Fara í efni

Helgarbröns að hætti Helenu

Helgarbröns að hætti Helenu

Fylltir croissant bátar með gratínosti, vorlauk og beikoni (fyrir tvo)

  • 2 tilbúin stór croissant, líka hægt að nota t.d. heilhveitihorn
  • 3 egg
  • 2 msk. rjómi frá Gott í matinn
  • 2 dl rifinn gratínostur frá Gott í matinn
  • 4 sneiðar beikon, steikt og smátt skorið
  • 2 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Salt og pipar

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri, annars 200 gráður. Pískið saman egg og rjóma, bætið ostinum saman við ásamt steiktu beikoni og lauknum. Hrærið saman og kryddið með ögn af salti og vel af nýmöluðum svörtum pipar. Skerið vasa í hornin og fjarlægið dálítið af innihaldinu til að koma fyllingunni fyrir. Skiptið fyllingunni á milli hornanna. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til fyllingin er bökuð í gegn. Uppskriftina má auðveldlega margfalda.

Einnig er hægt að fylla rúnstykki eða heilt baguette með sömu aðferð.

Fullkomin brönsbaka með Óðalsosti, Dijon sinnepi, skinku og eggjum (fyrir fjóra)

  • 6 vænar brauðsneiðar súrdeigsbrauð (upplagt að nota dagsgamalt eða jafnvel eldra brauð sem hefur aðeins þornað)
  • 6 egg
  • 5 dl matreiðslurjómi frá Gott í matinn
  • 1 msk. Dijon sinnep
  • 3 dl rifinn Óðalsostur
  • Salt og pipar
  • 150 g silkiskorin skinka

Það er einnig mjög gott að bæta við t.d. nokkrum smjörsteiktum sveppum í sneiðum, aspas eða öðru grænmeti. Um að gera að prófa sig áfram.

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður. Rífið brauðið í grófa bita og raðið í smurt eldfast mót. Skerið skinkuna í strimla og dreifið yfir. Pískið saman egg, mjólk, rjóma, sinnep og kryddið með smá salti og pipar. Bætið ostinum saman við. Hellið þessu yfir brauðið og skinkuna og látið standa í 5-10 mínútur þannig að brauðið nái að draga vökvann aðeins í sig. Bakið í 35 mínútur eða þar til gullinbrúnt og eldað í gegn. Stráið að lokum smá steinselju yfir.

Það er afar gott að bera bökuna fram með fersku tómatasalati.

Himneskur croissant brauðbúðingur með vanillu og súkkulaði 
(fyrir þrjá til fjóra sem eftirréttur)

  • 2 croissant (betra ef þau eru dagsgömul eða aðeins farin að þorna)
  • 100 g dökkir súkkulaðidropar eða saxað súkkulaði
  • 3 egg
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 tsk. vanilluextract
  • 2 msk. hrásykur
  • Fersk jarðarber

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður. Smyrjið lítið eldfast mót. Rífið niður croissant og setjið í mótið, stráið súkkulaðinu yfir. Pískið saman eggjum, rjóma, vanillu og helmingum af sykrinum. Hellið yfir croissantið og súkkulaðið og látið standa í 5-10 mínútur. Stráið 1 msk. af hrásykri yfir og bakið í 30 mínútur eða þar til eldað í gegn og gullinbrúnt og stökkt að ofan.

Berið fram volgt með ferskum jarðarberjum.

Uppskrift af vef gottimatinn.is