Fara í efni

Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir í Heilsuborg í viðtali

Hún Erla starfar sem læknir í Heilsuborg. Hennar hlutverk þar er fyrst og fremst að veita einstaklingum ráðgjöf um hvernig þeir geta bætt sinn lífsstíl og öðlast betri heilsu.
Erla læknir í Heilsuborg
Erla læknir í Heilsuborg

Hún Erla starfar sem læknir í Heilsuborg. Hennar hlutverk þar er fyrst og fremst að veita einstaklingum ráðgjöf um hvernig þeir geta bætt sinn lífsstíl og öðlast betri heilsu.

"Við byggjum okkar nálgun á hornsteinum góðrar heilsu sem eru regluleg hreyfing, holl næring, endurnærandi svefn og sálarró. Við erum þannig að vinna með heildarmyndina sem er lykill að því að ná langtíma árangri. Ég er heimilislæknir að mennt og hef undanfarin ár unnið mikið með einskaklingum sem glíma við offitu og aðra lífsstílstengda sjúkdóma bæði í heilsugæslu, á Reykjalundi og á Heilsustofnun í Hveragerði".

"Ég og Anna Borg mágkona mín og sjúkraþjálfari, stofnuðum Heilsuborg sem nú hefur starfað í 4. ár og fer hratt stækkandi. Okkur fannst vanta stað þar sem einstaklingar geta komið og fengið vandaða þjónustu fagaðila á heilbrigðissviði við að gera það sem í þeirra valdi stendur til að öðlast betri heilsu. Það hefur fallið í góðan jarðveg og það er dásamlegt að upplifa hve margir af þeim sem koma til okkar ná að breyta sínum lífsstíl, bæta heilsuna og öðlast betri lífsgæði því allt þetta heilsubrölt snýst jú um að geta notið  lífssins" sagði Erla.

Í Heilsuborg starfar stór hópur af frábæru fólki sem hefur gert þessa uppbyggingu mögulega.

Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat? 

Hefðbundinn dagur byrjar rúmlega 7. Þá þarf að gera nesti og koma öllum af stað inn í daginn. Morgunmaturinn er alltaf lýsi, hafragrautur, léttmjólk og síðan góður kaffibolli. Við erum mjög íhaldssöm með morgunmatinn og söknum hafragrautarins þegar við gerum undantekningar í einhvern tíma eins og nú um hátíðarnar.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Egg, léttmjólk, ostur, smjörvi, hvítlaukur, laukur, gúrka og rauð paprika.

Hvað er það sem Heilsuborg býður uppá?

Við erum nokkurskonar brú milli líkamsræktar og heilbrigðiskerfinsins. Heilsuborg er staður þar sem hægt er að fá aðstoð við að vinna með heilsuna sína og breyta lífsstílnum í átt til hins betra skref fyrir skref.

Áherslan er lögð á að aðstoða einstaklinginn við að gera það sem hann sjáfur getur og vill gera fyrir sína heilsu. Það á bæði við þegar við viljum fyrirbyggja heilsubrest eða vinna með verkefni sem eru þegar til staðar. Sérstaðan okkar liggur í námskeiðunum sem við höfum sett saman fyrir hópa sem eru að glíma við svipuð verkefni. Þar blöndum þar saman hreyfingu, fræðslu og ráðgjöf.

Svo er auðvitað hægt að koma beint til fagaðilanna eða beint í heilsuræktina og æfa í rólegu og heimilislegu umhverfi.

Hvernig leggst skammdegið í þig?

Ég kann betur við birtuna og löngu dagana. En maður gerir bara það besta úr stöðunni hverju sinni.

Ef einhver er að byrja að hreyfa sig aftur eftir t.d. veikindi, hverju myndir þú mæla með, þ.e hvernig væri best að byrja? 

Ég mæli með ráðgjöf fagaðila til að finna bestu leiðina til að komast af stað. Mörgum hættir til að fara of geyst af stað og upplifa þá oft bakslag sem gerir stöðuna erfiðari og stutt verður í vonleysið. Það er svo mikilvægt að byrja þar sem maður er.

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?

Ég fer út að labba með hundinn næstum daglega. Ég geri síðan oft æfingar heima í stofu eftir gönguferðina í smá stund sem er gott fyrir líkama og sál. Auðvitað mæti ég svo reglulega í ræktina í Heilsuborg. Ég hef staðfest frá mínum þjálfara, Önnu Borg að mætingin mín þar sé regluleg en ég kýs að gefa ekki upp hve langt er á milli æfinganna.

Áttu uppáhalds tíma dags?

Smá kyrrðarstund að kvöldi er alltaf góð til að skoða stöðuna eftir daginn og undirbúa verkefni næsta dags. Það sem er hinsvegar algerlega uppáhalds eru rólegir morgnar um helgar þar sem við hjónin lesum blöðin og spjöllum um fréttir dagsins, lífið og tilveruna. Gott kaffi, húsið hreint, ekkert planað fyrir daginn framundan og allir úthvíldir.  Algerlega uppáhalds þegar þetta gerist.

Færir þú hjólandi um borgina ef færð leyfði? 

Nei ég og reiðhjól höfum ekki náð saman.

Kaffi eða Te? 

Bæði, góður kaffibolli að morgni er dásamlegur. Tebolli á kvöldin í slökun eftir amstur dagsins er líka dásamlegur.

Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?

Skoðaðu hvað hentar þér. Ekki hlaupa á eftir nýjustu bólunni eða einhverju sem aðrir í kringum þig hafa náð árangri með.  Fáðu ráðgjöf ef þú ert ekki viss um hvað hentar, taktu síðan eitt skref í einu í átt að markmiðinu sem þú setur þér. Þannig kemstu alla leið.

Hér finnur þú svo síðu Heilsuborgar og Facebook síðu þeirra.