Fara í efni

Götusmiðjan hættir að segja NEI í dag 1.apríl

Götusmiðjan hóf starfsemi sína aftur í byrjun október 2014. Mikil umræða hafði þá verið í þjóðfélaginu um úrræðarleysi í málefnum barna í vímuefnaneyslu og var töluvert verið að hafa samband við Mumma sem hefur starfað í þessum málaflokki í 20 ár
Götusmiðjan ætlar að opna dyrnar i dag.
Götusmiðjan ætlar að opna dyrnar i dag.

Götusmiðjan hóf starfsemi sína aftur í byrjun október 2014.

 
Mikil umræða hafði þá verið í þjóðfélaginu um úrræðarleysi í málefnum barna í vímuefnaneyslu og var töluvert verið að hafa samband við Mumma sem hefur starfað í þessum málaflokki í 20 ár.

Það varð úr að Mummi og konan hans Eva ákváðu að stíga fram og leggja sitt á vogaskálar til að hjálpa til í samfélaginu í þessum efnum. Götusmiðjan varð endurreist. Hugmyndin í byrjun var að fara hægt af stað með stofnun þjónustumiðstöðvar og opnun neyðarsíma. Fljótlega leituðu til okkar ungmenni af götunni sem leituðu eftir næturathvarfi. Yfir tveggja vikna tímabil fólst starfsemin í því að taka á móti og hýsa þessa krakka og á þessu tímabili voru 30 gistinætur í húsnæðinu sem var í raun vanbúið að taka við þessum hóp. 

Því var ákveðið að loka og fara beint af stað í uppsetningu á athvarfinu fyrir þessi ungmenni sem voru að leita til okkar. Sá hópur var að stærstum hluta á aldrinum 18 og 19 ára með langa erfiðleikasögu að baki. Því ákváðum við að einbeita okkur að opna athvarf fyrir ungmenni 18+. Götuskjól mun starfa í anda Konukots og ekki vísa neinum ungmennum frá sem eru á götunni, komi þau yngri munum við hafa samband við barnavernd/lögreglu og uppfylla tilkynningaskyldu. 
Við höfum nú með aðstoð Minningasjóðs Lofts Gunnarsonar, fyrirtækja og fólksins í landinu komið upp fullbúnu athvarfi, það heitir Götuskjól-neyðarathvarf Götusmiðjunnar. 

Götusmiðjan hefur verið í leyfisferli í rúma 2 mánuði og er umsóknin enn til umfjöllunnar innan kerfisins (dags 23/3. 2015).

Hinsvegar er það ætlun okkar að hætta að segja “nei” við ungmennin og foreldra þeirra þann 1. apríl.

Götuskjól- neyðarathvarf er fullbúið til að taka á móti ungmennum í nauð. Þessa 2 mánuði sem við höfum haft lokað hafa mörg þeirra hringt af götunni og getum við þegar nafngreint a.m.k 19 ungmenni sem hafa sett sig í samband við okkur á þessum tíma og óskað eftir skjóli. Einnig hafa foreldrar og aðilar innan kerfisins óskað eftir þjónustunni. Því munum við eins og áður segir hætta að segja “nei” við óskum ungmenna um skjól 1. apríl, þrátt fyrir að formleg opnun verði ekki fyrr en kerfið hefur afgreitt umsókn okkar. 

Götuskjól-neyðarathvarf fyrir ungmenni 18+ starfar eftir húmanískri nálgun þar sem öllum skjólstæðingum er tekið af kærleika og þeir samþykktir á þeim stað sem þau eru. Meginvandi þeirra ungmenna sem sækja til Götuskjóls er vímuefnaneysla, afbrot og annar neikvæður lífsstíll sem er ekki viðurkenndur í samfélaginu. Starfsfólk leggur áherslu á setja sig ekki ofar skjólstæðingum sínum, heldur byggja upp traust og tengsl svo að aðstæður skapist til að vinna úr þeim vandamálum sem eru til staðar í lífi þeirra. Með því að að leggja áherslu á traust, hlýju og skilning skapast jákvætt “andrúmsloft” sem hjálpar ungmenninu að treysta starfsfólki fyrir sjálfum sér og skoða þau vandamál sem það er að fást við, samhliða vímuefnafíkn sinni.

