Fara í efni

Ný íslensk rannsókn: Ekki nota plastflöskur utan af gosi oftar en einu sinni

Leysiefni, litarefni, blek, fenól,asetamíð, sveppa- og bakteríudrepandi efni og mýkingarefnið bensamíð. Þetta eru efni sem geta leynst í drykk sem geymdur er í gosdrykkjaflösku úr plasti en efnin úr plastflöskunni sjálfri geta smitast út í drykkinn.
Ný íslensk rannsókn: Ekki nota plastflöskur utan af gosi oftar en einu sinni

Leysiefni, litarefni, blek, fenól,asetamíð, sveppa- og bakteríudrepandi efni og mýkingarefnið bensamíð.

Þetta eru efni sem geta leynst í drykk sem geymdur er í gosdrykkjaflösku úr plasti en efnin úr plastflöskunni sjálfri geta smitast út í drykkinn.

Þetta kemur fram í MS-rannsókn Erlu Ránar Jóhannsdóttur í matvælafræði við Háskóla Íslands, en greint er frá rannsókninni í Morgunblaðinu í dag.

Erla segir að ekki sé gert ráð fyrir því að plastflöskur utan af gosdrykkjum séu notaðar oftar en einu sinni, en smithættan eigi við aðrar gerðir af flöskum úr plasti. Við rannsóknina sjálfa keypti Erla 16 plastbrúsa og flöskur og setti þá í lausn sem samanstóð af kranavatni og metanól, sem er með sambærilegt sýrustig og íþróttadrykkur.

Þegar liðinn var sólarhringur þá fannst leysiefni, litarefni, blek, fenól,asetamíð, sveppa- og bakteríudrepandi efni og mýkingarefnið bensamíð í lausninni, en það er mismunandi eftir brúsum og flöskum eftir því hversu mörg efni og magn var að finna í lausninni.

Erla segir að efnin úr gosdrykkjaflöskum, svokallaðar PET-flöskur, geti haft hormónatruflandi áhrif á líkamann og aukið hættuna á ýmsum sjúkdómum. Hún segir Íslendinga ekki nógu meðvitaða um hættuna:

Það er lítil umræða hér á Íslandi um plastumbúðir og það þyrfti að vekja athygli á þessu. Við erum öll meira eða minna að nota plastumbúðir og drekka úr brúsum daglega,

sagði Erla við Morgunblaðið. Aðspurð um hvaða brúsa sé best að nota mælti hún með stálbrúsum, en harðir brúsar með glæru plasti gefa frá sér fæst efni.

Frétt af vef pressan.is