Fara í efni

Af hverju að setja sér markmið, Margrét Lára knattspyrnukona

Ég er mjög fylgjandi því að fólk setji sér markmið í lífinu. Þá er ég ekki aðeins að tala um íþróttamenn, stjórnendur fyrirtækja, listamenn eða annað framafólk, heldur allir.
Margrét Lára á vellinum
Margrét Lára á vellinum

Ég er mjög fylgjandi því að fólk setji sér markmið í lífinu. Þá er ég ekki aðeins að tala um íþróttamenn, stjórnendur fyrirtækja, listamenn eða annað framafólk, heldur allir.

Ég hef persónulega mjög jákvæða upplifun af því að setja mér mín eigin markmið og hef sett mér mjög mörg í lífinu. Flestum þeirra hef ég náð.

Á hverju ári hef ég lagt í vana minn að setja mér alltaf tvennskonar markmið. Annað þeirra snýr að knattspyrnunni en hitt að mér sem manneskju. Nýlega varð ég svo lánsöm að hafa fengið það hlutverk að verða móðir og er það er minn nýji markmiða vettvangur.

Draumamarkmið eru uppáhaldsmarkmiðin mín en það eru markmið sem mig dreymir um að ná en virðast vera óralangt í burtu.

Dæmi um þrennskonar draumamarkmið sem ég hef sett mér í gegnum tíðina og hef náð eru að verða móðir áður en ég yrði 30 ára, verða valin íþróttamaður ársins á mínum knattspyrnuferli og að spila með einu sigursælasta og besta félagsliði heims í kvennafótbolta Turbine Potsdam frá Þýskalandi. Ég fæ gæsahúð bara við það að skrifa þessi orð niður því að öll þessi þrjú markmið vekja upp einstaka gleðitilfinningu.

Fyrir utan þessi þrjú markmið þá hef ég sett mér mörg önnur sem ég hef bæði náð og ekki náð. Öll markmið sem ég hef sett mér og hafa náð að vekja upp þessa sömu gleðitilfinningu og því hef ég lagt í vana minn að setja mér alltaf ný og ný markmið til þess að fá að upplifa þessa tilfinningu aftur og aftur.

Lykilinn að því að ná markmiðum sínum er að mínu mati fyrst og fremst sá að leggja á sig mikla vinnu. Að sama skapi þurfa makmiðin að vera raunhæf svo að maður gefist bara ekki upp því oft er fjarlægðin frá markmiðinu svo mikil í byrjun.

Persónulega finnst mér nauðsynlegt að hafa markmiðin mín sýnileg til dæmis rituð á blað sem hangir uppi á vegg, á ískápnum eða í náttborðsskúffunni þannig að ég sé alltaf beint eða óbeint að hugsa um þau. Að auki eru þessi litlu markmið sem skiptir svo miklu máli að ná, áður en STÓRA markmiðið er komið í hús.

Fyrsta stig markmiðasetningar er að taka ákvörðun um að breyta eða betrumbæta líf sitt. Sumir þurfa að léttast um nokkur kiló, aðrir þurfa að safna fyrir útborgun á húsnæði, sumir vilja hætta að reykja, einhverjum finnst þeir þurfa að gefa sér meiri tíma fyrir fjölskyldu og vini og enn aðrir eru að setja sér markmið um að ná glæstum persónulegum sigrum innan íþrótta.

Ekkert þessara markmiða er eitthvað mikilvægara eða flottara en annað. Öll markmið sem snúa að því að betrumbæta útgáfuna af okkur sjálfum eiga rétt á sér.

Þrátt fyrir að vera mikill talsmaður markmiðasetningar og hafa mjög góða reynslu af þeim þá er samt staðreyndin sú að ég stóð sjálfa mig að því um daginn að ég var ekki búin að setja mér markmið fyrir árið 2015 hvorki fyrir minn knattspyrnuferilinn né mig sem manneskju. Ástæðan fyrir þessu er mjög einföld, ég var hrædd við að setja mér markmið, þorði því ekki vegna þess að ég var ekki viss um að gæti náð þeim. Sjálfstraustið var ekki til staðar.

Staðreyndin er nefninlega sú að við verðum að hafa sjálfstraust og þor til að setja okkur markmið. Þetta var algjörlega nýtt fyrir mér því ég hef aldrei lent í þessu áður. Ég hálf skammaðist mín fyrir þetta og skyldi ekki hvað ég var að spá!! Ástæðan fyrir þessari hræðslu minni er hins vegar sú að ég er að koma til baka í fótboltann eftir eins og hálfs árs fjarveru vegna barneigna. Að auki hef ég verið meidd aftan í lærum síðan árið 2008 og ekki ná að beita mér á fullu vegna þeirra.

Undanfarin ár hef ég alltaf sett mér háleit markmið en eftir því sem árin hafa liðið hef ég náð færri og færri af þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Eins mikil gleðitilfinning og það er að ná markmiðum sínum er það jafn niðurbrjótandi að ná þeim ekki.

Ég lét hræðsluna við það að upplifa þessa niðurbrjótandi tilfinningu vera yfirsterkari þeirri gleðitilfinningu að ná markmiðum mínum. Í dag skil ég því mun betur fólk sem er t.d í yfirvigt og sér fram á að þurfa að taka af sér 40-50 kíló til þess að komast í kjörþyngd. Það hefur kannski prófað alla megrunarkúra á landinum, misst nokkur kílo og náð þannig hluta af markmiðum sínum en alltaf farið út af sporinu og bætt á sig aftur.

Það er einmitt svona sem ég upplifa mín síðustu ár í boltanum. Ég hef sett mér háleit markmið og haft mikla trú á því í byrjun að ég muni ná þeim en síðan byrja ég að finna mikla verki í lærunum, þá get ég ekki beitt mér að fullu og næ því ekki markmiðunum mínum. Sorgleg staðreynd!!

Hvað er hins vegar til ráða?

Auðveldasta leiðin fyrir mig hefði verið að hætta í fótbolta fyrir 7 árum síðan vegna meiðsla og allir hefðu munað eftir mér sem einni bestu knattspyrnukonu Íslands fyrr og síðar. Hins vegar er ég ekki þekkt fyrir að taka ,,the easy way out” og því hef ég barist með kjafti og klóm í öll þessi ár til að ná heilsu aftur. Þessi tími hefur kennt mér mikið og ég er farin að sjá lífið í öðru ljósi. Staðreyndin er hins vegar sú að ég verð alltaf jafn svekkt og leið þegar ég get ekki æft eða spilað.

Hvað varðar markmið hefur þessi tími kennt mér það hversu mikilvægt það er að setja sér raunhæf markmið, markmið sem ég veit að ég get náð.

Draumamarkmiðin mín eru alltaf til staðar en þessi litlu markmið skipta mig meira máli í dag en þau gerðu áður. Það að ég get spilað án verkja og eymsla er mér mun mikilvægara í dag, en að verða besti eða markahæðsti leikmaður sænsku úrvaldsdeildarinnar. Forsendurnar hafa breyst en það tók mig mörg ár að átta mig á því að ef mig langaði að gera það sem mér finnst skemmtilegast, nefninlega að spila fótbolta, yrði ég að lækka væntingarnar, breyta markmiðunum og njóta hverra mínútu.

Markmið mitt akkurat núna er því að setjast niður eins og ég hef gert á hverju einasta ári síðastliðin 13 ár og setja mér markmið. Markmiðin eru kannski ekki eins ,,töff” og þegar ég var 20 ára og ferilinn blasti við en þau eru mér samt alveg jafn kær og munu vekja upp sömu gleðiðtilfinningar þegar ég næ þeim eins og þegar ég var valin íþróttamaður ársin á Íslandi árið 2007.

Margrét Lára Viðarsdóttir
Íþróttafræðingur
Atvinnukona í knattspyrnu