Fara í efni

Sumir eru fæddir reykingamenn

Læknir sem reykir er álíka trúverðugur og prestur sem stundar framhjáhald á AshleyMadison.com. Mér tókst, með erfiðismunum, að hætta fyrir áratugum og nú er komin fram ný rannsókn sem rennir stoðum undir þá hugmynd mína að mér hafi í raun verið ómögulegt að stunda reykingar að einhverju gagni. Sumir virðast nefnilega erfðafræðilega betur til þess gerðir að reykja en aðrir. Ég fell, eins og líklega flestir, í síðari hópinn.
Bogart var ekki með reykingagenið og dó úr krabba.
Bogart var ekki með reykingagenið og dó úr krabba.

Ég var byrjaður að reykja áður en ég hóf læknanámið en á kandítasárinu mínu í Dusseldorf áttaði ég mig á því að ég gæti ekki staðið í þessu lengur. Þetta hafði ekkert með hugmyndir mínar um hvernig hinn fullkomni læknir ætti að vera heldur var ósiðurinn farinn að há mér.

Bifhárin í nefinu voru öll gersamlega lömuð þannig að slím og drulla hlóðust upp í kokinu og ég var stöðugt ræskjandi mig og síhrækjandi. Ákaflega ósmekklegt allt saman.

Þetta ár hékk ég mikið á sama barnum, drakk bjór, reykti og reyndi að vera gáfulegur. Gamall og veðraður drykkjumaður var einn fastakúnninn þarna. Hann drakk viskí án klaka hraðar en ég og félagar mínir komumst í gegnum bjórkrúsirnar. Samt var hann alltaf síðasti maður út og gekk óstuddur. Þessi hrukkótti og rámi harðjaxl hét Rolf og ég geri nú ráð fyrir að hann sé löngu dáinn. Aðallega vegna þess að hann væri orðinn vel ríflega 100 ára væri hann enn á lífi. Drykkjan og reykingarnar virtust nefnilega ekkert endilega líklegust til þess að stytta honum aldur.

Rolf reykti fílterslausar Camel, örugglega hátt í þrjá pakka á dag, og virtist fara létt með það. Hann sagði mér einhvern tíma, eftir eitt hóstakastið mitt, að ég væri einfaldlega ekki gerður fyrir reykingar. Sumir gætu reykt, notið þess og komist upp með það á meðan aðrir réðu bara ekkert við þetta. Hann vildi meina að það væri meðfæddur hæfileiki að geta reykt án þess að rústa í sér lungunum.

Mér þótti þessi kenning hans mjög áhugaverð enda er þekkt staðreynd að sumir sem reykja nánast allt sitt líf kenna sér einskis mein í lungum og verða krabbameini ekki að bráð á meðan aðrir sem aldrei hafa snert sígarettu deyja af völdum lungnakrabba. Þetta fannst mér stórmerkilegt og ákvað að taka fullt mark á gamla rónanum og hætti að reykja. Vegna þess að ég var ekki fæddur reykingamaður.

Nú hafa breskir vísindamenn komist að því, með því að greina meir en 50.000 manns, að sumir eru erfðafræðilega betur til þess fallnir að reykja en aðrir. Lungu þeirra sem hafa þetta reykingagen virðast þola reykingar miklu betur en lungu þeirra sem eru ekki með genið.

Þetta breytir svo auðvitað engu um að best er að reykja aldrei og hætta því sem fyrst ef fólk er fast í fíkninni. Enda geta reikingar einnig valdið hjarta- og æðasjúkdómum og þessi rannsókn gaf þeim engan gaum þar sem rannsóknin hverfðist um áhrif reyksins á lungun.

Ýmsar leiðir eru til þess að hætta að reykja og enginn skortur er á hjálpartækjum til þess. Ég mun síðar fara yfir mína leið hérna, enda hef ég mikla trú á að hún geti gagnast fleirum.