GÖTUSKJÓLIÐ

Götuskjólið er hugsað sem “fyrsta hjálp” beint inn af götunni fyrir ungmenni. Þau eiga að geta bankað upp á eða gert vart við sig í gegn um neyðarsímann og í kjölfarið sótt á útideildarbílnum þarfnist þau þess. Þau eiga víst skjól samstundis séu aðstæður þeirra þess eðlis. Einu skilyrðin sem þeim eru sett að vímuefni og vopn eru ekki leyfileg inn í húsið og séu þau undir áhrifum fara þau beint í rúm eftir skráningu. 

Neyðarathvarfið er hugsað sem viðbót við þau úrræði sem fyrir eru, fyrsta hjálp frá götunni og inn í viðeigandi lausnir fyrir ungmenni. Athvarfið er hugsað sem öryggisnet að þau hafi valkost um húsaskjól og jákvætt umhverfi við allar aðstæður. Gert er ráð fyrir að allir viðkomandi aðilar vinni saman að lausnarmiðuðum úrræðum fyrir þau ungmenni sem leitar aðstoðar. Götusmiðjan veit að þörfin á einföldu bráðaúrræði sem ungmennin geta sjálf sótt í á borð við neyðarathvarf er skýr. Slík þjónusta brúar ákveðið bil í ferlinu, frá götu til úrlausna, og er einn hlekkurinn í samfelldum stuðningi sem þjóðfélagið vill veita ungmennum í vanda.

Smiðjan-dagsprógram Götusmiðjunnar 

Götuskjólið mun loka á bilinu 11:30-17:00, en nauðsynlegt er að virkja krakkana út í daginn. Þá munu þau hafa val um að koma í smiðju á þeim tíma sem neyðarathvarfið verður lokað, kjósi þau að vera edrú þann daginn. Smiðjan mun byrja á grúbbu undir stjórn ráðgjafa og að henni lokinni er ætlunin að fá þau í skapandi starf, vinna með höndunum að verkefnum sem smiðjan útvegar þeim.

Þessi þáttur er að sjálfsögðu valkvæður en stendur þeim til boða á þessum tíma. 

Útideild og neyðarlína: Númerið 800 1133 er gjaldfrjálst, opið allan sólahringinn, alla daga ársins. Neyðarlínan er hugsuð sem snertiflötur við þau ungmenni sem eru á vergangi og bera sig eftir aðstoð, hvort heldur vegna heimilisaðstæðna eða neyslu vímuefna og afbrotatengds lífsstíls. Götusmiðjan hefur bíll til umráða sem verður mannaður þeim sem eru á neyðarvaktinni hverju sinni. Ef viðkomandi ungmenni á ekki í nein hús að venda munu starfsmenn sækja viðkomandi hvar sem þau eru stödd. 

Reynslan sýnir að flest umræddra ungmenna enda á höfuðborgarsvæðinu óháð búsetu. Oft teygja þau sig eftir hjálp eftir að þau búin að fá nóg af skaðandi lífsstíl tímabundið eða varanlega. Útideildin hefur það hlutverk að að vera sjáanleg þessum ungmennum á götunni á þar til merktum bíl.

Kíkið endilega á heimasíðuna hjá Götusmiðjunni, þar er hægt að skrá sig sem mánaðarlegan styrktaraðila, 490 kr. 990 kr. eða 1990 kr. á mánuði með því að smella á þennan flipa   Margt smátt gerir eitt stórt. Hjálpumst að við að halda úti þessu úrræði.

 

Tengt efni: