Fara í efni

Grænkáls snakk frá Elshúsperlum

Sonur minn kom færandi hendi heim úr skólagörðunum í gær með fleiri kíló af dásamlegu grænmeti sem hann hefur ræktað í sumar.
Grænkáls snakk frá Elshúsperlum

Sonur minn kom færandi hendi heim úr skólagörðunum í gær með fleiri kíló af dásamlegu grænmeti sem hann hefur ræktað í sumar. Þvílík hamingja sem fylgdi þessari grænmetissendingu. Það vita flestir að það jafnast hreint ekkert á við nýsoðið smælki borið fram með smjeri og góðu sjávarsalti.

Það eru því góðir tímar framundan hjá okkur og ýmislegt prófað með nýja grænmetinu þó stundum sé líka bara gott að borða það hrátt eins og það kemur upp úr jörðinni. Eitt af grænmetinu sem Gunnar kom með heim var grænkál. Það skal viðurkennast hér með að einlægari aðdáendur grænkáls en undirrataða má auðveldlega finna. Ég veit ekki alveg af hverju hálfgert æði spratt í kringum þetta stórkostlega grófa og óárennilega kál? Soðið, hrátt eða steikt er það bara ekki að gera neitt fyrir mig svei mér þá.

En má ég þá víkja sögunni að þessu stórgóða grænkálssnakki. Einu leiðinni til að borða grænkál ef þið spyrjið mig. Eins mikið og mér mislíkar almennt grænkál er ég jafn hrifin af grænkálssnakki. Það gjörsamlega umbreytist í eitthvað dásamlega stökkt, létt og skemmtilegt. Það er ekkert mál að gera svona snakk en gott að hafa nokkur atriði í huga.

Ég hvet ykkur til að prófa grænkálssnakk og koma einhverjum á óvart með þessu nýstárlega nasli.

Svona geri ég:

  • Eitt vænt búnt grænkál (passlegt á tvær bökunarplötur)
  • 1 msk ólífuolía (ekki freistast til að setja meira)
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk sítrónupipar
  • 1 tsk reykt paprika
  • 1/4 tsk cayenne pipar (má sleppa)
  • 1 tsk gott sjávarsalt (t.d. Saltverk)

Hitið ofn í 145 gráður með blæstri, annars 165 gráður. (Mér finnst blástur virka betur hér)

Byrjið á að fjarlægja stilkana af grænkálinu og rífið það svo í passlega bita, passið að hafa bitana ekki of litla.

Setjið grænkálið í skál og sáldrið olíunni yfir það. Nuddið olíunni vel inn í allt grænkálið með fingrunum þannig að hver einasti grænkálsbiti hafi smá olíu á sér. Það má alls ekki ofgera olíunni hér, smá olía dugar á helling af grænkáli.

Hrærið kryddinu saman í skál og stráið yfir kálið. Hrærið því vel saman við.

Setjið kálið í einfalt lag á tvær pappírsklæddar bökunarplötur. Alls ekki hrúga eða stafla kálinu, þá er meiri hætta á að það gufusoðni í stað þess að steikjast.

Bakið í 20-25 mínútur. Leyfið snakkinu að kólna á bökunarplötunni. 

Setjið á fallegan disk eða skál og berið fram. Stráið meira salti yfir ef ykkur finnst þurfa. 

Þessi girnilega uppskrift er af vef eldhusperlur.com

Og einnig má finna eldhúsperlur á Facebook.