Fara í efni

Mislingar - ýtarleg umfjöllun ásamt tenglum er varða bólusetningar

Hvað eru mislingar?
Mislingar - ýtarleg umfjöllun ásamt tenglum er varða bólusetningar

Ástæða þessara birtingar okkar er varðar mislinga er vegna þess að óbólusett barn smitaði karlmann á fimmtudugs aldri í flugvél á leiðinni til Bretlands á dögunum. 

Neðar í þessum umfjöllunum má finna linka er varða bólusetningar.

Hvað eru mislingar?

Mislingar er einhver mest smitandi veirusjúkdómur sem til er. Hann á upptök sín í veiru sem nefnist morbilli. Mislingar er óþægilegasti barnasjúkdómurinn og sá hættulegasti af þeim sem hafa útbrot í för með sér. Hættan stafar af fylgikvillum sem mislingar geta valdið. Mislingar eru í raun ekki til lengur hér á landi vegna bólusetningar gegn þeim hjá ungbörnum í allmörg ár.

Hvernig berst mislingasmit?

Það berst með úðasmiti í lofti. Jafnvel þótt sá smitaði sé hafður í einangrun getur smit borist milli herbergja. Allir sem ekki hafa áður fengið mislinga eiga á hættu að smitast.
Ungabörn á brjósti eiga þó ekki á hættu að smitast því þau njóta verndar efna sem þau fá með móðurmjólkinni, hafi móðirin fengið mislinga.

Sá sem fær mislinga getur smitað aðra átta dögum eftir að hann smitast og áður en veikin brýst út. Hann getur smitað þangað til útbrotin hverfa eða í það minnsta fimm daga eftir að þau hefjast. Dauðir hlutir eða fólk, sem ekki er móttækilegt fyrir smiti getur ekki borið mislingasmit.

Hver eru einkennin?

Meðgöngutími mislinga – tíminn frá því einstaklingur smitast og þar til
hann veikist – getur verið mislangur en algengt er að hann sé ein til tvær vikur.

Eftir tæpar tvær vikur birtast fyrstu einkennin sem eru:

Hiti, hækkar upp í ca 39°C
Nefrennsli
Hósti
Roði í augum
Viðkvæmni fyrir ljósi
Stór og aum þykkildi á hálsi eru algeng, svo og eymsli í koki
Einnig geta myndast gráir blettir á stærð við sandkorn í slímhimnu á
innanverðum neðri vörum gegnt augntönnum, svonefndar mislingadröfnur, sem eru undanfari útbrotanna sem á eftir fylgja.

Eftir þrjá til fjóra daga er ekki ólíklegt að hitinn lækki um stund en hann hækkar þó fljótlega aftur og þá koma útbrotin fram:
Viku síðar er barnið orðið hitalaust á ný.

Ráðlegt er að halda börnum heima og ekki senda þau í skóla fyrr en þau eru orðin hitalaus. Mislingar valda ónæmi, sem stendur ævina á enda.
Nú orðið stendur börnum til boða fjölónæmisbólusetning við átján mánaða og níu ára aldur, en í henni er meðal annars bóluefni gegn mislingum.

Batahorfur

Verði barnið veikara eða ef hitinn helst hár er rétt að kalla sem fyrst á
lækni. Mikilvægt er að tryggja að mislingarnir leiði ekki til fylgikvilla á
borð við:
Lungnabólgu
Eyrnabólgu í miðeyra
Sýkingu í taugakerfi sem er til allrar hamingju sjaldgæf og telst til
undantekninga.

Konur sem hyggja á barneignir ættu að ganga úr skugga um hvort þær hafi fengið mislinga. Mislingar á meðgöngu geta valdið fóstursýkingu og jafnvel fósturláti þegar verst lætur. Séu konur í vafa geta þær leitað læknis og látið bólusetja sig en það má ekki gera eftir að kona er orðin þunguð.

Hvernig eru mislingar meðhöndlaðir?

Best er að barnið sé rúmliggjandi í svölu herbergi þar sem lýsing er
hófleg. Eingöngu má gefa hóstamixtúru eða hitastillandi lyf samkvæmt
læknisráði.

Grein af vef doktor.is

Og hér fyrir neðan má lesa fróðleik um mislinga af vef landlæknis.

 

Mislingar (Morbilli, measles)

Mislingar (Morbilli, measles)
Mislingar er veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Hann getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.

Faraldsfræði
Mislingar var algengur sjúkdómur á meðal barna hér á árum áður. En eftir að farið var að bólusetja gegn honum hefur dregið mjög úr algengi hans í hinum vestræna heimi. Öllu jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.
Mislingafaraldur kom upp í Evrópu á árinu 2011 og 2012 og greindust um 30 þúsund einstaklingar með mislinga hvort árið. Flestir þeirra sem veiktust voru í Frakklandi, Ítalíu, Rúmeníu, Spáni og á Bretlandseyjum og voru óbólusettir. Margir þeirra sem sýktust dóu og aðrir hlutu alvarlega fylgikvilla.

Smitleiðir og meðgöngutími
Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið.

Einkenni sjúkdómsins
Einkenni mislinga koma fram um 10-12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.
Mislingaveiran getur verið hættuleg og jafnvel valdið dauða. Alvarlegir sjúkdómar eins og eyrna- eða lungnabólga, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og einnig heilabólga geta verið afleiðing mislinga.
Alvarlegar heilaskemmdir af völdum mislinga geta einnig komið fram mörgum mánuðum eftir sýkinguna.

Greining
Einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum, rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða.

Meðferð
Sýklalyf gagnast lítið gegn mislingum þó getur verið nauðsynlegt að meðhöndla sýkingar sem eru afleiðingar af sjálfum sjúkdómnum með sýklalyfjum. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu. Hitalækkandi lyf geta hjálpað sjúklingnum að líða betur.

Forvarnir
Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu.

Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mislingum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Tölfræðilegar upplýsingar um Mislinga

Á að skylda börn í almennar bólusetningar á Íslandi?

Bólusetningar vegna mislinga

Eru bólusetningar hættulegar?