sem fylgir því að bjóða upp á mikið af grænmeti og meiri hollustu ?

Við þekkjum ekkert annað, og lögðum alltaf upp með það frá upphafi að við myndum hafa minna upp úr rekstrinum en bjóða hinsvegar alltaf upp á gæði alla leið, það skilar sér til lengri tíma. Það er erfitt að verðleggja góð lífsgæði, þau bara kosta, en maður stendur alltaf upp úr sem hamingjusamur einstaklingur og fjölskylda á endanum.  Almenn hamingja er fjölskyldusjúkdómur sem smitar út frá sér og gefur af sér, það er það eina sem skiptir máli.

Hvað getur þú sagt okkur um þá hollustu rétti sem þið eruð með, hvaða réttir eru vinsælastir og hver er þinn uppáhaldsréttur?

Flestir okkar réttir eru einfaldir en góðir, við förum ekki alla leið í boð og bönn, en við notum frekar brún grjón en hvít grjón, heilhveititortillur frekar en hveititortillur, gríska jógúrt eða hreint skyr frekar en majónes og svona get ég haldið endalaust áfram, gæða hráefni fyrir sanngjarnt verð. Ætli grillaði kjúklingurinn með sætu kartöflunum og jalapeno vefjan séu ekki með því vinsælasta sem við bjóðum uppá í dag.

Ég hef líka áhuga á að vita hvað þér finnst um skyndibita menningu okkar Íslendinga og í hvaða átt þú telur að hún sé að þróast ?

Mér finnst frábært hvað margir eru komnir í hollara mataræði, ótrúlega gaman að því hvað grænmetisfæðið er orðið fjölbreytt og skemmtilega útfært.  Það er ekkert leiðinlegt að borða vegan rétti í dag, almenningur er líka orðinn meira upplýstur um hvernig matur lætur fólki líða vel og sækir þar af leiðandi alltaf meira og meira í þannig mat. Hollusta og gæðahráefni mun verða ofan á í framtíðinni. Við búum við svo mikla upplýsingatækni svo það er lítið annað hægt en að taka upplýsta ákvörðun í framtíðinni, svo er líka töff að stunda heilbrigðan lífsstíl í dag.

Að lokum, hver er stefna ykkar varðandi upplýsingagjöf fyrir þá sem eru með fæðu ofnæmi og óþol ?

Við munum halda áfram að koma því sem best á framfæri til viðskiptavina okkar með fræðslu fyrir starfsfólkið okkar.