Fara í efni

Fjöldi einstaklinga á háum skömmtum ávanabindandi lyfja

Embætti landlæknis hefur eftirlit með ávísunum ávanabindandi lyfja og óskar skýringa frá læknum ef einstaklingar fá ávísað óhóflega.
Fjöldi einstaklinga á háum skömmtum ávanabindandi lyfja

Embætti landlæknis hefur eftirlit með ávísunum ávanabindandi lyfja og óskar skýringa frá læknum ef einstaklingar fá ávísað óhóflega.

Á fyrri helmingi ársins 2017 fengu rúmlega 75 þúsund einstaklingar ávísað ávanabindandi lyfjum en í töflu hér fyrir neðan kemur fram fjöldi þeirra sjúklinga sem fá ýmsum ávanabindandi lyfjum ávísað í miklu magni.

Smellið til að opna pdf skjal með töflu: Fjöldi einstaklinga sem fær ávísað mismunandi ávanabindandi lyfjum í stórum skömmtum fyrri hluta 2015-2017.

Í töflunni sjást breytingar á fjölda einstaklinga síðustliðin þrjú ár en árin 2016 og 2017 eru fyrstu árin sem læknar hafa aðgang að lyfjagagnagrunni. Í einhverjum tilfellum hafa einstaklingar verið á háum skömmtum með því að verða sér úti um lyf hjá mörgum læknum (læknaráp) en slíkt er erfiðara í dag. Getur það samt sem áður átt sér stað, þar sem ekki eru allir læknar að nota lyfjagagnagrunninn nógu reglulega.

Einnig sést í töflunni að fjöldi einstaklinga er mjög mismunandi eftir flokkum lyfja. Margir einstaklingar fá stóra skammta af örvandi lyfjum eins og Rítalíni en ofnotkun svefnlyfja og róandi lyfja hefur lengi verið vandamál hér á landi. Jákvætt er að þeim fækkar sem eru á stórum skömmtum af svefn- og róandi lyfjum og einnig fækkar þeim sem fá stóra skammta örvandi lyfja. Það sem af er árinu 2017 hafa 597 einstaklingar fengið svefnlyfinu zopiklón (Imovane) ávísað í skömmtum sem jafngilda 15 mg á dag sem er tvöfaldur venjulegur dagskammtur eða meira. Imovane er það lyf sem flestir eiga í vandræðum með vegna þolmyndunar og/eða fíknar en lyfið er ætlað til notkunar í stuttan tíma við svefnerfiðleikum.

Það er áhyggjuefni að þeim sem fá ávísað sterkum verkjalyfjum fjölgar enn og eru t.d. 43 einstaklingar sem fá oxýkódon og 168 fá Parkodin forte í stórum skömmtum. Talsverður fjöldi fær stóra skammta af flogaveikilyfjum en sum þeirra eru eftirsótt af fólki með fíknivanda. Embættið hefur fengið svör frá læknum vegna sjúklinga sem fá stærstu skammtana og koma þar fram lýsingar á erfiðum veikindum sem ábending fyrir lyfjagjöf. Ef um langvarandi veikindi er að ræða er alltaf hætta á þolmyndun sem endar oft með því að fólk verður háð lyfjunum. Embættið gaf nýlega út leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja sem eru m.a. ætlaðar til að takmarka ofnotkun ávanabindandi lyfja.

Öll lyfin sem sýnd eru í töflunni eru ávanabindandi, með verkun á miðtaugakerfið, og getur ofnotkun þeirra haft veruleg áhrif á heilsu og líf fólks. Í daglegu lífi þarf fólk sem tekur þessi lyf að gæta þess að taka þau samkvæmt notkunarfyrirmælum lækna og huga vel að því að stjórna ekki ökutækjum og drekka ekki áfengi undir áhrifum lyfjanna.


Magnús Jóhannsson læknir
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur
Anna Björg Aradóttir sviðsstjóri