Fara í efni

Harmi sleginn slegill?

Getur hjartað brostið af sorg? Þessa spurningu fékk ég ekki alls fyrir löngu. Tilefni spurningarinnar man ég ekki lengur, en vafalítið hafði einhver veikst í kjölfarið á alvarlegu andlegu áfalli. Svarið við spurningunni er já, en krefst þó nánari skýringar.
Harmi sleginn slegill?

Getur hjartað brostið af sorg?

Þessa spurningu fékk ég ekki alls fyrir löngu. Tilefni spurningarinnar man ég ekki lengur, en vafalítið hafði einhver veikst í kjölfarið á alvarlegu andlegu áfalli.

Svarið við spurningunni er já, en krefst þó nánari skýringar.

Frá faraldsfræðilegum rannsóknum er vitað að streita í kjölfarið á stórum neikvæðum atburðum í lífi fólks, t.d. atvinnumissi, fráfalli maka, veikinda manns nánustu eykur líkurnar á að fá hjarta- eða heilaáfall á næstu misserum. Einnig hefur verið sýnt fram á að þeir einstaklingar sem upplifa streitu eru í meiri áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum samanborið við þá einstaklinga sem ekki upplifa streitu. Þegar við erum að tala um fyrirbærið  „brostið hjarta“ (e. Broken Heart Syndrome) erum við þó að tala um bráða og oft svæsna hjartabilun, frekar en bráða kransæðastíflu með hjartadrepi.

Það var nefnilega fyrst 1990 í Japan sem menn lýstu sjúkdómi sem stundum hefur verið kallaður  „Broken Heart Syndrome“ af þeirri ástæðu að menn töldu sjúkdóminn oftast koma í kjölfarið á skyndilegu andlegu áfalli eins og við fráfall maka, náttúruhamfarir eða eitthvað sambærilegt. Nú er raunar vitað að einnig góðar fréttir, til dæmis það að hljóta stóra lottóvinninginn, mikið líkamlegt álag eða jafnvel krefjandi lyfjameðferð getur komið þessu af stað.

Eins sést þetta alloft í tengslum við önnur alvarleg veikindi, eins og til dæmis hjá einstaklingum með höfuðáverka eða heilablæðingar. Japönsku læknarnir nefndu þetta fyrirbæri  „Takotsubo“ eftir gildrunni sem Japanir veiða kolkrabba í, en hún er einhvers konar sekkur. Hjartað verður nefnilega oft eins og poki í laginu þegar þetta gerist því hjartabroddurinn dregst illa eða ekki saman (blæs út) og efri hluti hjartahólfsins (vi. slegils) dregst mjög mikið saman. Þá verður hjartað næstum eins og uppblásin blaðra og hefur sjúkdómurinn líka verið kallaður „broddþensluheilkenni“ á íslensku.

Í nýlegri umfjöllun í Speglinum á Rás 2 var stungið upp á því að þetta fyrirbæri yrði kallað  „harmslegill“ með vísan í að þetta gerist oft í tengslum við mikla sorg og að það er vinstri slegill hjartans sem verður fyrir þessu. Má vel vera að sú nafngift eigi eftir að festast í sessi.  

Meirihluti þeirra sem greinast með broddþensluheilkenni eru miðaldra eða eldri konur, þótt sjúkdómurinn sé vissulega þekktur hjá öðrum hópum. Af hverju þetta virðist hlutfallslega algengast hjá eldri konum er ekki vitað.

Þeim einkennum sem sjúklingarnir fá svipar á margan hátt til einkenna við bráða kransæðastíflu; sár eða þungur verkur fyrir brjósti, hjartsláttartruflanir en nokkuð skyndileg mæði eða andþyngsli eru mjög áberandi. Í vissum tilfellum getur hjartalínuritið bent til kransæðastíflu, en kransæðamyndataka hjá sjúklingum með broddþensluheilkenni leiðir hins vegar í ljós að kransæðarnar eru allar opnar, sem ekki er tilfellið við kransæðastífluna. Hér er því miklu frekar um skyndilega hjartabilun að ræða. Talið er að 1-2% þeirra sem eru grunaðir um bráða kransæðastíflu séu með broddþensluheilkenni en ekki hjartadrep.

Það er ekki almennilega ljóst hvað veldur þessari skyndilegu hjartabilun. Vísindamenn eru þó sammála um að stresshormón eigi hér stóran hlut að máli. Svo virðist sem hluti hjartavöðvans bregðist við skyndilegri ofgnótt stresshormóna með því að hreinlega lamast. Þetta veldur því að hjartað pumpar ekki sem skyldi, sjúklingurinn verður móður, fær jafnvel vatn í lungun og alvarlegar hjartsláttartruflanir.

Til að greina broddþensluheilkenni er nauðsynlegt mynda kransæðarnar og útiloka að þær séu stíflaðar, en grunurinn vaknar oftast vegna sérkennilegs útlits hjartans við ómskoðun (sónar). Í sumum tilfellum velja menn einnig að gera segulómun af hjartanu, en slík rannsókn getur greint á milli broddþensluheilkennis  og t.d. bólgusjúkdóms eða örmyndunar í hjartavöðvanum af öðrum orsökum. Ekki er til nein sérhæfð meðferð við broddþensluheilkenni, en mikilvægt er að fylgjast vel með sjúklingunum og beita viðeigandi hjartabilunarmeðferð.

Flestir sjúklinganna jafna sig fljótt, í vægustu tilfellunum jafnvel á nokkrum dögum. Í alvarlegri tilfellum er hjartabilunin þó langvinnari og það geta jafnvel komið upp fylgikvillar eins og heilaslag og alvarlegar hjartsláttartruflanir hjá þeim eru veikastir. Lítill hluti þeirra sem hafa fengið broddþensluheilkenni veikist aftur síðar á lífsleiðinni, en enn sem komið er er ekki til nein ákveðin fyrirbyggjandi meðferð við sjúkdómnum.

Það má því segja að það séu ákveðin sannmæli að hjartað geti brostið úr sorg, eða að maður verði hreinlega harmi slegin.  

Höfundur greinar: 

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir er formaður GoRed Ísland.

Þórdís segir áföll og sorg geta leitt til broddþensluheilkennis, eða harmslegils. Sama getur gerst við óvæntar eða góðar fréttir og líkamlegt álag.