Fara í efni

Fríða Rún Þórðardóttir næringarfræðingur í viðtali varðandi 24.stunda sundið

Hún Fríða Rún Þórðardóttir er næringarfræðingur að mennt. Hún lauk meistaraprófi frá The University of Georgia í Bandaríkjunum árið 1996 en þar var hún á íþróttaskólastyrk og keppti fyrir skólann í víðavangshlaupum og lengri hlaupum á árunum 1990 – 1994.
Fríða Rún næringarfræðingur
Fríða Rún næringarfræðingur

Hún Fríða Rún Þórðardóttir er næringarfræðingur að mennt. Hún lauk meistaraprófi frá The University of Georgia í Bandaríkjunum árið 1996 en þar var hún á íþróttaskólastyrk og keppti fyrir skólann í víðavangshlaupum og lengri hlaupum á árunum 1990 – 1994.

Hún tók oftsinnis þátt í bandaríska háskólameistaramótinu fyrir skólann auk þess að keppa án hlés með íslenska landsliðinu í frjálsíþróttum frá 1989 til 2010.

Fríða Rún er í hópi með bestu millivegalengda- og langhlaupurum á Íslandi frá upphafi en hún á 3. besta tímann í 5000m og 10.000m á braut, 4. besta í 3000m og 10 km götuhlaupi, 5. besta í 1500m, 12. besta í 800m og 13. besta í hálfu maraþoni. Hún á Íslandsmetið í 5000m hlaupi innanhúss og unglinga- og kvennamet í 2000m hlaupi utanhúss.

Undanfarin ár hefur Fríða Rún aðstoðað fjölmargt íþróttafólk og almenning í tengslum við störf sín við Landspítala, World Class, ÍSÍ og Heilsustöðina, bæði þá sem þurfa að bæta mataræði sitt og lífsstíl vegna sjúkdóma jafnt og þá sem vilja bæta heilsuna, líkamlegt form og íþróttaárangur.

Fríða Rún hefur ritað bókina Góð næring – betri árangur í íþróttum og heilsurækt og gefið út rit um næringu hlaupara í félagi við Steinar B. Aðalbjörnsson næringarfræðing auk þess að skrifa fjöldann allan af greinum og pistlum um næringu, heilsu og hreyfingu.

Hvaða ráðleggingar höfðuð þið Guðmundur að leiðarljósi þegar þið skipulögðuð mataræðið fyrir sundið og meðan á því stóð?

Í raun höfðum við ekki neinar beinar næringarráðleggingar sem við gátum miðað algerlega við en að leiðarljósi höfðum við nokkra punkta er snúa að almennri næringu og íþróttanæringu.

*Sundið stóð yfir í einn sólarhring sem þýddi að máltíðir urðu að vera með reglulegu millibili auk millibita og drykkja sem hann nærðist á. Við vildum tryggja sem mest af næringarefnum, vökva og trefjum á þessu tímabili.

*Maturinn þurfti að vera þægilegur og fljótlegur að borða þar sem Guðmundur hafði aðeins 5 mínútur á hverri klukkustund til að borða, spjalla og fara á snyrtinguna þegar þessi þurfti með. Til að mynda höfðum við hrísgrjónin og kúskús klesst saman til að auðveldara væri að borða það.

*Maturinn þurfti að vera bragðgóður, því helsta tilbreyting yfir þessar 24 stundir voru maturinn. Eitt sem við gerðum var að skera allar próteinstangirnar í bita, sem öllum var blandað saman í poka. Það var því spennandi fyrir Guðmund að bragða á bitunum og sjá hvað hann fengi í hvert sinn, stundum þrjú mismunandi brögð. Í áheitasundinu sjálfu vissi hann heldur ekki nákvæmlega hvað hann fengi að borða á hverjum klukkutíma þar sem hann skoðaði ekki „matseðilinn“ fyrir sundið né eldaði matinn sjálfur. Móðir hans sá alveg um þann hluta eftir forskrift frá mér. Fyrir æfingasundin vissi hann þó hvað hann væri með í nesti þar sem hann útbjó það sjálfur.

*Maturinn þurfti að vera eitthvað sem Guðmundur vissi að honum þætti gott og það var haft að leiðarljósi þegar við byrjuðum að prófa mismunandi fæðu í æfingasundunum okkar. Það sem var uppistaðan í máltíðunum voru próteinstangir, möndlur og íþróttadrykkir, kjúklingalæri (úrbeinuð), hrísgrjón eða kúskús með mismunandi bragði og sojasósa, samlokur úr normalbrauð með smjöri og smurosti eða smjöri og hnetusmjöri og var skorpan skorin af brauðinu. Flóknara var þetta nú ekki.

Við lögðum einnig mikla áherslu á að Guðmundur nærðist og drykki sérstaklega vel dagana fyrir og hann sá svo um að æfingarnar væru í léttari kantinum og alger hvíld síðustu dagana fyrir. Hann varð að fara vel nærður, vel hvíldur og „hungraður“ inn í sundið. Einnig lögðum við áherslu á að hann myndi draga úr öllu stressi og þvælingi dagana fyrir, hana átti ekki að hafa áhyggjur af kynningunni á viðburðinum eða að taka til matinn eða að sækja það sem til þurfti. Það var verk annarra.

