Fara í efni

Hátíðarnar, tími til að njóta og upplifa

Við megum ekki gleyma að njóta og upplifa veitinga og stemmingarinnar yfir hátíðarnar.
Matarkræsingar
Matarkræsingar

Við megum ekki gleyma að njóta og upplifa veitinga og stemmingarinnar yfir hátíðarnar.

Hátíðardagarnir, tilvaldir til samveru

Tíminn er oft naumur þegar líður nær jólum og áramótum, og þá er oft skorið af tímanum sem annars er notaður til að hreyfa sig. Það er því tilvalið að bæta þetta upp yfir hátíðardagana og það er ótalmargt sem hægt er að gera til að hreyfa sig saman.

Það sem hins vegar verður fyrir valinu hjá hverri fjölskyldu eða hópi byggir þó oft á því hvað er í nágrenninu og aldri og áhugasviði. Einfaldast er að fara út að ganga, jafnvel að fara niður að tjörn og ganga hringinn í kringum tjörnina og skoða fuglalífið í leiðinni. Einnig er tilvaið að heimsækja Laugardalinn og það sem hann býður upp á. Elliðaárdalurinn og Öskjuhlíðin eru einnig góð göngusvæði og þar er oftast gott skjól. Fjöldi gönguleiða er í boði víðsvegar um landið og skemmtilegt er að hópa sig saman og stunda útiveru í góðum félagsskap. Þeim sem ekki finnst nóg að fara bara út að ganga kjósa að ganga brekkur og fara í fjallgöngu ef að veður og aðstæður leyfa.

Ef að það er skíðafæri þá er hægt að fara á skíði eða gönguskíði og einnig mætti prófa að fara á skauta þegar opið er þar. Sundlaugarnar eru oftast opnar eitthvað fram eftir yfir hátíðardagana og er það góð samvera fjölskyldunnar. Fjölskyldan er ekki aðeins sú fjölskylda sem býr undir sama þaki og háðarnar eru sá tími sem stórfjölskyldan kemur gjarnan saman. Það er fátt því til fyrirstöðu að mæta með útifatnað og taka góða göngu fyrir matinn eða kaffiboðið og senda börnin út að leika til að fá útrás fyrir alla orkuna sem býr í kroppnum eftir allar veitingarnar. Einnig má hafa í huga að það er hægt að ganga í og úr jólaboðinu sé það ekki allt of langt í burtu

Út að hlaupa

Langflestir hlaupahópar halda úti æfingum yfir hátíðarnar og því gott að þeir fjölmörgu sem hreyfa sig með slíkum hópum kynni sér æfingatímana og mæta sér til gagns og ánægju.

Það er tilvalið að taka þátt í almenningshlaupi sem eru á dagskrá yfir hátíðardagana en fjölmörg hlaup eru hlaupin á Gamlársdag til að mynda Gamlárshlaup ÍR sem á sér afar langa sögu. Allar upplýsingar um skipulögð hlaup og hlaupakeppnir má finna á www.hlaup.is.

Á persónulegu nótunum

Ég hleyp sjálf alltaf töluvert yfir hátíðardagana, fyrir útivinnandi og hlaupandi mæður eru þessi dagar ákaflega dýrmætir. Einnig fer ég eitthvað með dóttur mína í vagninum, gangandi eða hlaupandi, ef veður og færð leyfa, Laugardalur og heimsókn til kanínanna í Elliðaárdalnum eru vinsælustu staðirnir.

Áramótaheitin stór og smá

Margir strengja áramótaheit og ætla sér að hreyfa sig mikið í upphafi árs. Það er oft ekki til góðs að fara of skart af stað. Það er jafnvel betra að byrja fyrr í desember og skipuleggja jólin með það í huga þannig að fyrstu skrefin verði ekki of þung á nýju ári. Einnig er æskilegt að nota frítímann yfir hátíðarnar til að koma sér af stað enda erum við hvött til þess til dæmis með því að heilsuræktarstöðvar og sundlaugar eru opnar yfir hátíðardagana. Ég myndi segja að staðan væri sú núna að æ fleiri hafa gert hreyfingu og hollara mataræði að hluta af heilbrigðum lífsháttum í staðinn fyrir að leggja af stað í enn einn kúrinn eða átaksverkefnið um áramótin. Það er breyting sem orðið hefur síðastliðin ár. Fyrir marga hentar vel að nota áramót sem nokkurs konar upphaf að bæði nýju ári oft nýju og betra ári. Mögulega vinna einhverjir áfram með sín markmið sem þeir settu og fylgdu eftir í meistaramánuðnum og er það frábært.

