Fara í efni

Lækningin við krabbameini gæti leynst í malaríu

Danskir vísindamenn gætu fyrir slysni hafa fundið lækningu við krabbameini og hún leynist í malaríu. Tilraunir þeirra á músum benda til þess að eyða megi krabbameinsfrumum með því að láta malaríu-prótein grafa sig inn í þær.
Malaríu-prótein drepa krabbamein í músum.
Malaríu-prótein drepa krabbamein í músum.

Danskir vísindamenn gætu fyrir slysni hafa fundið lækningu við krabbameini og hún leynist í malaríu. Tilraunir þeirra á músum benda til þess að eyða megi krabbameinsfrumum með því að láta malaríu-prótein grafa sig inn í þær. Þetta virðist virka á 90% krabbameinstegunda.

Danirnir komust að þessu fyrir tilviljun þegar þeir voru að leita leiða til þess að verja óléttar konur gegn malaríu en malaría getur reynst þeim sérstaklega hættuleg þar sem malaríu-prótein ráðast á fylgjuna. Og það gera þau einnig þegar krabbameinsfrumur eru annars vegar.

Fylgjan á ýmislegt sameiginlegt með krabbameinsfrumum, til dæmis að bæði hreiðra um sig í líkamanum og vaxa þar og dafna. Tilraunir með malaríu-próteinin hafa gefist vel í músum og vonir standa til um að tilraunir á fólki geti hafist á næstu fjórum árum.

Stóra spurningin er hvort þetta virki eins í mannslíkamanum og hvort fólk þoli þá skammtastærð sem þarf án aukaverkana. Vísindamennirnir eru þó vongóðir þar sem próteinið virðist aðeins hengja sig á kolvetni sem finnst einungis í fylgjunni og krabbameinsæxlum í mannfólki.

Þremur tegundum af krabbameini, sem herjar á mannslíkamann, var komið fyrir í tilraunadýrunum. Tvær af sex músum losnuðu alfarið við ristilskrabba og fimm af sex músum losnuðu við beinkrabba, ólíkt samanburðarhópnum þar sem allar mýsnar drápust.