Fara í efni

Stefán Máni rithöfundur svarar nokkrum góðum spurningum

Allir íslendingar ættu að þekkja hann Stefán Mána. Hann hefur sent frá sér hverja snilldar bókina á fætur annarri og sumar er varla hægt að leggja frá sér fyrr en síðasta blaðsíðan hefur verið lesin og þá er ég að tala um í einni lotu.
Stefán Máni rithöfundur
Stefán Máni rithöfundur

Allir íslendingar ættu að þekkja hann Stefán Mána. Hann hefur sent frá sér hverja snilldar bókina á fætur annarri og sumar er varla hægt að leggja frá sér fyrr en síðasta blaðsíðan hefur verið lesin og þá er ég að tala um að bókin er lesin í einni lotu. 

Ég skellti á hann nokkrum spurningum og fékk ansi skemmtileg svör.

Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?

Vakna snemma, lýsi, morgunmatur, kaffi- vinna! Ég fæ mér hafragraut á veturna og yfirleitt weetabix með rúsínum og vatni á sumrin. 

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Já, t.d lýsi og ost.

Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?

Í sambandi við mat? Brauð, smjör og ólífuolía. Almennt? Tölvan, síminn og hlaupaskórnir. 

Hvað er það allra skemmtilegasta sem þú gerir?

Að skrifa er trúlega efst á blaði, líka að hjóla, hitta vini, fara í bíó og út að borða og ferðast. 

Hvaða bók er á náttborðinu núna?

Túlkur tregans eftir Jhumba Lahiri (mjög góð).

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?

Annan hvern dag, minnst helst þrisvar í viku. Þá hleyp ég ca 4,5 km með tveimur 100 m sprettum, svo teygjur, magaæfingar, armbeyfjur og upphífingar. Fyrir utan þetta þá hjóla ég mikið og syndi stundum. Venjulegur hjólahringur er 30 km, lengst 42 km. 

Finnst þér íslendingar almennt duglegir að hreyfa sig?

Ekki almennt nei. En almennt er gosþamb allt allt of mikið. Það er fáránlegt að kaupa drykki í landi sem býður upp á besta vatn í heimi. Fyrir utan óhollustuna. Við erum fangar neysluhyggu, ég meina það eru allir með 100 þúsund króna síma- hvaða rugl er það? 

Myndir þú fara á milli staða í Reykjavík á hjóli?

Myndi? Ég geri það.

Kaffi eða Te?

Bæði, takk! Kaffi á morgnana, svo skipti ég yfir í teið- Earl Grey í hádegi og kaffi jurtate á kvöldin.

Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?

Hættu að leika þér í símanum, hættu að hanga á netinu, hættu að eyða kvöldunum fyrir framan sjónvarpið - lífið er stutt!