Njótum og hvílum okkur svolítið

Þrátt fyrir þessar vangaveltur hér þá er mikilvægt að muna að hátíðardagarnir eru örfáir yfir árið og um að gera að njóta þeirra sem mest og best saman sem fjölskylda. Með hæfilegri hreyfingu ættu flestir að geta leyft sér að borða hátíðarmatinn án þess að hlaða utan á sig kílóunum. Munum að njóta eins og við best getum.

Nokkur atriði varðandi mat og næringu

Einna mikilvægast er að gleyma ekki hollustunni yfir hátíðarnar, ekki það að þessi góði matur geti ekki líka verið hollur og næringarríkur, samhliða því að vera bragðgóður. Það er hins vegar æskilegt að borða fljótlega eftir að farið er á fætur, hafa grænmeti með matnum og ávexti á milli mála svo fá dæmi séu tekin. Næg vatnsdrykkja er einnig gríðarlega mikilvæg, það er alls ekki æskilegt eða nóg að drekka aðallega malt , gos og kaffi.

Morgunverðurinn, þó að hann verði kannski oft síðbúinn á hátíðardögum og kallast þá oft „bröns“ er hann mikilvæg undirstaða og gefur gott veganesti inn í daginn, það á ekki síður við yfir hátíðarnar. Trefjaríkur morgunverður gefur góða mettunartilfinningu sem dregur úr ofáti í næstu máltíð – og jafnvel máltíðum. Það eitt ætti að vera hjálpleg leið til að borða hófsamar yfir hátíðarnar.

Það að hafa grænmeti með matnum hjálpar til við að halda magninu af þungu kjöti og sósu innan hóflegri marka. Grænmeti er líka hollt og næringarríkt sem er mikilvægt allan ársins hring. Auk þessa tekur það smá tíma að tyggja grænmetið en það hægir á hraðanum í máltíðinni sem er gott fyrir þá sem borða hratt og gleypa í sig matinn.

Ávextir á milli mála og sem eftirréttur eru góð leið til að tryggja sum vítamín og steinefni til dæmis C-vítamín og kalíum, til að halda blóðsykrinum í betra jafnvægi og forðast  þannig að of langt líði á milli mála sem leitt getur til ofáts. Ávextir, jafnvel þurrkaðir ávextir, sem komið geta í staðinn fyrir sælgæti, eða amk. hluta þess, eru af hinu góða. Útbúa má ávaxtasalat úr  berjum og frosnum og ferskum ávöxtum og hafa sem eftirrétt. Ef það það eitt og sér er ekki alveg nógu spennandi yfir hátíðarnar þá er tilvalið að hafa smá ís eða jógúrt ís með. Góð leið til að innbirgða ávexti og ber er að blanda því saman við skyr og gera svokallað „boozt“, fjöldi tillagna af slíkum drykkjum er að finna á uppskriftasíðu Heilsutorgs.com.

Ósjaldan leitar fjöldi einstaklinga með undirliggjandi vandamál tengd hjarta og æðakerfi á bráðamóttöku Landspítalan vegna verkja og bjúgsöfnunar sem oft má rekja beint til ofneyslu á mikið söltuðum mat.  Þetta eru einkenni sem oft hefði mátt sporna gegn með hóflegri neyslu á söltum mat eða hreinlega með því að drekka meira vatn !

Það er betra að vera vitur eftir á og læra þannig af reynslunni, enginn vill heldur valda líkama sínum skaða. Nægur vökvi, helst hreina kranavatnið okkar, er því mikilvægasta næringarefnið, enn og aftur. Það er eðlilegt fyrir fullorðna manneskju að þurfa um 1,5 – 2,5 l af vökva yfir daginn, stærstur hluti þess ætti að vera vatn en hluti getur komið annarsstaðar frá , t.d. eitt glas af fitusnauðri mjólk og hreinum ávaxtasafa.

Fríða Rún Þórðardóttir,
Næringarfræðingur. Næringarráðgjafi og íþróttanæringarfræðingur