Fara í efni

Hugarlausnir

Í Hugarlausnum er unnið með andlega, líkamlega og félagslega heilsu á sama tíma.
Sigrún Ásta hjá Heilsuborg
Sigrún Ásta hjá Heilsuborg

Hugarlausnir heitir átta vikna námskeið í Heilsuborg sem hentar þeim sem glíma við einkenni streitu, depurðar, kvíða og/eða þunglyndi

Hreyfing er fyrirferðarmesti hluti námskeiðsins en sérstaða þess er fólgin í kennslu í núvitund eða mindfulness. „Í raun gætu fleiri haft gagn af þessu námskeiði,” segir Sigrún Ása Þórðardóttir, sálfræðingur, sem kennir á námskeiðinu ásamt Elvu Brá Aðalsteinsdóttur sálfræðingi og Kristínu Birnu Ólafsdóttur þjálfara. „Námskeiðið hentar öllum sem glíma við áhyggjur eða álag hvort sem er í einkalífi eða starfi, og eiga orðið erfitt með að vera til staðar í núinu. Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn og áreitið er mikið og kröfurnar miklar getur verið erfitt að vera raunverulega til staðar og meðvitaður um það sem er að gerast á meðan það er að gerast.

Að vera til staðar í núinu

Sigrún Ása, ásamt Elvu Brá, sér um þann hluta Hugarlausna sem snýr að núvitund, sem er kallað mindfulness á ensku. Það snýst um að kenna fólki að vera til staðar í núinu. „Núvitund felst í því að vita hvað er að gerast á meðan það er að gerast og er eiginleiki sem við búum öll yfir en í mismiklum mæli. Á mínum hluta námskeiðsins, kenni ég einfaldar hugleiðsluæfingar sem hafa það að markmiði að beina athyglinni inn í núið og að einu í einu. Við reynum að verða meðvituð um hvenær sjálfstýring hugans er komin á. Það er lögð áhersla á einfaldar æfingar sem fólk getur tekið með sér út í lífið.“ Dæmigerð æfing í núvitund snýst um að beina athyglinni að andardrættinum, taka eftir þegar hugurinn flögrar í burtu og beina þá athyglinni á mildan máta aftur að andardrættinum. Þegar við erum til staðar og meðvituð þá bæði njótum við betur þess sem lífið hefur upp á bjóða sem og við erum líklegri til að taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir okkur sjálf.

Vera mild við okkur sjálf

Sigrún Ása segir að núvitund komi úr aldagömlum austrænum hugleiðsluaðferðum en lögð sé

sérstök áhersla á að virkja það viðhorf innra með okkur að vera mild við okkur sjálf. „Við erum svo gjörn á að vera hörð við okkur sjálf, við erum alltaf að dæma okkur. Ég vinn mikið með einstaklingum sem glíma við streitu og oftar en ekki eru þetta einstaklingar sem gera miklar kröfur í eigin garð bæði í einkalífi og starfi, keyra sig oftar en ekki áfram, virða ekki mörkin fyrr en allt sýður uppúr. Við kennum fólki æfingar sem hjálpa því að staldra við og hlusta á eigin líðan og hugsanir og umfram allt að vera mildara við sig.

Andleg, líkamleg og félagsleg heilsa - Hreyfiseðlar

Sigrún Ása segir að oft sé fólk ekki nógu duglegt að hlúa að heilsunni í heild sinni. Með heildrænni nálgun Heilsuborgar sé það hins vegar möguleiki. Í Hugarlausnum er unnið með andlega, líkamlega og félagslega heilsu á sama tíma. Námskeiðið er átta vikur og samanstendur af hreyfingu og núvitund. „Þrisvar í viku hittir einstaklingur þjálfara sem setur upp þjálfunaráætlun eftir forskrift hreyfiseðils. Áður en núvitundarhlutinn kemur til sögunnar í þriðju viku fara allir í eitt einkaviðtal til mín, sem er innifalið. Við hittumst svo í hópþjálfun í núvitund einu sinni í viku í fjórar vikur og leggjum áherslu á að hugleiðsluæfingar séu gerðar milli tíma. Næsta námskeið í Hugarlausnum hefst í byrjun september. Nánari upplýsingar er að finna á heilsuborg.is