Gátum ekki nýtt okkur það sem ráðlagt er fyrir önnur ofursund eins og Ermasundið, töldum að eingöngu kolventi og steinefni á fljótandi formi væri ekki það sem við vildum leggja af stað með. Enda eru allt aðrar aðstæður þegar hægt er að fara upp á þurrt land og nærast heldur en að vera að taka inn fljótandi næringu út á rúmsjó og mega ekki snerta bátinn eða annað.

*Næring að sundi loknu. Lögðum ekki mikið upp úr því að fyrsta næring væri heilsufæði út í gegn heldur það sem Guðmund langaði mest í og varð pizza ofan á. Hins vegar fór hollt mataræði sem fyrst í góðar skorður svo hann var fljótur að jafna sig, enda nýjar áskoranir framundan.

Gat Guðmundur alltaf klárað það sem hann átti að borða og drekka?

Lang flestar máltíðirnar náði hann að klára enda var hann hvattur til þess þó svo að lystin væri ekki alltaf upp á marga fiska. Oft langaði hann meira að drekka en að borða. Ef hann náði ekki að klára það sem hann þurfti að drekka á hverjum klukkutíma þá átti aðstoðarmaðurinn að gæta þess að á næsta klukkutíma myndi hann bæta því við sem upp á vantaði þannig að þá þurfti Guðmundur að drekka aðeins meira. Þetta var þó ekkert tiltökumál.

Hverjir gætu mögulega nýtt sér sambærilegt mataræði og það sem Guðmundur studdist við?

Það er ekki víst að allir séu sammála mér en ofurhlauparar gætu nýtt sér sumt af því sem við gerðum. Einnig þeir sem eru að hjóla eða ganga langar vegalengdir. Flest af þessu er hægt að borða á ferðinni eða tekur stutta sund að borða.

Heldur þú að það sé hættulegt að synda svona langt og lengi?

Nei það held ég ekki, að því gefnu að íþróttamaðurinn sé við góða líkamlega og andlega heilsu og sé búinn að þjálfa sig upp á skynsamlegan og faglegan máta. Einnig að hann sé með rétta næringu á bakkanum og í daglegu lífi, alveg frá upphafi undirbúnings þar til sundinu er lokið, reyndar einnig í kjölfar sundsins svo líkaminn nái að jafna sig fljótt og fullnægjandi eftir átökin.

Það var vel fylgst með Gumma meðan á sundinu stóð. Hann átti að gefa líðan sinni einkunn á bilinu 1-10 þar sem 10 var best. Hann átti að fylgjast með litnum á þvaginu og magni þess, fjöldi ferða á snyrtinguna var skráð, blóðþrýstingur og hjartsláttur var mælt reglubundið uppi á bakkanum auk þess sem klukkan sem Gummi synti með fylgdist með ýmsum breytum. Allt var skráð niður og er vel geymt.

Hvað réði því hvaða fæðubótarefni þið notuðuð og prófuðuð þið eitthvað fleira en það sem Gummi endaði á að nota.

Við prófuðum nærri alla íþróttadrykkina sem eru á markaðnum á Íslandi, gerðum það í löngu æfingasundunum í byrjun verkefnisins. Prófuðum tvær tegundir í hverju sundi og einnig eplasafa-vatnsblöndu sem Gummi blandaði sjálfur. Síðan var útilokunaraðferðin notuð og Gatorade varð fyrir valinu. Bæði líkaði honum sætleikinn, bragðið og áferðin á drykknum.

Við höfðum samband við Ölgerðina sem brást vel við og tók vel í að styrkja verkefnið. Það var mjög ánægjulegt.

Varðandi próteinstangirnar þá byrjuðum við á að nota eina tegund sem við Gummi þekktum bæði og líkaði vel en það fyrirtæki var ekki tilbúið að styrkja hann um vörur og þá ákváðum við að leita annað. Höfðum samband við Hreysti, sem var á sama tíma að styrkja annað verkefni sem Heilsutorg var þátttakandi í, og þeir tóku okkur opnum örmum og styrktu okkur um bæði Viper drykk og próteinstangir en þeir selja fjölbreytt úrval af úrvals próteinstöngum bæði með og án trefja. Það skiptir töluverðu máli að ná trefjunum inn til að stuðla að góðri meltingu en bæði geta prótein-fæðubótarefni leitt til hægðatregðu auk þess sem ekkert grænmeti var á boðstólnum.

Ástæðan fyrir því að við tókum grænmeti út var að það er orkusnautt á meðan það tekur upp pláss í maganum og tekur tíma að borða það og tyggja sem reyndar er hagstætt undir venjulegum kringumstæðum. 

Íþróttadrykkurinn Maxim var einnig notaður en góður vinur okkar Guðmundar, hann Benedikt Hjartarson ofursundkappi sem synt hefur yfir Ermasundið, kom og færði Guðmundi Maxim duft sem flestir nota í Ermasundinu. Við notuðum Maxim í bland við aðra drykki og næringu undir lokinn.

Hvað sérð þú fyrir þér varðandi annað sambærilegt afrek ef einhver vildi reyna að bæta um betur?

Góð hugmynd er að setja upp boðsund þar sem tíu Íslendingar og tíu Danir myndu etja kappi í boðsundi og safna fyrir gott málefni í sínu landi.

Er enn hægt að styrkja málefnið?

Já það er enn hægt að styrkja málefnið með því að leggja inn á söfnunarreikninginn 515-14-409141 kt: 501209-1040 Líf Styrktarfélag.

Líf stendur svo fyrir nýju verkefni en það er 10 km hlaup sem fram fer 14. september nk. og verður nánar auglýst meðal annars á Heilsutorg.is