Fara í efni

Vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja

Vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja

Hin alþjóðlega vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja hófst mánudaginn 13.nóvember og stendur yfir til föstudagsins 19. nóvember.

Ónæmi gegn sýklalyfjum er að aukast út um allan heim sem getur leitt til vandamála þegar kemur að því að meðhöndla algengar sýkingar. Erfitt getur reynst að meðhöndla sýkingar í mönnum og dýrum ef að dregur úr virkni sýklalyfja. Notkun sýklalyfja er nátengd þróun ónæmis gegn sýklalyfjum.

Röng notkun og ofnotkun á sýklalyfjum eykur hættu á myndun ónæmis gegn sýklalyfjum. Ofnotkun getur stafað af of mikilli ávísun sýklalyfja meðal lækna og dýralækna og aðgengi almennings að sýklalyfjum án lyfseðils, svo dæmi séu nefnd. Notkun sýklalyfja til meðhöndlunar á veirusýkingum og notkun sýklalyfja sem vaxtarhvetjandi efni fyrir búfé eru dæmi um ranga notkun sýklalyfja. Skýrslur Landlæknis ogLyfjastofnunar Evrópu, sem komu báðar nýverið út, um sölu sýklalyfja handa dýrum sýna fram á það að á Íslandi er sala sýklalyfja handa dýrum með minnsta móti í Evrópu og fer lækkandi. Hérlendis er sala sýklalyfja handa dýrum sem eru þröngvirk, beta-laktamasanæm penicillin, algeng sem er jákvætt, þar sem notkun þröngvirkra sýklalyfja takmarkar myndun á sýklalyfjaónæmi.

OIE, WHO og FAO hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi undir yfirskriftinni „One Health“. Herferðinni er ætlað að stuðla að betri starfsháttum til að draga úr aukningu og útbreiðslu á ónæmi gegn sýklalyfjum bæði hjá mönnum og dýrum. Á meðan á vitundarvikunni stendur munu OIE, WHO og FAO einbeita sér á samfélagsmiðlum sínum að því að auka vitund almennings, heilbrigðisstarfsfólks, yfirvalda, bænda, dýralækna, matvæla- og fóðuriðnaðarins og annarra ásamt því að benda á leiðir til að vinna gegn sýklalyfjaónæmi. Þetta árið verður áhersla lögð á mikilvægi þess að fólk fái upplýsingar og leiðbeiningar frá dýralæknum, læknum og  öðru heilbrigðisstarfsfólki áður en sýklalyf eru notuð til að tryggja rétta notkun og viðeigandi meðhöndlun við sjúkdómum.

Á upplýsingarsíðu OIE um vitundarvikuna er m.a. hægt að finna fróðlega einblöðunga og stutt og hnitmiðuð myndbönd um hvaða skref hægt er að taka í átt að skynsamlegri notkun sýklalyfja.

 

 

Ítarefni: