Fara í efni

VIÐTALIÐ – Kristbjörg kennir Aqua Zumba og er einnig mikill ástríðu kokkur

Hún Kristbjörg er kennari í Aqua Zumba sem er alveg frábær íþrótt að stunda og geta allir sem eru komnir yfir 18 árin mætt í tíma til hennar.
VIÐTALIÐ – Kristbjörg kennir Aqua Zumba og er einnig mikill ástríðu kokkur

Hún Kristbjörg er kennari í Aqua Zumba sem er alveg frábær íþrótt að stunda og geta allir sem eru komnir yfir 18 árin mætt í tíma til hennar.

Einnig hentar Aqua Zumba mjög vel þeim sem eru slæmir í liðum, ófrískum konum og þeim sem eldri eru.

Kíktu á fræðandi og flott viðtal við hana Kristjbörgu.

 

Fullt nafn:  Kristbjörg Ágústsdóttir

 

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?

Ég er uppalin í Kópavogi en bý í Garðabæ. Ég er gift og móðir tveggja unglinga.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég er með MS gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá HÍ og með kennsluréttindi. Ég starfa, auk Zumbakennslunnar, sem framhaldsskólakennari í Menntaskólanum við Sund þar sem ég kenni m.a. umhverfisfræði, lífsleikni og landafræði.

Hver eru þín helstu áhugamál ?

Dansinn er aðaláhugamálið mitt og fæ ég mikla útrás fyrir hann í Zumba. Svo höfum við hjónin stundað samkvæmisdansa í mörg ár. Og ég er líka mikill ástríðukokkur og finnst gaman að elda. En þar sem ég er oft að kenna á matmálstímum fæ ég ekki eins mikla útrás fyrir það áhugamál. Mér finnst einnig voða gott að vera með fjölskyldunni og taka því rólega, fara út að borða saman eða í bíó.

Bakgrunnur íþróttum og heilsurækt ?

Var í jassballet hjá Báru í gamla daga. Þangað til ég hellti mér í zumbað var ég aðalega á líkamsræktarstöðvunum. Og svo auðvita samkvæmisdansinn.

Hvaða tegund af heilsurækt stundar þú sjálf annað en að kenna Aqua Zumba?

Ég stunda nú ekki margt samhliða Aqua zumba þar sem það tekur ansi mikinn tíma og orku, en mér finnst gott að fara sjálf í sund. Þegar ég hef tíma kíki ég líka í Zumba hjá Tönyu vinkonu minni í Heilsuskóla Tönyu. Það er líka gaman í fara í zumbatíma hjá hinum og þessum kennurum. Ekki má gleyma samkvæmisdansinum sem hefur átt fastann tíma í mörg ár en fer nú í pásu vegna anna í Aqua zumba.

Hver var kveikjan að Aqua Zumba og hver eru ykkar markmið næstu 5 árin ?

 Zumba er og var vinsæl líkamsrækt hér en Aqua zumba var ekki þekkt. Þannig að þegar tækifæri gafst fannst mér spennandi að byggja upp Aqua Zumba á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess hve sundlaugarmenningin er sterk hér á landi. Markmiðið er að halda áfram á sömu braut, að kynna Aqua zumba sem skemmtilegan og öðruvísi valkost í heilsurækt og að Aqua zumba er fyrir alla.

Hvenær byrjuðu þið með Aqua Zumba ?

Haustið 2012 kom hingað til lands leiðbeinandi frá Zumba, svokallaður ZES (Zumba educational specialist) og var með námskeið í Aqua Zumba. Ég hafði skráð mig á námskeiðið um sumarið og fannst það mjög spennandi en hafði þó aldrei prófað að fara í tíma. Ég hafði samband við Klifið og við settum í gang námskeið en til að byrja með vorum við bara með einn tíma á viku. Síðan þá höfum við verið að byggja upp námskeiðið og núna eru 5 tímar á viku.

Hvaða aldursmörk setjið þið og hvað með öryggi ?

Aqua Zumba er fyrir fullorðna, þ.e. 18 ára og eldri.  Við vinnum samkvæmt lögum og reglugerðum um sundstaði og þar gilda strangari reglur um börn auk þess sem Aqua Zumba var ekki þróað með börn í huga. Varðandi öryggi þá dönsum við í vatninu þannig að það nær um það bil upp að handarkrikum. Vatnið heldur vel um líkamann og hætta á meiðslum er mjög lítil. Við hoppum mikið en vegna vatnsins og mótstöðu þess er lítið álag á líkamann, liðina og vöðvana. Sem leiðbeinandi í sundlaug fer ég einnig reglulega á skyndihjálparnámskeið og í sundpróf.

Er Aqua Zumba fyrir alla, er þetta ekkert aðeins of sérhæft fyrir hinn almenna borgar ?

Aqua Zumba er alls ekki of sérhæft. Það er skemmtilegt fyrir alla, sama hvort kyn, hvaða aldur eða líkamsástand. Það fá allir góða líkamsrækt í Aqua Zumba. Vatnið hjálpar við að mótstöðu og fólk getur stjórnað sjálft hversu mikið álag er, hvort hreyfingarnar eru stærri eða minni, hvort hoppað er meira eða minna.

Ef ófrísk kona er vön að hreyfa sig daglega er henni óhætt að koma í tíma til ykkar og hvað með þá sem eru í eldri kanntinum ?

Já henni er alveg óhætt að koma, það hefur verið hjá mér ófrísk kona sem var komin á síðasta hluta meðgöngunnar. Vatnið passar okkur svo vel og það er lítið álag á líkamann.  Þeir sem eru eldri fá líka heilmikið út úr tímunum því það er auðvelt að hreyfa sig í vatninu. Hjá mér hefur verið í rúmt ár kona sem labbar með göngugrind og dansar svo eins og enginn væri morgundagurinn í vatninu. Þessi hreyfing hefur hjálpað henni  heilmikið varðandi almenna hreyfigetu. Svo má ekki gleyma félagslega hlutanum, það að hittast reglulega, skemmta sér í lauginni og spjalla svo í pottinum á eftir er gott fyrir líkama og sál.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

egg, íslenskt smjör og osta.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Ég held að ég gæti ekki lifað án eggja, osts og kjúklings. Svo er ég voða hrifin af sushi. Ég sakna Humarhússins en við fórum reglulega þangað. Einnig finnst mér sushi frá Tokyo sushi mjög gott.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég var að klára DNA eftir Yrsu Sigurðardóttir sem hér fannst ansi ruddaleg á köflum og núna er ég að lesa Sjóræningjann eftir Jón Gnarr. Hann nær að spila á allann tilfinningaskalann. Annars hef ég lesið margar góðar og/eða skemmtilegar bækur en ég get nú ekki valið eina "besta".

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Fer eitthvert huggulegt út að borða með eiginmanninum og svo í bíó.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Á svipuðum stað og í dag, en búin að dansa og kenna Aqua Zumba vítt og breytt um heiminn.