Karlmenn sem eru þjakaðir af ristruflunum eru 70% líklegri til þess að deyja ungir að því er fram kemur í nýrri bandarískri rannsókn. Samkvæmt þessu getur ástandið á getnaðarlimnum gefið sterkar vísbendingar um lífslíkur karlmanna.
Bandarískir vísindamenn telja að ristruflanirnar megi rekja til lélegs ástands hjartans og æðakerfisins og hvetja þá sem eiga erfitt með að halda fullri reisn til þess að láta rannsaka sig með tilliti til sjúkdóma sem gætu orðið þeim að aldurtila.
Við rannsóknina var farið yfir gögn um 1790 karlmenn á aldrinum 20-85 ára á sjö ára tímabili. 557 þeirra sem rannsóknin náði til höfðu glímt við ristruflanir. Niðurstaðan sýndi að þeir sem áttu í þessum erfiðleikum væru 70% líklegri til þess að deyja ungir en þeir sem náðu honum beinstífum.
244 þátttakendur létust á þessu sjö ára tímabili þar af 61 af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, illkynja æxli dróu 64 til dauða og krónískir öndunarfærasjúkdómar drápu tólf manns.
Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni fyrir alla karla sem eru þjakaðir af getuleysi en þeir munu vera 30 milljón í Bandaríkjunum einum saman. Þá er bent á að 20% karlmanna yngri en 40 ára eiga við þetta vandamál að etja sem grefur undan kenningum um að getuleysi hrjái eldri karlmenn sérstaklega.