Fara í efni

VIÐTALIÐ: Sigurbjörg Rut stundar Akró sirkhúsfimleika – kynntu þér Akró

Það er alltaf gaman að fræðast um nýjar aðferðir til að hreyfa sig. Kíktu á flott viðtal og fáðu upplýsingar um hvað Akró er beint í æð.
VIÐTALIÐ: Sigurbjörg Rut stundar Akró sirkhúsfimleika – kynntu þér Akró

Það er alltaf gaman að fræðast um nýjar aðferðir til að hreyfa sig.

Kíktu á flott viðtal og fáðu upplýsingar um hvað Akró er, beint í æð.

 

Fullt nafn:

Sigurbjörg Rut Hilmarsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ert þú?

Ég er Selfyssingur að uppruna en flutti til Reykjavíkur þegar ég fór í háskólann til að læra lögfræði. Nú bý ég í Vesturbænum, sem mér finnst oft meira eins og smábær heldur en Selfoss.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, lögfræðingur frá Háskóla Íslands (í leyfi frá lögfræðistörfunum), nemi við einkaþjálfaraskóla World Class (eða útskrifuð, fer eftir því hvenær þetta birtist) og formaður Akró Íslands.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Akró, líkamsrækt, matur og bakstur. Hljómar eins og algjör klysja í svona viðtali en þetta er satt.

Bakgrunnur í íþróttum?

Ég var í fimleikum á Selfossi frá c.a 8 ára til 18 ára aldurs. Ég þyrfti að spyrja mömmu hvenær ég byrjaði nákvæmlega. Eftir að ég hætti í fimleikum var ég aðallega í magadansi í nokkur ár og fór síðan í Háskóladansinn ásamt því að þjálfa sjálfa mig. Gegnum dansinn kynntist ég Kalla sem er alltaf að prófa eitthvað nýtt og spurði hann hvort ég vildi prófa að mæta með sér í akró jóga.  Þar hittum við Tom og nú erum við þrjú saman stjórn Akró Íslands.

Segðu okkur frá AKRÓ -

Nú gæti ég talað endalaust, en reyni að hemja mig, smá.

Mér finnst fátt skemmtilegra í lífinu en að kenna akró. Við sýnum fólki sem kemur til okkar að það getur gert meira en það heldur og oftast miklu meira en því dettur í hug.

Einfaldasta leiðin er að segja að akró séu sirkusfimleikar. En það er ekki alveg rétt því það geta ekki allir framkvæmt sirkusfimleika en það geta allir æft akró. Orðið akró kemur úr grísku og merkir að vera hátt uppi. Í akró er maður oft hátt uppi en í hnotskurn er akró íþrótt skyld fimleikum, jóga, dansi og jafnvægislistum, þar sem tveir eða fleiri stunda æfingar saman. Flæði, stöður, lyftur og köst. Akró er hrikalega skemmtileg íþrótt sem sameinar þetta allt. Maður gerir allt sem manni dettur í hug að gera en getur ekki gert einn. Sumar æfingarnar eru líkastar því sem við sjáum í sirkus, aðrar eru líkari dansi og jóga.

Ég fer í akró til að leika mér við annað fólk. Hlæja að mistökunum og fagna sigrunum. Akrótími getur verið 90 mínútna hláturskast. Líkamsræktin er auka bónus. Í akró gleymi ég stað og stund og hvíli þar með hugann. Á hverri æfingu sigrar maður sjálfan sig, nær nýjum markmiðum og fagnar bæði sér og öðrum

Í akró er að lágmarki einn að lyfta, einn að fljúga og einn að passa, og öll hlutverkin eru jafn mikilvæg. Sá sem lyftir er kallaður lyftari (base) og sér um að lyfta eins og nafnið ber með sér. Flugan (flyer) er sá sem lyftarinn lyftir og öryggisvörður (spotter) er sá sem passar að enginn detti í gólfið, leiðbeinir, hvetur og hjálpar til. Allir geta verið lyftari, fluga eða öryggisvörður, þó það sé oftast rökréttara að lyftarinn sé stærri en flugan þá er það engin algild regla. Maður þarf hvorki að vera stór né sterkur til að lyfta eða lítill og nettur til að fljúga. Þetta er allt spurning um tækni og samvinnu. Allir tala saman um hvað á að framkvæma og hvernig. Í akró tímum eru allir á sömu forsendum, mættir til að leika sér í akró með öðru fólki, tilbúnir að treysta öðrum þátttakendum því það er forsenda þess að æfingarnar gangi upp.

Akróæfingar eru mjög góð líkamsrækt, bæði einar og sér og sem og stuðningur við aðra þjálfun. Akró styrkir sérstaklega miðju líkamans, þ.e kviðinn og bakið og er líka góð æfing fyrir alla vöðva sem hjálpa okkur að halda jafnvægi og stöðugleika t.d. í mjöðmum og öxlum. Vöðvar sem sjaldan fá næga athygli.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Ég á mjög stóran ísskáp og elska að elda þannig að það er ansi margt sem er alltaf til. En þar sem ég er algjör mjólkurkálfur get ég fullyrt að það er alltaf til skyr, einhver mjólk og kotasæla. Ef það er ekki til er ég hálf vængbrotin og veit ekki hvað ég á að borða.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Þetta breytist nánast í hverjum mánuði, allavega á hverju ári. Ég er svo nýjungagjörn og elska að borða og smakka. En uppáhaldsmaturinn minn í augnablikinu er andaconfit, besti matur sem ég hef fengið á Íslandi er á Grillinu á Hótel sögu en besti erlendis var á pínulitlum sveitaveitingastað í La Marche á Ítalíu.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Ég er mest að lesa námsefni til prófs í einkaþjálfaraskólanum þessa dagana. Ég er bókaormur og elska bækur, uppáhaldsbókin mín er Hroki og hleypidómar eftir Jane Austin. Í alvöru! Ég verð vör við talsverða hleypidóma í minn garð þegar ég segi þetta, en ég skal ræða við hvern sem er um hversu frábær þessi bók er. Ég les hana örugglega annað hvert ár. Annars væri ég að ljúga ef ég segði ekki að það sem ég les mest eru matarblogg.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Aftur verð ég að tala um mat. Ég annað hvort elda mér góðan mat eða fer út að borða góðan mat. Það er pottþétt. Annað gott væri sund, skemmtilegur akrótími eða jafnvel þung lyftingaæfing. Skemmtileg líkamsrækt plús matur er góð blanda.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ég er mikið fyrir áætlanir þegar kemur að stórum og erfiðum verkefnum og spyr mig spurninga. T.d.  hvað vil ég fá út úr verkefninu? Hvernig kemst ég þangað sem ég vil komast? Þegar ég veit svörin er ekkert að vanbúnaði og ég get lagt af stað.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?

Sem fljúgandi, þjálfandi lögfræðing. Hvar og hvernig það verður samsett verður að koma í ljós.

HÉR er Facebook síða Akró og Hér er Instagram Akró, akroisland.