Fara í efni

Fjölnir Geir Húðflúrmeistari tekinn á teppið

Hvað ætli það séu margir einstaklingar með flúr eftir hann Fjölni?
Meistarinn sjálfur, Fjölnir Geir
Meistarinn sjálfur, Fjölnir Geir

Hvað ætli það séu margir einstaklingar með flúr eftir hann Fjölni?

Ég er með þrjú sjálf. Hann er afar flinkur listamaður þegar kemur að því að beita flúr-byssunni.

"Þessa dagana er ég að njóta þess að eiga lítinn pabbalabbakút, huga að jólaundirbúningi og svo er það þetta daglega; tattoo, teikningar og allir mannlegu þættirnir sem að því snýr" sagði Fjölnir.

Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?

Ég fer á fætur um 7 leytið, helli upp á kaffi og dríf mig svo í daglegan göngutúr með tíkina okkar hana Kisu. Einn af fjölmörgum kostum við að búa í Hlíðunum er nálægð Öskjuhlíðarinnar. Öskjuhlíðarinnar sem hún Kisa okkar elskar af öllu hjarta.

Þegar heim er komið er það síðan árbíturinn sem samanstendur af; Kaffi með rjómalögg, 2-3 spæld egg, 1 tómatur og nokkur spínat blöð.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Ískápurinn minn er alltaf fullur. Matur er mannsins meginn og ég er mikið matargat. Matargat sem nýtur þess fram í fingurgóma að hún Kristín Lilja konan mín elskar að elda. Jafnvel meira en ég. En ég lærði ungur að viljirðu eta vel skaltu gjöra svo vel að elda vel.

Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?

Hárteygjur, tattoobyssur og blýantar koma strax upp í hugann.

Hvernig leggst skammdegið í þig?

Mjög vel. Maður getur ekki notið íslenska sumarsins til fulls nema maður kunni af fenginni reynslu, á eigið ískalda skinn, að þreyja þorrann. Og ég hlakka alltaf til 21. desember því þá renna upp hin eiginlegu Jól, Hjól, Sól okkar norrænna manna og daginn tekur að lengja á ný.  Dag frá degi rís sólin  hærra og hærra og hið stórfenglega íslenska vor er von bráðar mætt til leiks til að kynna inn íslenzka sumarið. Sem er engu líkt.

Hvort velur þú Bók eða bíómynd til að slaka á ? 

Bíómynd. Ég á 9 mánaða gutta, hann Fenri Flóka, sem þarf sitt pabbafang. Ég svæfi hann í fanginu á hverju kvöldi og kem því um leið ekki við að fara með bók í rúmið.

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?

Ég viðra tíkina Kisu á hverjum morgni, klukkutíma labbitúr um holt og móa og svo mæti ég eftir kostum í WC Laugar... og ekki má gleyma sundinu og þeim einstaka lúxus sem við búum við hérna á landi íss og elda; Heitu Pottunum. (Sem ég elska!)

Áttu uppáhalds stað á Íslandi ?

Þeir eru fjölmargir en Snæfellsnesið með öllum sínum mikilfengleik er ofarlega á blaði. Ég á líka rætur að rekja þangað í föðurætt og ekki má gleyma að tengdafjölskyldan býr á Stykkishólmi. Þar sem útsýnið er 360 gráðu ægifagurt "póstkort". 

Svo eigum við Kristín land upp við Meðalfellsvatn sem Ásgeir, afi Kristínar gaf henni. Þriggja hektara land sem Ásgeir langafi gaf Ásgeir afa og hann og amma Lillý eru búin að rækta upp í 30 ár. Langafinn kallaði landið El Pardiso sem segir allt um þennan paradísar lund þar sem til stendur að reisa heilsársbústað þar sem við getum líka haft hestana.

Myndir þú fara á milli staða í Reykjavík á hjóli ?

Ég geri það endrum og sinnum, ef viðrar til þess. Ég á forláta Porsche reiðhjól og svo var ég að fá rosalegt chopper reiðhjól sem ég hlakka til að spóka mig á næsta sumar. En eins og ég segi; ef viðrar til þess en síðasta sumar var ekkert til að hrópa húrra fyrir hérna á suðvestur horninu. 

Sama á við um Hallana mína. Það er ekkert gaman að bruna um á mótorhjóli í grenjandi rigningu og norðan garra.

Kaffi eða Te ?

Iðulega Kaffi þó te með hunangi og sítrónu sé ljúfur drykkur.

Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?

Það er eitt sem árin hafa kennt mér og það er að; Jákvætt hugarfar fleytir manni alla leið.